miðvikudagur, júní 23, 2004

Uss, fuss og svei!

Ég fór og kaus forseta utan kjörfundar áðan. Tvennt kom mér á óvart:

1) ég þurfti að rita nafn þess frambjóðanda sem ég vildi greiða atkvæði mitt á kjörseðilinn en ekki haka við prentað nafn hans;

2) ég þurfti að setja útfylltan kjörseðil minn í umslag sem ég afhenti embættismanni kjörstjórnar, en hann setti hann í annað umslag sem á voru ritaðar allar upplýsingar um mig.

Sko, í 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24, 16. maí 2000, stendur (ég verð að gera ráð fyrir að þau gildi einnig um forsetakosningar):

„Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til hreppstjórans, sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal og rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.“

Er þetta leyfilegt? Þetta umslag afhenti embættismaðurinn mér aftur og ég stakk því í kjörkassann. Ég hélt að kosningar á Íslandi væru algjörlega leynilegar. Ég spurði hann hverju þetta sætti og hann svaraði að þetta væri til þess að ef ég kysi aftur á kjördag væri hægt að ógilda utankjörfundarseðilinn. Í 73. grein sömu laga segir:

„Nú hefur kjörstjórn borist atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar og skal þá athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Oddviti opnar síðan kassann og telur kjörstjórnin bréfin og ber þau saman við skrár þær sem fylgja, sbr. 66. gr. Skal kjörstjórnin síðan opna sendiumslagið og kanna hvort taka skuli utankjörfundaratkvæðið til greina, sbr. 91. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka utankjörfundaratkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.“

Í 90. gr. segir:

„Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórnin á ný[, í viðurvist umboðsmanna lista, á ekki við hér, innsk. AFS] þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt. Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni.“

Í 93. gr. segir:

„Þau kjörseðilsumslög, sem enginn ágreiningur er um að gild séu, lætur kjörstjórn óopnuð í atkvæðakassann.“

Já, þú meinar það. Þegar kjörstjórn úti á Álftanesi hefur borist kassinn með utankjörfundaratkvæðinu mínu á laugardaginn og kjörfundi hefur verið slitið, þá opnar hún einungis sendiumslagið sem á stendur nafn mitt. Í því eru tveir hlutir: 1) annað lokað umslag sem ekki er merkt á nokkurn hátt og inniheldur útfylltan kjörseðil minn sem og 2) fylgiblað sem vottað er af kjörstjórn að allt hafi farið rétt og reglulega fram. Kjörstjórn athugar þá hvort ég hafi nokkuð mætt á kjörfund fyrr um daginn og neytt atkvæðisréttar míns, og ef svo er ekki ákveður hún hvort taka eigi utankjörfundaratkvæði mitt gilt. Ef engir meinbugir eru á því lætur hún hið ómerkta umslag með kjörseðli mínum falla alveg óopnað ofan í kjörkassann með venjulegu atkvæðunum. Sá sem telur atkvæðið síðar um kvöldið veit þá ekki hver greiddi það.

Svona er hægt að róa sig með því að lesa sér til um málið. Ég var alveg tilbúinn með yfirlýsingar um spillingu og persónunjósnir við upphaf þessarar færslu en svo las ég bara lögin og er núna eiginlega sáttur. Ahhhh. En það breytir því samt ekki að á ákveðnum tímapunkti er kjörseðillinn kirfilega tengdur nafninu mínu bara til þess að ég eigi möguleika á því að KJÓSA AFTUR! Mér finnst það ekki rétt. Mér finnst að þegar fólk kýs utan kjörfundar eigi að merkja það á kjörskrá svo það geti ekki neytt atkvæðisréttar síns í annað sinn.

Hvort vilja menn: algjörlega leynilegar kosningar eða að fólk geti verið eitthvað að dandalast fram og til baka milli kjörstaða? Ég vil leynilegar kosningar.