mánudagur, febrúar 04, 2008

Heyrðu

Eftirfarandi bar fyrir augu mín um helgina. Ég var að horfa á kvikmyndina Zodiac af DVD-mynddiski í fartölvu minni. Myndin gerist að verulegu leyti inni á ritstjórn dagblaðs. Snemma í myndinni labbar ritstjórinn fram hjá blaðamanni og segir eitthvað á ensku. Síðan stendur blaðamaðurinn upp og hittir hóp fólks inni á lokaðri skrifstofu og þeir virðast vera að ræða mikilvæg mál. Þetta sagði ritstjórinn við blaðamanninn.

„Hey, editorial in two!“

Þetta útlagði þýðandi þessarar kvikmyndar sem:

„Heyrðu, leiðari á tveimur!“

Látum vera þótt þýðandinn kunni ekki ensku. Það getur alveg verið kostur á manni sem vinnur við að þýða ensku yfir á íslensku. Mér finnst hins vegar svolítið merkilegt að þýðandinn geri ráð fyrir því að í myndinni tali fólk saman á einhvers konar bullmáli eða ekkimáli og að í hans heimi þýði hljóðastrengurinn „heyrðu, leiðari á tveimur“ eitthvað merkingarbært yfir höfuð.

Mér finnst það alveg frábært að uppi sé sú stefna meðal þýðenda á Íslandi að það sé ekkert samband, alls ekki neitt, milli þess sem er merkingarbært á íslensku, Í RAUNVERULEIKANUM og þess sem er sagt í kvikmyndum, að málnotkun í kvikmyndum liggi í einhverjum skilningi handan mannlegs máls.

Herra þýðandi, getur þú ímyndað þér aðstæður í mannlegum samskiptum á Íslandi þar sem einhver gæti fundið hjá sér þörf til að segja „heyrðu, leiðari á tveimur“? Heyrðu, það er leiðari á tveimur. Nú geri ég ráð fyrir því að þú játir að slíkt myndi enginn maður segja þótt hann væri með gúrku í endaþarminum vegna þess AÐ ÞAÐ ER EKKI MANNLEGT MÁL. Af hverju telur þú þér þá sæma að bera það á borð fyrir mig? Af hverju? Af því að ég skilji ekki hvað mannlegt mál er?

HELVÍTIS BLAÐAMAÐURINN VAR INNI Á RITSTJÓRNINNI, OG FÓR SVO Á FUND MEÐ RITSTJÓRA OG ÖÐRUM BLAÐAMÖNNUM OG ÞAÐ ER KALLAÐ RITSTJÓRNARFUNDUR, OG ÞAÐ VAR RITSTJÓRNARFUNDUR EFTIR TVÆR MÍNÚTUR

EN EKKI LEIÐARI Á TVEIMUR!!!!!! EKKI LEIÐARI Á TVEIMUR!!!!!!