sunnudagur, júlí 11, 2004

Miðvikudagsrakstur II

Ég mun skera hár mitt að morgni dags. Tilgangurinn er sá að fyrri hluta vikunnar sjái fólk mig með skegg en þann seinni skegglausan. Fyrst um sinn mun ég veita lýðnum skegglausan miðvikudag með morgunrakstri en stunda kvöldrakstur með reglulegu millibili til að gæta jafnvægis milli Angra Mainyu og Spenta Mainyu.

Brúðkaup

Um helgina var ég í fjölskyldubrúðkaupi úti á landi. Það væri í sjálfu sér efni í bíómynd, eða jafnvel skáldsögukorn lítið. En þegar veislunni var að ljúka sá veislustýran ástæðu til að lesa upp plagg sem nefndist „Málfræði hjónabandsins“ sem var samansafn af einföldum samlíkingum milli hjónalífs og grammatíkur.

Meðal efnis í þessari undursamlegu ritsmíð var heilræðið: „Hjón ættu að lifa í nútíð og gleyma þátíðinni. Síðan ættu þau að leitast við að vera gift í framsöguhætti en ekki viðtengingarhætti.“ Þá brast eitthvað innra með mér og ég var eini maðurinn sem gaf frá sér hljóð í félagsheimilinu og hló. Hátt.