miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Hebbi

Þegar ég var ungur og vitlaus hélt ég að Austurríkismaðurinn Herbert von Karajan væri af spænsku bergi brotinn og sagði alltaf [karahan]. Þetta gerði ég fram undir fjórtán ára aldurinn þegar menningarlegt sjónvarpsáhorf leiddi í ljós að innfæddir (og -vígðir (og -múraðir)) sögðu [karajan]. Stuttu seinna komst ég að því að fjölskylda téðs Herberts væri frá Grikklandi og hefði þar heitið Karajannis.

Sem er betra en ef „Karajannakis“ verið hefði. Því þegar Tyrkir voru illt nýlenduveldi í Grikklandi þá gerðu þeir íbúum grikk með því að bæta smækkunar- og háðsviðskeytinu -akis við ættarnöfn. Svona eins og ef fyndnir hárkollukontóristar í Kansellíinu hefðu alltaf bætt við Jón Aulajónsson og Guðrún Aulasímonardóttir í manntalinu.

Svo hefðum við tekið þetta upp eftir lýðveldisstofnun til að sýna þjóðarstolt (svipað og svertingjar kalla hvor annan nigger og boy) og allir hétu Aulason og Auladóttir. Atli Freyr Aulasteinþórsson.