föstudagur, ágúst 20, 2004

Ég hef ýmislegt að segja í dag

--- Gylfi Þ. "James Bond" Gíslason dó í fyrradag. Ég hef alltaf ímyndað mér Gylfa í hlutverki 007 ef svo ólíklega vildi til að Íslendingur yrði valinn í það hlutverk. Skoðið bara gamlar myndir af Gylfa, eins og á vef Alþingis eða á bls. 2 í DV í dag, og látið sannfærast.

Maðurinn var svo últrasvalur í gamla daga að það er ekki fyndið. Vel greitt hár, skarpir og hörkulegir andlitsdrættir, munnurinn vipraður lítið eitt, albúinn að skjóta komma í bakið. Blessuð sé minning hins íslenska James Bond, Gylfa Þ. Gíslasonar.

--- Nú eru allir að hringja á bókasöfnin í landinu til að fá námsbækur lánaðar. Ekki vilja greyið námsmennirnir punga út stórum fjárhæðum til þess, heldur vilja þeir fremur svindla á samfélaginu og einoka bækurnar í níu mánuði og hleypa engum að þeim á meðan. Ekki á minni vakt.

Áðan hringdi kona sem átti ábyggilega krakka í MH, því hún las upp fyrir mig milljón bóka lista með enskum bókum sem eru vafalaust í einhverjum leikbókmenntaáfanga. Stuttu á eftir hringdi strákur og spurði hvort ég ætti Almenna sálfræði, en það er laaaangmest spurt um þá bók. Ég sagði honum að það væri kennslubók sem væri eigi lánuð út og skellti á.

(Í þessum skrifuðum orðum á ég að vera að leita að bókinni The Queen and I fyrir stelpu sem er svo greinilega stödd á skiptibókamarkaði, en ég læt hana bíða í farsímanum sínum meðan ég skrifa þessa færslu. Híhí. Svo er hún ekki til á BGB. Allt hennar símtal til einskis. Múhaha.)

(Ertu ekki að grínast í mér? Núna var ég að tala við konu sem vildi fá allar kennslubækur í lögfræði við Háskóla Íslands lánaðar á BGB!? Eru engin takmörk, Íslendingar, á sálarvonsku ykkar í garð almenningsbókasafna?)

Atli Freyr Steinþórsson bókavörður berst hetjulegri baráttu gegn spilltum landslýð fram til 31. ágúst.