fimmtudagur, október 07, 2004

Nóbelsverðlaunin

Sænska akademían virðist ofurhrifin af brjáluðum kerlingum. Síðast þegar kona fékk verðlaunin var það hin brjálaða kattakerling Wislawa Szymborska sem bjó ein (með kisunum sínum reyndar) í útjaðri Poznan í Póllandi. Núna er það hin brjálaða víðáttufælna Elfriede Jelinek sem býr ein í útjaðri Vínar í Austurríki.

Jelinek þessi getur ekki farið til Stokkhólms að taka á móti Nóbelsverðlaununum því verandi agórafóbísk er hún „hrædd við að koma út undir bert loft vegna sjúklegs ótta um að allir snúist gegn henni, hæði og hati“. Ég held reyndar að það yrðu ekki margir til þess, Elfriede mín.

Ef Nóbelsverðlaunin hefðu verið til árið 1666, þá hefði Sigríður „Sigga skálda“ Jónsdóttir ábyggilega hlotið þau „fyrir ansi hreint skemmtilegan kviðling sem hún lét flakka um sköllótta sóknarprestinn með tjúguskeggið er hann steyptist um koll í einum drullupolli með sitt sálmahandrit.“

En að öðru og þó. Aðalmaðurinn í þessu öllu saman er Horace Engdahl, aðalritari Sænsku akademíunnar, sem kemur fram á hverju ári og les upp tilkynninguna eftir að hafa skellt hurðinni mjög harkalega á eftir sér.

Hann les hana fyrst á sænsku. Gott mál það. Síðan þýsku. Jú, jú, móðurmál verðlaunahafans og menntamál eitt mikið. Síðan ensku. Heimsmálið, sko. Loks frönsku. Gamla heimsmálið, sjáið til. Jú, og síðan rússnesku. Ég meina, hefði getað orðið heimsmál.

Horace var mikið niðri fyrir í ár. Það má greinilega merkja á því þegar hann segir enthüllen í lok þýska hlutans. Kannski var bara ákveðið á lokamínútum átakafundarins áður en Horace var skúbbað út úr herberginu að veita Jellanum Nobbann en ekki Mikael Torfasyni.

Hinn übersvali meistari Engdahl lætur ljós sitt skína hérna. Sjáið líka svipinn á honum á síðustu sekúndu upptökunnar þegar hann fettir upp á varirnar. Þessi svipur segir aðeins eitt: „Djöfull kann ég mörg mál. Djöfull er ég bessstur.“