fimmtudagur, október 14, 2004

Hvað á þetta eiginlega að þýða?

Í gær fór ég út í kjörbúð að versla. Þegar ég var í miðjum klíðum að lesa innihaldslýsinguna á Ora-fiskibolludós vatt sér að mér maður einn og sagði:

„Ég hef alltaf velt því fyrir mér hvernig sellufundur í últravinstriflokki gengur fyrir sig.

Þar hljóta nokkrir ákaflega réttlátir, víðsýnir og femínískir hugsjónamenn að koma saman sem hata guð og ráðslaga um heill mannkynsins, vegna þess að þeir eru einu einstaklingarnir í úníversinu sem er annt um annað fólk, einu útverðir manngæskunnar í vondum heimi markaðshyggju og velmegunar.

Strax í upphafi þegar þeir eru búnir að hlæja taugaóstyrkum hlátri að „frellunum“ (sem eru allir aðrir nema þeir sem eru sjálfskipaðir femínistar og mannkynsfriðarsáttasamlyndishúmanistar) uppgötva þeir að mannkynsfriðarsáttasamlyndishúmanismi þeirra forbýður þeim að gera grín að öðru fólki vegna þess að það er mannréttindabrot. Það er skýlaus krafa að allir haldi mannlegri reisn sinni, jafnvel óháð frelsku.

Síðan þegar allir eru búnir að kveikja á fartölvunum sínum sameinast þeir í stuttri þögn til að minnast fórnarlamba Davíðs og Halldórs í Írak, sem drógu okkur bara út í stríð og drápu fullt af fólki án þess að spyrja kóng eða prest. Þá gerir einhver að gamni sínu og segir að það land væri nú slæmt þar sem væru kóngar OG prestar. Síðan hlæja allir guðlausu lýðræðissinnarnir og viðurkenna að Ísland sé nú hálfskítt land þar sem það fullnægir helmingi skilyrðanna.

„Jæja, fylgið er þverrandi og stefnumótun bíður,“ segir þá einhver. Eftir að hafa hugsað (sameiginlega) í smátíma segir einn: „Já, ég veit hvað snýr lýðnum til vor! Vér skulum draga fram merkingarsnauða og skítuga orðaleppa eins og „heimsvaldastefna“, „valdníðsla“, „fasismi“ og „alræðisríkið Ísland“ því þannig skynjum vér raunveruleikann. Síðan skulum vér öskra orðaleppana á torgum! Við þetta flykkist þjóðin til vor sem mý á mykjuskán.“

Þá klappa félagarnir honum lof í lófa fyrir þessa skilmerkilegu úttekt. Allir klappa jafnt. Og femínískt. En þá bendir einhver á að samkvæmt nýjustu rannsóknum sé hugtakið þjóð, þjóðtunga og þjóðmenning dauður bókstafur. Fjölþjóð, fjölþjóðatunga og fjölþjóðamenning hafi leyst hitt af hólmi. Ekki má þó áminna liðsmanninn fyrir nasisma sinn því það stríðir gegn mannréttindum hans. Fundurinn samþykkir orðið samfélag í stað orðsins þjóðar.

Að hugmyndavinnu lokinni er sellufundinum slitið og allir tralla saman á mótmæli þar sem stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilislausra hamstra er kröftuglega andæft. „Dóri Dauði!“ og „Bjössi Böðull!“ er letrað á nokkur fagurmáluð skilti og í samræðum liðsmanna eftir á er það Ísland sem aldrei kom harmað.“


Þegar maðurinn hafði baunað þessu rugli yfir mig og fiskibolludósina sem ég hélt á hafði hann sig á brott.