fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Mátti reyna það

Dag einn fyrstu vikuna í júní var lítið um að vera á Bókasafni Garðabæjar. Í iðjuleysi mínu sendi ég eftirfarandi ímeil á atlif@hi.is:

„Sæll og blessaður, Atli F.

Atli Freyr Steinþórsson heiti ég og nota vanalega netfangið atlif@isholf.is. Næsta haust hef ég nám við Háskóla Íslands í íslensku, latínu og grísku. Mig langaði að halda skammstöfuninni minni í væntanlegu úníversítets-netfangi og sendi þennan ímeil út í bláinn til að athuga hvort þú, annar Atli F., hefur orðið á undan mér að tryggja þér netfangið.

Með ósk um að þú sért ekki til og eigir ekki netfangið, en annars allar mínar bestu óskir ef þú ert til.

Atli Freyr Steinþórsson
Vesturtúni 48
225 Bessastaðahreppi“


Ég var alveg búinn að gleyma þessu bréfi. En í dag fékk ég þennan póst:

„Sæll Atli

Ég vil biðjast velvirðingar á því hversu seint ég svara þessu bréfi.

Því miður verð ég að hryggja þig með þeim upplýsingum að ég er til. Ég heiti Atli Freyr Friðbjörnsson og stunda nám við verkfræðideild.

Vonandi verður fundið gott notandanafn handa þér (atlistein? atlifs?).

Annars vil ég óska þér velgengni í Háskólanum.

kv,

Atli Freyr“


Þannig fór um sjóferð þá. Með því einu að draga lífsanda hefur þessi maður haft áhrif á líf mitt. Með því einu að heita nafninu sínu hefur hann ofið þann lífsþráð minn að eignast ekki netfangið atlif@hi.is. Maður sem ég hef aldrei hitt og bara talað við í gegnum tölvu. Fyrir mér er hann texti á skjá sem þó hindrar mig í að ná mínu fram með því einu að standa á skjánum.

Kosmosin eru skrýtinn staður.