miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Hegðun hálfvita

Hjalti tilfærir „vegfarandi-mætir-hundaeiganda"-sögu á síðunni sinni. Ég kann eina slíka.

Febrúarmorgun einn þessa árs kl. 7 hélt ég af stað út í strætóskýli eftir alnáttung sem ég hafði notað til ritgerðarskrifa. Var ég því morgunfúll nokkuð enda með öllu ósofinn. Á göngustíg eigi allfjarri heimili mínu mætir mér hundaeigandi með hund sinn sem lék lausum hala.

Mér er ekki vel við lausa hunda síðan Schäfer-hundur réðst á mig og elti mig þegar ég var að selja bingólottómiða fyrir skátana árið 1996. Viðskiptum okkar lauk þannig að ég stökk í gegnum þéttvaxið limgerði, hann á eftir og síðan ofan á mig.

Allt þetta orsakaði gamalkunnugt adrenalínflóð þegar hundur þessa morgunglaða dýravinar nálgaðist mig á ógnarhraða. Ég sneri eitthvað upp á mig og varðist glefsi hundsins fimlega. Þegar ég mætti dýravininum, sem var lítill og akfeitur með hettu yfir hausnum (það var smá-snjókoma), leit ég stranglega til hans og sagði í kurteisum umvöndunartón um leið og ég gekk fram hjá honum: „Gætirðu ekki haft þennan hund þinn í bandi?!"

Þá heyri ég hann segja á eftir mér: „Ha, bara pussy? Bara pussy!"

Þetta var allt sem sá ágæti akfeiti dýravinur hafði til málanna að leggja. Hundaeigendur sem ganga úti með lausa hunda eða í það lausum taumi að þeir líði dýrunum að glefsa í vegfarendur eru fláráðir og tillitslausir samfélagsóvinir sem ætti að hálshöggva á torgum úti.

Næst þegar ég sé þennan mann og hundinn hans þá mun ég koma þeim báðum fyrir.

Meira um Hjalta

Allan þann tíma sem ég hef unnið á Bókasafni Garðabæjar hef ég oft og margsinnis hringt í Bókasafn Hafnarfjarðar að biðja um bækur í millisafnaláni. Hversu mjög sem ég hef þráð slíka skemmtilega og skondna tilviljun, þá hef ég aldrei lent á H. S. Ægissyni bókaverði.

HSÆ: „Bókasafn Hafnarfjarðar, góðan dag."
AFS: „Já, góðan dag. Atli heiti ég og hringi frá Bókasafni Garðabæjar. Ég ætlaði að fá hjá ykkur bók í millisafnaláni."
HSÆ: „Já, millisafnalá..... Bíddu, er þetta Atli?"
AFS: „Já! Hjalti?"
HSÆ: „Já, haha. Blessaður!"
AFS: „Blessaður, haha."

Nú hætti ég störfum 31. ágúst og því lítur út fyrir að þessi draumsýn mín rætist aldrei. Hugsið ykkur hvað þetta hefði orðið skemmtilegt.