mánudagur, maí 30, 2005

Betur heima setið en af stað farið

Á föstudaginn eldaði ég lasagna í kvöldmatinn. Það var mjög gott.
Í gær eldaði ég músaka í kvöldmatinn. Það var ekki gott.
Í dag útbjó ég gazpacho í kvöldmatinn. Það var ógeðslegt.

Í öllum tilvikum fór ég eftir uppskriftinni. Músökuna eyðilagði tvennt: eggaldinin og kanillinn í lambahakkinu. Eggaldin eru ógeðsleg hrá, svona svampkennd og bragðlaus en soðin verða þau bara slepjuleg og bragðlaus. Að nota kanil með kjötvöru er eins og að kúka í rúm sitt. Slíkt gerir maður ekki. Enir hávu Hellenar eru ágætir en þeir kunna ekki að elda.

Ekki er jafnljóst hvað eyðilagði gazpacho-ið, en það er köld og vatnskennd tómatsúpa. Þó að bókstaf uppskriftarinnar hafi verið fylgt út í æsar bragðaðist afraksturinn og leit út eins og besta þynnkuæla. Meira að segja áferðin var svipuð. Ég hafði ekki geð í mér að klára úr skálinni.

Á morgun ætla ég að elda fiskigratín. Miðað við árangurskúrfuna verður það með öllu óætt. Miðað við litinn gæti það minnt á bleiuhægðir.