mánudagur, október 11, 2004

Inn með það góða, út með það vonda

Guðni Ágústsson vill bjóða öllum fermingarbörnum á Íslandi í sveit í hálfan mánuð. Sagt er að það kosti 130 milljónir.

Ég var í sveit í tvö sumur og veit að það breytir sýn manns á veruleikann. Það er einfaldlega mannbætandi. Þess vegna er ég hlynntur þessum áformum Guðna.

En hvar á að finna þessa peninga? Ég, Atli Freyr Steinþórsson, doktor í hagfræði frá Atlaníuháskóla, hef fundið lausnina:

Verslunarskóli Íslands verði strikaður út af fjárlögum. Þannig sparast 657,1 milljón króna sem gerir öllum fermingarbörnum þessa lands kleift að hjala við fossa og lýja járn á steðja sumarlangt hvert ár.

Að ala æsku þessa lands upp í fagurri sveitarómantík og uppræta sjálfan Belsebúb í leiðinni með einu pennastriki? Þetta er einboðið, Guðni. Þetta er einboðið.