miðvikudagur, maí 12, 2004

Ólýsanlegur hryllingur

Ég var að lesa Moggann áðan og byrjaði aftast eins og oft áður. Á bls. 45 var kvæðið Jónas Hallgrímsson eftir Snorra Hjartarson, völundarsmíð. Þá beindi ég augum mínum yfir á bls. 44 þar sem voru Staksteinar. Þar var byrjað á því að minnast á Katrínu Helgu Hallgrímsdóttur Deigluskríbent.

Mér brá nokkuð og hjartað sló örar. Hvað var þessi Hallgrímur að vilja í Moggann tvær síður í röð? Ég ætlaði mér að flýja þessa persekúsjón og fletti yfir á bls. 42 og það allra fyrsta sem ég rek augun í er helvítis lesendabréf frá HALLGRÍMI SVEINSSYNI! Ímyndið ykkur þessa ömurlegu og hröðu atburðarás og reynið að setja ykkur í mín spor.

ÞAÐ ERU TAKMÖRK FYRIR ÞVÍ HVERSU MARGA HALLGRÍMA MAÐUR ÞOLIR! ÞRÍR HALLGRÍMAR Á ÞREMUR SEKÚNDUM Á ÞREMUR BLAÐSÍÐUM ER BARA ALLTOF ANDSKOTI MIKIÐ FYRIR MIG!

Í þessu hugarvíli leið yfir mig og ég datt á gólfið.