föstudagur, september 24, 2004

Spurning og Exordium: Eru Japanar vitgrannir kúkalabbar?

Japanar heyra engan mun á bókstöfunum l og r. Fyrir þeim hljóma orðin right og light alveg eins. Þess vegna segja þeir áfjáðir og kinka kolli svo svart olíuborið hárið sveiflast upp og niður: „Yes, I rearn Engrish!“

En eru Japanar svona ógeðslega heimskir? Eru þeir hálfvitar aumingjar fífl asnar og fávitar? (Að telja svona upp orð án samtengingarinnar og heitir á grísku asyndeton. Djöfull rúla ég.)

Svar og meðfylgjandi Argumentum

Nei, börnin mín stór og smá. Japanar eru ekki hálfvitar aumingjar et cetera. Þeir eru mikil menntaþjóð. Fyrir þeim er munurinn á l og r nákvæmlega sá sami og á n-hljóðunum í orðunum syng og sín.

Flestir Íslendingar skynja ekki muninn á þessum hljóðum eða hafa einfaldlega aldrei hugsað út í hann. Prófið að teygja úr n-hljóðunum á ýktan hátt: synnnnnnnggggggg — sínnnnnnnnnnnnnnn. Fyrra n-hljóðið er myndað með tunguna uppi í koki en það seinna með tungubroddinn á tannberginu. Samt skynja Íslendingar þetta eiginlega sem sama hljóðið. Með öðrum þjóðum þar sem fyrra n-hljóðið er einfaldlega ekki til myndu menn heyra jafngreinilegan mun á þessum hljóðum og við finnum í orðunum kál og sál. Pælið í því.

Í huga Japana er munurinn á l og r jafnlítill og okkur finnst munurinn á n í þessum dæmum vera.

Spurning hin önnur: En eru Japanar svona miklir (allt ofantalið) alla ævi frá fæðingu?

Nei, snúllarnir mínir. Það eru þeir ekki. Og vitið þið hvernig það er prófað? Ég skal sko segja ykkur það!

Það er prófað með því að kanna hljóðskynjun ungabarna. Já, ungabarna.

Fyrst er snuði sem tengt er þrýstingsskanna stungið upp í krakkann. Síðan er upptaka spiluð fyrir hann sem hljóðar svo: „LLLAAAAAAAAAAAAAAA!“ Þegar börnin heyra svona nýtt hljóð verða þau svo spenntir að þau fara að totta snuðið af slíkri áfergju að þess verður vart á míní-jarðskjálftamælum. Þess verður einnig vart á hjartalínuriti að börnin eru skíthrædd. Ég meina, yrðuð þið ekki hrædd ef þið heyrðuð stafinn l í fyrsta skipti?

Síðan er sambærileg upptaka spiluð sem hljóðar svo: „RRRRRRAAAAAAAAA!“

OG HÉR FYRIR NEÐAN KEMUR KJARNI MÁLSINS, SAUÐIRNIR MÍNIR!

Alveg það sama gerist. Börnin fara að ókyrrast, totta snuðið og fá næstum því hjartaáfall af spenningi. Þau hafa kynnst nýjum hlut sem er ... STAFURINN R! AAH!

Og hvers vegna er þetta merkilegt? Jú, vegna þess að ef þau skynjuðu þessa tvo stafi sem sama fyrirbærið yrðu þau ekki spennt í seinna skiptið. Þá væri þeim alveg sama því þau hefðu þegar kynnst stafnum. Þau sýna hins vegar af sér hegðun sem bendir til þess að þau hafi aldrei kynnst þessu fyrirbæri. Ipso facto má sjá að þau gera greinarmun á þessum stöfum.

Sem sagt: Ef japönsk ungabörn kynnu að tala gætu þau sagt: „Indeed, dear Sir! I strive to speak the Queen's English.“

Segið svo að málfræðingar séu baggi á samfélaginu sem skila engu í þjóðarbúið! Kannski verða japanskir snuðtottarar með ofurmálgreind öflugt leynivopn í næstu heimsstyrjöld.

Og hverjum verður það að þakka?