föstudagur, júní 11, 2004

Djörf bókabjörgun

Áðan var ég settur í að henda heilum vagni af bókum út í gám hér á BGB. Þegar ég kom inn leið mér illa eins og ég hefði drýgt hræðilegan glæp. Mér finnst vont og rangt að henda bókum.

Ég henti því hverri bók fyrir sig í gáminn og mat menningarlegt gildi þeirra jafnóðum. Mér fannst unun í því að henda Tímariti Verkfræðingafélagsins og Árbók Orkustofnunar. Þessum bókum bjargaði ég úr súgnum mér til eignar:

Leo Trotskí: Ævi mín. Ógeðsleg kilja frá 1936, drulluskítug, gul og illa lyktandi af ryki og sagga. Karl Ísfeld þýddi (vissi ekki að hann hefði verið kommúnisti). Þetta er svona ódýr kilja sem var dreift í massavís af trotskíistum niðri á höfn á fjórða áratugnum þegar stéttabaráttan stóð sem hæst. Trotskí var meira að segja á lífi þegar það átti sér stað. Kápan er rauð, höfundarnafn hvítt en bókartitill svartur og svarthvít mynd af honum skælbrosandi. Efnið er áhugavert þó formið sé úldið.

Jökull Jakobsson: Feilnóta í fimmtu sinfóníunni. Ég las fyndinn bút úr þessari bók einhvers staðar árið 2001 og fór og fékk mér hana á bókasafni (BGB meira að segja, kannski er þetta sama eintakið?). Mig minnir að eiginkona einhvers stjórnmálamanns af Arnarnesinu í Garðabæ hafi verið að gamna sér með einhverjum nemanda í MR í húsi í 101 þegar bókin hefst. Ég entist fram á bls. 50 því ég fann ekki fyndna bútinn sem ég hafði lesið. Nú ætla ég að bæta úr því og lesa alla bókina.

A. E. Brachvogel: Parcival, síðasti musterisriddarinn, síðara bindi. 700 bls. doðrantur um Wagnerstengt efni = bókabjörgun. Hverjum er ekki sama þó þetta sé síðara bindi? Kannski eignast hann Lohengrin í því. A.m.k. þess virði að skoða hana.

Jónas Rafnar bjó til prentunar: Íslenskir galdramenn. Frekar illa farin kilja frá 1948 þar sem safnað er saman mörgum þjóðsagnabútum um sjö galdramenn. Dæmi um kaflafyrirsögn: Þáttur af Þorvaldi skáldi Rögnvaldssyni á Sauðanesi. Gæti þetta orðið eitthvað skemmtilegra? Síðan er líka þáttur af Snorra á Húsafelli, þeim dánumanni. Gaman, gaman.

William J. Bossenbrook: The German Mind. Jahá. 450 bls. af stúdíu á þýskri þjóðarsál og þjóðfélagi im Allgemeinen á grundvelli sagnfræðinnar skrifuð af Bandaríkjamanni árið 1961. Upphaf bókarinnar hljóðar svona: Why the Germans have not been integrated into the Western Community of values is the key question of the German problem. This book attempts to set down some of the basic answers to the question. Ja, ég segi bara jahá.