föstudagur, ágúst 27, 2004

Ameríka

Morgan Spurlock segir okkur að passa upp á menninguna okkar. Hann segist líta það óhýru auga að Ísland fari að líta út eins og Ameríka, að lykta eins og Ameríka.

Ég er honum fullkomlega sammála. Það fyrsta sem ég tók nefnilega eftir þegar ég fór til Ameríku árið 1995 var lyktin; þessi óræða sætindalykt sem lá í loftinu. Eftir að ég kynntist Skittles uppgötvaði ég að lyktin er nánast sú sama, gervileg og alltumlykjandi. Það var alveg sama hvert ég fór: í stórmarkaði, kringlur, heimahús, skyndibitastaði, söfn. Alls staðar var þessi lykt, og það sem meira er um vert: af öllu. Í húsgögnum, fötum og meira að segja blöðum og bókum.

Um daginn kom kona á bókasafnið og vildi láta ljósrita fyrir sig skírteini úr Princeton-háskóla. Þegar ég var kominn á bak við lyktaði ég af skjalinu, og viti menn! Sæt Ameríku-angan.

Er þessi Ameríku-lykt seld í spreybrúsum sem dreift er um allt landið?