föstudagur, júní 25, 2004

Konungskoma

Hans konunglega háheit Hákon, krónprins Noregs, og hennar mæjestet framtíðardronningen Mette-Marit Tjessem Højby munu heiðra Garðbæinga með sinni hávelbornu og veleðla nærveru næstkomandi þriðjudag.

Athöfn þeim til heiðurs verður haldin á Garðatorgi hinu nýja en við það stendur Bókasafn Garðabæjar. Af þessu tilefni var dobía af norskum bókum fengin að láni í Norræna húsinu og henni stillt upp í safninu. Þá voru norskir og íslenskir pappírsfánar keyptir af framtakssömum ungum mönnum og þeim komið fyrir á áberandi stöðum. Bókinni Olav V — 30 år på tronen var komið fyrir ofan á skáp í afgreiðslunni en framan á henni stendur kóngur hnarreistur í allri regalíu með hönd við húfuder.

Nú vantar bara risastóran tvíklofinn norskan fána með ljónsskjaldarmerki í glugga bókasafnsins og þá verð ég sáttur. Nema að ég skelli stórum borða upp á undan sem á stendur Heia Norge!

Mér líður bara eins og fyrir konungskomuna 1907. Ég ætla heim að semja drápuna sem ég flyt honum.