laugardagur, maí 22, 2004

Stórveldisstjórnmál

Álftaneshreyfingin, stjórnmálasamtök byltingarsinnaðra kommúnista í Bessastaðahreppi, sendi bækling á hvert heimili í hreppnum í dag þar sem dagar byltingarinnar eru boðaðir. Kannski ekki beint, en skilyrði hennar eru rakin, því eins og allir góðir menn vita er ekki hægt að setja á fót kommúnistaríki í landi þar sem kapítalismi hefur ekki náð fullum þroska. Harðsvíraðir kommúnistarnir svífast einskis í byltingartilraunum sínum og láta meirihlutann í hreppsnefndinni finna fyrir því. Ég gríp niður í þennan ágæta bækling af handahófi, enda sama hvar niður er borið þar sem frelsisástin og gustur rauða fánans leikur hvarvetna um mann:

„Við höfum flutt tillögur um að hreppsnefndarfundir væru hljóðritaðir og stefnt að útsendingu þeirra. Oddviti og sveitastjóri [sic, já það eru margar sveitir á Álftanesi] hafa ævinlega talað gegn þessari hugmynd [vondi og heimski hreppstjóri, að traðka svona freklega á hinum velmeinandi mannvinum í byltingarsellunni], talið hana bæði óþarfa og kostnaðarsama. Nú ber svo vel við að Snorri Finnlaugsson, formaður hreppsráðs, hefur tekur [sic, já, kommúnistarnir eru ekki aðeins byltingarsinnaðir í stjórnvaldsefnum heldur einnig málfræðilegum, Gyðja Eilífrar Skynsemi blessi þá fyrir það] undir málflutning okkar og sveitarstjórinn hefur séð sig um hönd. Stefnir því í að fundirnir verði teknir upp strax í vor og sendir út myndrænt á næstunni. Endurbætur á heimasíðu hreppsins eru einnig tilkomnar vegna þrýstings frá Álftaneshreyfingunni.“

Guði sé lof, guði sé lof fyrir það að hér í hreppnum skuli vera rekinn svo mikill og sterkur lobbýismi sem Álftaneshreyfingin stendur fyrir. Ekki aðeins beita þeir sér af offorsi gegn hvers kyns valdníðslu yfirvalda sem stefnir að því að stjórna bak við tjöldin og útiloka borgarana frá stjórnskipaninni, heldur neitar Álftaneshreyfingin, hún neitar að sætta sig við að heimasíða Bessastaðahrepps sé svo ljót sem raun ber vitni. Var það hreppsstjórnin sem átti frumkvæðið að þessu verki? Var það fyrir tilstilli einhverra góðra manna á þeim vígstöðvum að sú skömm sem hreppurinn þurfti að búa við á opinberum vettvangi var útmáð? Nei! Það var Álftaneshreyfingin sem beitti sér af stolti í þessu máli gegn tregum og heimskum valdhöfum sem skilja ekki kall tímans og láta heimasíðuna, fjöregg hrepps vors, drabbast niður í stekk einn. Það var fyrir heilagan þrýsting frá hermönnum Drottins, Álftaneshreyfingunni, sem þessu var hrint í framkvæmd og lasti þá enginn fyrir það. Frá Álftaneshreyfingunni!

Annars er það að frétta héðan úr hreppnum að á þjóðhátíðardaginn næsta verður gefin út sú fororðníng að hreppur sjá skuli eigi lengur hreppur heitinn vera, heldur „sveitarfélagið Álftanes“. Þá bý ég ekki lengur í Bessastaðahreppi, heldur bara á Álftanesi.

Samfara þeirri status-elevasjón sem það er mun sveitarfélagið fara fram á það við Garðabæ að stjórnsýslumörk þess verði færð lengra inn á land Garðabæjar og hann láti ákveðin landsvæði af hendi. Eðlilegt er talið að hið nýja sveitarfélag hafi stjórnsýslurétt á landi austur fyrir vatnasvæði Skógtjarnar og að Gálgahrauni, markalína gangi í suðvestur í sjó fram.

Er þetta ekki dæmigert fyrir þá harðstjórn sem hér tíðkast? Sannaðist hún ekki á valdhafa með æðisgenginni mótstöðu þeirra ekki aðeins gegn hljóðritun hreppsnefndarfunda heldur og betrumbótum á heimasíðunni? Nei, góðir borgarar! Nú stendur hreppstjórinn við Garðabæjarskiltið á Bessastaðaafleggjaranum, marserar fram og til baka og öskrar: „Lebensraum! Wir brauchen Lebensraum!“

Það er gott að vita til þess að hér standi Álftaneshreyfingin vörðinn með brugðnum bröndum. Stjórnarandstöðunni er vandlifað í stórveldi sem þráir að skaka vopn sín gegn eigin borgurum og illum nágrannaríkjum.