mánudagur, maí 08, 2006

Að taka próf sem maður er tilbúinn að taka, Eða: Gleymdar minningar

04:59. Vakna við BBC World Service í útvarpinu.
05:00. Sofna.
06:05. Vakna. Ráfa fram í eldhús.
06:23. Frumlestur undir próf hefst.
08:51. Fer fram að lesa blöðin með góðri samvisku. Djöfull gengur mér eitthvað vel.
09:16. Byrja aftur að læra.
09:54. Steiki mér egg á pönnu. Næ í hjólið mitt niður í geymslu og pumpa í það vegna þess að einhvern tíma ætla ég að verða ekki-feitur.
10:35. Held áfram að læra. Fæ prófahugljómunina. Hún felst í því að allt í einu uppljúkast aðalatriði og maður getur sagt nánast óskeikullega fyrir um úr hverju verður prófað og hvernig. Til samanburðar má geta þess að ég fékk sömu hugljómun fyrir samræmdu prófin 2000 í október árið 1999. En fyrir stúdentspróf í grísku 2004 hálftíma áður á Íþöku, vinstra megin í salnum.
10:36. Eflist mjög.
10:37. Glósa og glósa og glósa og glósa glósurnar aftur í samræmi við hugljómunina.
12:20. Hádegisfréttir hefjast í Ríkisútvarpinu. Lokahönd lögð á smæstu smáatriði í samræmi við hugljómun. Fiðrildi blakar vængjum í Peking.
13:01. Mér er tjáð af prófstjóra í KR-heimilinu að ég sé á vitlausum stað. Ekkert mál, Deutschland er parkerað fyrir utan með fullan tank.
13:30. Próf hefst í VR II, af öllum stöðum.
16:30. Rúst. Rústrústrúst.