þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Fyndnir og gáfaðir bókaverðir

Eins og allir vita er ekkert betra en að fá bækur afhentar frá smart-ass bókaverði með eitursnjöllum og überskemmtilegum athugasemdum. Rasmus Christian Rask, snillingur, ofurmenni og hálfguð, vissi þetta auðvitað.

Eftirfarandi saga birtist í XI. árgangi Tímarits hins íslenska bókmenntafélags árið 1890, en þar segir Björn M. Ólsen frá fyrstu fundum R. Chr. R. og Konráðs Gíslasonar í minningargrein um þann síðarnefnda:

„Fundum þeirra bar first saman í háskólabókasafninu nokkru eftir það, að Konráð var kominn á fætur eftir lungnabólguna [Konráð var aaaaalltaf eitthvað slappur, greyið — innsk. ritstj.], sem hann fékk, meðan examen artium stóð ifir. Var Konráð að fá að láni eitthvert rit um áherslu á grískum orðum. Rask var þá ifirbókavörður, og fjekk honum ritið sjálfur. Mun hann hafa heirt á málfæri Konráðs, að hann var Íslendingur [auðvitað, enda lingvistískur hálfguð], því að hann sagði vinsamlega og góðmótlega, að það væri munur á merkingu áherslumerkjanna grísku og áherslumerkjanna íslensku.“

Hahahahahahaha, Rask kallinn. Þeir mega kommenta hér að neðan sem fannst þetta líka fyndið. En fyrst ég er byrjaður á þessu ræð ég ekki við klár minn og birti aðra gamansögu úr sömu minningargrein:

„Í latínunni var hann prófaður af Madvig, og hefur kammerráð Þórður Guðmundsson sem sjálfur var við prófið, sagt mjer, að Madvig hafi látið hann koma upp einhverstaðar í riti Ciceros um skildurnar, og hafi Konráð þá lokað bókinni og þulið staðinn upp utan bókar; hafi þá Madvig sagt: »Non abs te petivi, ut ex memoria recitares [jeg beiddi þig ekki um að lesa utanbókar]«, enn síðan hafi alt prófið farið fram á latínu. Sumir segja, að Madvig hafi sagt að lokum: »Plus quam egregie meruisti [þú hefur unnið til meira enn »ágætlega«]«, enn ekki man Þórður kammerráð það.“

Ójá, óóóóóójá. Svona, nákvæmlega svona, voru allir mínir blautustu og sóðalegustu draumar um munnlega latínuprófið mitt. Göfgi og óumdeilanlegt vald samankomið í þessum texta.