föstudagur, maí 21, 2004

Uppástunga

Í öllum þeim djöfuldómi af texta hvers hljómdýrð ég er búinn að teyga með augum mínum síðastliðnar vikur, hefur mér fundist langskemmtilegast að lesa hexametur. Það er í svo skemmtilegu formi, þeas. ekki of lítið og ekki of mikið. Línan er alveg nógu passleg til að ná heildarmerkingu með einni augnagotu og til að muna þýðingu orða í samhengi við önnur orð. Síðan er hljómurinn í þeim svo guðdómlega rythmískur. Dæmi:

Talibus orantem dictis arasque tenentem
audiit Omnipotens, oculosque ad moenia torsit
regia et oblitos famae melioris amantis.
tum sic Mercurium adloquitur ac talia mandat:
"vade age, nate, voca Zephyros et labere pennis
Dardaniumque ducem, Tyria Karthagine qui nunc
exspectat fatisque datas non respicit urbes,
adloquere et celeris defer mea dicta per auras. [...]"


Fornyrðislag er algjör andstæða þessa. Ekki rythmískt séð, alls ekki, en formskipunarlega séð. Þar er pínulítil mjó súla sem gengur niður síðuna svo að sums staðar standa tvö orð í línu, jafnvel eitt. Það er ómögulegt að ná heildarmerkingu í þetta með einu augnakasti. Ég veit ekki um þig, ágæti lesari, en ég er vanur því að lesa fáein orð frá vinstri til hægri en ekki eitt og eitt orð í línu niður á við. Dæmi:

Hljóðs bið eg allar
helgar kindir,
meiri og minni
mögu Heimdallar.
Viltu að eg, Valföður,
vel fyr telja
forn spjöll fira,
þau er fremst um man.
Eg man jötna
ár um borna,
þá er forðum mig
fædda höfðu.
Níu man eg heima,
níu íviði,
mjötvið mæran
fyr mold neðan.
Ár var alda,
það er ekki var,
var-a sandur né sær
né svalar unnir;
jörð fannst æva
né upphiminn,
gap var ginnunga
en gras hvergi,
áður Burs synir
bjöðum um ypptu,
þeir er Miðgarð
mæran skópu;
sól skein sunnan
á salar steina,
þá var grund gróin
grænum lauki.
Sól varp sunnan,
sinni mána,
hendi inni hægri
um himinjöður;
sól það né vissi
hvar hún sali átti,
stjörnur það né vissu
hvar þær staði áttu,
máni það né vissi
hvað hann megins átti.


Í gær var ég að lesa Helgakviðu Hundingsbana og í bölbænum Sigrúnar Högnadóttur, 31.—33. vísu, hugsaði ég með mér hvað það væri afskaplega Virgilslegur Dídómónólóg. Allt í einu sló leiftri niður í mig, í mér tengdust meginþræðir og í örskotsstund stóðu öll sannindi heimsins ljóslifandi frammi fyrir mér: væri ekki sniðugt að heimfæra þetta mjög svo indæla hexametursform upp á eddukvæðin? Hafa jafnvel þrjú gömul vísuorð í einu nýju? Þá skrifaði ég þetta upp:

Hljóðs bið eg allar helgar kindir, meiri og minni
mögu Heimdallar. Viltu að eg, Valföður, vel fyr telja
forn spjöll fira, þau er fremst um man. Eg man jötna
ár um borna, þá er forðum mig fædda höfðu.
Níu man eg heima, níu íviði, mjötvið mæran
fyr mold neðan. Ár var alda, það er ekki var,
var-a sandur né sær né svalar unnir; jörð fannst æva
né upphiminn, gap var ginnunga en gras hvergi,
áður Burs synir bjöðum um ypptu, þeir er Miðgarð
mæran skópu; sól skein sunnan á salar steina,
þá var grund gróin grænum lauki. Sól varp sunnan,
sinni mána, hendi inni hægri um himinjöður;
sól það né vissi hvar hún sali átti, stjörnur það né vissu
hvar þær staði áttu, máni það né vissi hvað hann megins átti.


Þetta er svo fallegt svona að ég klökkna. Þetta er fegursta textabrot sem ég hef augum litið. Íslenskur miðaldaskáldskapur í fegursta Miðjarðarhafsbúningi, ekki þessu staccato fornyrðislagsfangelsi. Er ekki kominn tími til að setja eddukvæðin á annan endann?