þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Hvar ertu, Holgeir danski?

Er það ekki á svona stundum sem Holgeir danski rís upp úr viðjum Krónborgarkastala með brugðinn brand? Danir eru orðnir langeygir eftir Holgeiri danska. Hann var nefnilega í fríi einhvers staðar með pínja kólaða 9. apríl 1940. Svo var hann í löngum jógatíma 1864 þegar Bismarck meig yfir þá. Hann var líka að snyrta púðluhundinn sinn þegar breski sjóherinn skaut allan danska herskipaflotann í tætlur á kæjanum í sjálfri Kaupmannahöfn árið 1801, Dönum að óvörum sem voru að telja íslenska blóðpeninga í kansellíinu. Í kjölfarið voru reyndar engir íslenskir blóðpeningar eftir til að telja í kansellíinu því danska ríkið fór á kúpuna og varð gjaldþrota. Æ, æ. Reyndar hefur Holgeir danski bara aldrei komið Dönum herraþjóð vorri til hjálpar á hættutímum þegar þeir hafa orðið að athlægi á alþjóðavettvangi. Maður gæti haldið að Holgeir danski væri ekki til.