sunnudagur, október 17, 2004

Ég las svolítið í bréfasafni Goethe og Schillers í dag

Oft og einatt hellist yfir mig tilfinning um að vilja ekki tilheyra þessu rúmi, heldur öðru, að vera maður á öðrum stað með annan líkama.

Ein slík stund opinberunar og æðri hugljómunar var í sumar. Í sjálfveittri vinnupásu inni í þéttiskápageymslu Bókasafns Garðabæjar henti ég niður stafla af bókum úr 921 — ævisögum og settist á koll innst inni í geymslunni. Við sjálfan rarítetsvegginn þar sem marraði í skápunum.

Í þeim stað vaxa valinkunnar urtir, heiðruðu lesendur. Meðal annars Hómersþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar, seinni þýðingar, nótabene, á fornyrðislagi sem hann dundaði sér við á efri árum því hann hafði svo lítið að gera, karlinn. Með formála eftir Jón Sigurðsson, bundið í band sem endast mun fram á efsta dag, prentað með stafnum è sem þá átti að tákna hljóðið [je] til frambúðar. Flúorljósin flöktu allt í einu.

Þar er líka hilla með gömlum kennslubókum og inn í hverja bók hefur einhver párað nafnið sitt með undurfagurri gotneskri léttaskrift: „Tómas Sigurðsson, Mentaskólanum, 1907.“ Maður sem talaði íslensku og er dáinn í dag.

Inni á milli bókanna, nánast falið á milli tveggja snjáðra kjala, var rit í vínrauðri kápu sem hafði prentað á titilblað sitt: Þýsk lestrarbók, með stuttri málmyndalýsingu og orðasafni, eptir Steingrím Thorsteinsson. Og „málmyndalýsingin“ var stutt, mjög kortföttuð. Ekki meira en 20 blaðsíður og tæpti á björgólfum þýskrar beygingafræði.

Síðan hóf leskaflann á ljóðum eftir Goethe og Schiller, ekkert klippt eða skorið, ekkert tilheimskað. Og Goethe og Schiller héldu áfram og áfram, ótilheimskaðir í 260 blaðsíður!

Bók frá þeim tíma þegar menn lærðu þýsku á því að lesa Goethe og Schiller frá fyrsta degi! Eða þriðja kannski. Wie froh bin ich, dass ich weg bin! Himinn höndum tekinn, drottinn tilsýndar.

Mig langaði að stökkva inn í bókina og synda í blekinu.