föstudagur, febrúar 17, 2006

Vitleysa

Þar kom að því, væe, væe, ljóminn af gotneskunni er horfinn, latína germanskra mála er ekkert nema drasl, líf mitt er blekking og námið óarðbært (sem var reyndar vitað fyrir).

Mjög lítið er varðveitt af gotneskum textum, og það helsta er nýjatestamentisþýðing sú er Wulfilas biskup lét eftir sig, en hann var ekki einu sinni Goti, heldur einhver fáviti sem var herleiddur frá Kappadókíu (Suðaustur-Tyrklandi). Hvað um það, nýjatestamentisþýðing þessi ber það sterklega með sér að vera einmitt það; þýðing.

Wulfilas þýðir á flestum stöðum nákvæmlega eftir grískunni, eins og unglingsfáviti á Morgunblaðinu sem þýðir AP-skeytin frá orði til orðs, konstrúksjón fyrir konstrúksjón. Wulfilas þýddi lýsingarhætti, forsetningar, smáorð, hikorð og allar hinar fornmálskonstrúksjónirnar eins og fálmandi maður í tíma hjá Kolbeini að reyna að giska á hvern andskotann Krösus var að gera við þessa úlfalda. Tökum dæmi:

gotn. Jah andhafjands sa aggilus qaþ du imma ...
gr. Kai apokritheis ho angelos eipen auto ...
ísl. Og svarandi engillinn kvað (við) honum ...

Og vegna þess að bara þýðingar úr fornmálum liggja fyrir á gotnesku, en nánast ekkert frumsamið á málinu, er ómögulegt að skera úr um hvort svona kjánalatínusamsetningur er gotnesk setningafræði eða ekki. Sem er óþolandi.

Hugsið ykkur ef einu íslensku málheimildirnar sem lægju fyrir eftir 1500 ár á íslensku væru grískuversjónir skrifaðar upp í tíma eftir Kolbeini. Já, hugsið ykkur það bara. Þá héldu allir að lýsingarháttur nútíðar af miðmyndarsögnum og ablativus absolutus hefðu verið eðlilegustu hlutir í heimi í íslensku alveg eins og í grísku: að þeim berjandisk fóru þeir burt. Kommon.

Það hlýtur að vera hægt að sýna einhvern veginn fram á það að svona hafi ekki getað tíðkast í germönskum fornmálum. Ég trúi ekki öðru.