sunnudagur, október 26, 2008

Konkret og afstrakt hugleiðingar um eðli tímans

Rétt í þessu var ég að horfa á klukkuna í tölvunni minni verða 02:59 og síðan 02:00. Þessa atburðar hef ég beðið við skjáinn í þrjá klukkutíma, og viti menn, hann varð. Skýringar er að leita í gildisgöngu vetrartíma.

Hefur þessi klukkustund nú verið dæmd úr leik? Hafa atburðir hennar ekkert gildi fyrir rétti? Er merking þessa tíma neikvæð tala, eða núllmengi? Hékk ég ekki á internetinu undanfarna klukkustund? Stöðvaðist tíminn svo að geimverur gætu komið og rannsakað mig?

En konkret ályktanir sem af þessu má draga eru meðal annarra þær að nú er klukkan á Íslandi aðeins einum tíma á eftir mér, og klukkan hjá Helga í Argentínu er þremur tímum á eftir. Fyrir aðeins örfáum dögum var hún fimm tímum á eftir, en nú er vor í Argentínu og haust í Þýskalandi og svona veltist heimurinn Magnús minn.

Ég finn að ég þrái að tjá mig frekar um þetta mál. Ég ætla að rita bækling, eða pamflett, og dreifa honum meðal vegfarenda á torgum. Bæklingurinn mun heita: Konkret og afstrakt hugleiðingar um eðli tímans, eins og þegar hefur verið gefið í skyn í fyrirsögn.

Höfundur er þjóðfélagsfræðingur.