miðvikudagur, júlí 28, 2004

Leiðbeiningar til lánþega
 
Borið hefur á því að fólk kunni ekki að haga sér á bókasöfnum. Nú verður ráðin bót á því.

1. Skýrleiki.
Þegar komið er að afgreiðsluborði skal bera upp erindi sitt í skýrt formuðum aðalsetningum. Einn efnisliður erindis skal borinn upp í einu. Ekki má til dæmis henda bókastafla á borðið og spyrja um leið hvort hundraðþúsundmilljón kerlingajólabækur séu inni.  Bókaverði er skítsama hvort Brennd lifandi, Barist fyrir frelsinu eða Mér var nauðgað í Miðausturlöndum og mér líður svo illa séu inni ef sá háttur er hafður á.

2. Nákvæmni.
Ef svo ber undir skal flokka gögn í tvo stafla: stafla sem lánþegi vill taka að láni og stafla sem lánþegi vill skila. Skal hann tilgreina með skýrum hætti hvers kyns hvor stafli er. Ekki hrúga öllu á borðið og ætlast til þess að bókavörður viti hvað hann á að gera við það.

3. Brottfararleyfið.
Undir ENGUM KRINGUMSTÆÐUM skulu lánþegar skilja eftir gögn á borðinu þegar bókavörður er ekki við afgreiðsluborðið og storma inn í safnið að skoða kerlingablöð. Bókavörður veit ekki hvað gera skal við gögnin og þá eykst hætta á að þau lendi óskönnuð inni í safninu, öllum til óþæginda. Góð þumalputtaregla er að skilja aldrei við efni nema bókaverði hafi verið afhent það og hann gefið viðkomandi lánþega brottfararleyfi frá afgreiðsluborðinu.

4. Tillitssemi.
Ekki setja hluti sem láta skal bókaverði í té beint á afgreiðsluborðið heldur afhendið honum þá. Þetta á sérstaklega við um hvers konar greiðslu, svo sem debetkort, smápeninga og seðla en ekki síst bókasafnskort sem getur verið ákaflega erfitt að plokka upp af borðplötunni. Þá skal leitast við að koma bókum, hvort sem menn eru að skila eða taka að láni, í fögrum stafla eins nærri bókaverði og nokkur kostur er. Hann er að þessu allan daginn og þreytist við að hífa upp bókastafla. Í ætt við þetta er að tala í síma meðan á afgreiðslu stendur eða eiga í áköfum samræðum við þriðja aðila á safninu. Slíkt torveldar mjög afgreiðsluna.

5. Óskeikulleiki.
Lánþegi skal hafa í huga að bókavörður hefur rétt fyrir sér í 100% tilfella. Hann þekkir safnið og innviði þess mun betur en lánþegi og er því í mun betri stöðu til að veita sem réttastar upplýsingar um stofnunina og safnkost á hverjum tíma. Lánþegar skulu forðast að deila við bókavörð enda hafi þeir óskeikulleika hans í huga. Drottinvald bókavarðar yfir safninu er algjört og forboðið er að draga það í efa.