fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Snyrtimennska, fágun, virðuleiki og kurteist fas

Í gær fékk ég frí úr vinnunni í hádeginu til að fara í jarðarför. Ég mætti síðan aftur í jakkafötunum, fór úr jakkanum og sat þannig til fara í afgreiðslunni.

Það var mjög góð tilfinning að mæta svona. Augnsambandið frá kúnnunum varð sterkara, enginn sagði múkk við nokkurri einustu sektargreiðslu og allir afhentu mér (í beinni merkingu þess orðs) alla hluti. Virðingin fyrir bindisnælunni minni var algjör.

Í dag mætti ég líka í skyrtu með bindi og það er alveg sama sagan. Þegar fólk þarf að greiða sekt þá stend ég alltaf strax upp úr sætinu mínu og tek mér fyrirmannlega stöðu við kassann: þar sem ég er hærri en flestallir lánþegar horfir sektargreiðandinn alltaf upp á þennan prúðbúna embættismann og segir já og amen við öllu sem ég segi.

Ég ætla að halda þessum ofurklæðaburði áfram þar til ég læt af störfum 31. ágúst. Crisp og clean alla daga. Svona svo fólk fái það á tilfinninguna að það eru engir djöfuls hippar sem standa að bæjarbókasafninu í Garðabæ og að það er allt annar handleggur að fá afgreiðslu þar en hjá einhverjum Hagkaups-knektum.

Munurinn liggur í bindisnælunni. Og þéringunum náttúrulega.