Þá er ég fluttur að heiman
Ég flutti fyrir rúmri viku í Hafnarfjörð í götu sem heitir Arnarhraun. Húsið mitt er númer 4-6. Þegar ég lét skipta hátíðlega um lögheimili á bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar kom í ljós að allir íbúar voru skráðir með lögheimili við Arnarhraun 4. Nema einn. Sem var með lögheimili á númer 6. Ég vildi ekki vera hinn blokkarfávitinn og fékk að velja húsnúmerið fjóra.
Húsið mitt er níbýli. Já, þar eru níu íbúðir. Það er hins vegar ekki nýbýli, enda reist 1963, á ofanverðum dögum Ólafs Thors. Ég bý á efstu hæð fyrir miðju í 63 fermetra íbúð, sem er björt og fögur með útsýni yfir bárujárnaðan gamla Hafnarfjörð og góðu kíkisútsýni inn á annað fólk.
Bakgarðurinn minn er dæmigerð hafnfirsk laut lík þeirri hvar ég lék mér barn að aldri hjá ömmu minni, semsé úfið og yddótt hraun en með mosatótt hér og þar. Þessi laut greikkar fallið frá svölum til jarðar og gefur tilfinningu fyrir því að ég búi í turni. Móti þessu landflæmi vita svalir í eigu minni sem eiga eftir að koma sér vel þegar ég verð kjörinn forseti og þarf að heilsa lýðnum sunnudaginn eftir kosningar.
Bókaskápar þekja umstalsverðan hluta veggpláss míns sem kemur í góðar þarfir. Hins vegar nægðu ekki tveir Ikea-geisladiskaskápar, tveir í viðbót væri nær lagi.
Það var allt í lagi að flytja að heiman. Ég neita því samt ekkert, þegar ég kom heim (gamla heim) daginn eftir að ná í helstu nauðsynjar til að mega lifa, það var erfitt. Þangað til meira yrði keypt fékk ég einn matardisk, einn hníf, einn gaffal og eitt glas. Það var erfitt að borða einn og vaska síðan upp matardiskinn minn, hnífinn minn, gaffalinn minn og glasið mitt, í singularis. Setningar eins og „Þetta er diskurinn minn“ flugu í gegn og mér fannst ég vera einn.
Ég er samt ekki einn. Það er hljóðbært í húsinu og ég heyri það um tólfleytið á kvöldin þegar pólska barnafjölskyldan við hliðina á mér eltir smábarnið sitt til að svæfa það. Þær 15 setningar sem ég kann í pólsku gagnast mér ekki til að ræða við fjölskylduna, en setningarnar snúast allar eða flestar um staðsetningu gömlu konungshallarinnar í Kraká. „Przeprazsam, gdzie jest zamek królewski?“ Í Hafnarfirði eru fáar, ef einhverjar, konungshallir.
Hins vegar er ágætt að vera einn með draslið sitt og geta gert það sem manni sýnist þegar manni sýnist. Það var orðið leiðinlegt próspekt að bjóða fólki í heimsókn í „herbergið“ sitt. Hins vegar er leiðinlegt að koma heim og þar er enginn sem sýnir áhuga á því sem maður var að gera. „Hvar varstu? Jájá. Borðaðirðu eitthvað, ertu svangur, vinur?“ Loftið gefur manni ekki að borða.
Í húsinu búa barnafjölskyldur og gamalt fólk. Meira að segja fjörgamall amerískur kven-pensjónisti sem á dóttur á hæðinni fyrir ofan. Hún er stundum í stigaganginum að ná í einhvers konar lyf upp til hennar.
Undanfarið hef ég verið hræddur við að koma heim, skella á eftir mér og henda skónum af mér á parketið. Ég losnaði við það í gær og hugsaði ekkert um hvað aðrir heyrðu. Í dag lét ég það síðan eftir mér að spila háværa tónlist. Ég lét Emmu Kirkby syngja aríur úr Messíasi yfir sjálfan mig og þar með hússins innbyggjara.
Síðan fór ég í sturtu og söng Händel-aríur við raust.
Ég flutti fyrir rúmri viku í Hafnarfjörð í götu sem heitir Arnarhraun. Húsið mitt er númer 4-6. Þegar ég lét skipta hátíðlega um lögheimili á bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar kom í ljós að allir íbúar voru skráðir með lögheimili við Arnarhraun 4. Nema einn. Sem var með lögheimili á númer 6. Ég vildi ekki vera hinn blokkarfávitinn og fékk að velja húsnúmerið fjóra.
Húsið mitt er níbýli. Já, þar eru níu íbúðir. Það er hins vegar ekki nýbýli, enda reist 1963, á ofanverðum dögum Ólafs Thors. Ég bý á efstu hæð fyrir miðju í 63 fermetra íbúð, sem er björt og fögur með útsýni yfir bárujárnaðan gamla Hafnarfjörð og góðu kíkisútsýni inn á annað fólk.
Bakgarðurinn minn er dæmigerð hafnfirsk laut lík þeirri hvar ég lék mér barn að aldri hjá ömmu minni, semsé úfið og yddótt hraun en með mosatótt hér og þar. Þessi laut greikkar fallið frá svölum til jarðar og gefur tilfinningu fyrir því að ég búi í turni. Móti þessu landflæmi vita svalir í eigu minni sem eiga eftir að koma sér vel þegar ég verð kjörinn forseti og þarf að heilsa lýðnum sunnudaginn eftir kosningar.
Bókaskápar þekja umstalsverðan hluta veggpláss míns sem kemur í góðar þarfir. Hins vegar nægðu ekki tveir Ikea-geisladiskaskápar, tveir í viðbót væri nær lagi.
Það var allt í lagi að flytja að heiman. Ég neita því samt ekkert, þegar ég kom heim (gamla heim) daginn eftir að ná í helstu nauðsynjar til að mega lifa, það var erfitt. Þangað til meira yrði keypt fékk ég einn matardisk, einn hníf, einn gaffal og eitt glas. Það var erfitt að borða einn og vaska síðan upp matardiskinn minn, hnífinn minn, gaffalinn minn og glasið mitt, í singularis. Setningar eins og „Þetta er diskurinn minn“ flugu í gegn og mér fannst ég vera einn.
Ég er samt ekki einn. Það er hljóðbært í húsinu og ég heyri það um tólfleytið á kvöldin þegar pólska barnafjölskyldan við hliðina á mér eltir smábarnið sitt til að svæfa það. Þær 15 setningar sem ég kann í pólsku gagnast mér ekki til að ræða við fjölskylduna, en setningarnar snúast allar eða flestar um staðsetningu gömlu konungshallarinnar í Kraká. „Przeprazsam, gdzie jest zamek królewski?“ Í Hafnarfirði eru fáar, ef einhverjar, konungshallir.
Hins vegar er ágætt að vera einn með draslið sitt og geta gert það sem manni sýnist þegar manni sýnist. Það var orðið leiðinlegt próspekt að bjóða fólki í heimsókn í „herbergið“ sitt. Hins vegar er leiðinlegt að koma heim og þar er enginn sem sýnir áhuga á því sem maður var að gera. „Hvar varstu? Jájá. Borðaðirðu eitthvað, ertu svangur, vinur?“ Loftið gefur manni ekki að borða.
Í húsinu búa barnafjölskyldur og gamalt fólk. Meira að segja fjörgamall amerískur kven-pensjónisti sem á dóttur á hæðinni fyrir ofan. Hún er stundum í stigaganginum að ná í einhvers konar lyf upp til hennar.
Undanfarið hef ég verið hræddur við að koma heim, skella á eftir mér og henda skónum af mér á parketið. Ég losnaði við það í gær og hugsaði ekkert um hvað aðrir heyrðu. Í dag lét ég það síðan eftir mér að spila háværa tónlist. Ég lét Emmu Kirkby syngja aríur úr Messíasi yfir sjálfan mig og þar með hússins innbyggjara.
Síðan fór ég í sturtu og söng Händel-aríur við raust.
<< Home