miðvikudagur, apríl 27, 2005

Ég er undir => icelandic

Í dag rakst ég á þessa síðu. Þar safna amerískir háskólamenn saman enskum framburðarsýnishornum og rýna í. Þetta gera þeir til að átta sig á því hvernig málhafar frá fjarlægum heimshornum (eða obskúrum landshlutum) bera þetta ágæta mál fram. Gagnagrunninn nota tungutæknifræðingar, leikarar sem þurfa að ná valdi á erlendum (nú, eða obskúrum) framburði, málfræðingar, hljóðfræðingar, talmeinafræðingar og ýmsir aðrir.

Sjálfboðaliðar lesa staðlaðan texta og senda inn:

Please call Stella. Ask her to bring these things with her from the store: Six spoons of fresh snow peas, five thick slabs of blue cheese, and maybe a snack for her brother Bob. We also need a small plastic snake and a big toy frog for the kids. She can scoop these things into three red bags, and we will go meet her Wednesday at the train station.


Ég get ímyndað mér að í textanum sé að finna allar helstu hljóðkonstrúksjónir í ensku, svona svipað og setningin The quick brown fox jumps over the lazy dog inniheldur alla stafi í ensku.

Nema hvað, ég sendi inn mína versjón og reyndi að beita eins íslenskulegum framburði og mér var unnt. Ég hefði getað brugðið yfir mig purpuraskikkjunni og talað The King’s English, en það hefði ekki gagnast neinum; þá hefði enginn kynnst íslenskum framburðareinkennum og dæmið hefði verið andstætt tilgangi síðunnar.

Ég reyndi að radda aldrei blísturshljóð eða lokhljóð, veikja aldrei sérhljóða niður í schwa, reyndi að hafa hljóðalengd eins og um væri að ræða íslenskt orð, gerði affríkata og önnur útlend hljóð eins íslenskuleg og hægt var (cheese = [tjís]), afraddaði alla hljómendur á undan lokhljóðum og ýkti óraddað r í enda orða svo það færi ekki á milli mála. Auk þess bar ég [w] fram sem [v]. Rúsínan í pylsuendanum: setti inn aðblástur, íslenskasta framburðareinkenni í heimi, alls staðar þar sem því varð við komið.

Þeir leitast við að hljóðrita öll dæmin af vísindalegri smásmygli en þar sem mitt var sett inn áðan eiga þeir það eftir. Ég hlakka til að sjá hvort greiningin þeirra stemmir við mína. Æm es giddí es a skúlboj.