þriðjudagur, júní 08, 2004

Tímaritalestur

Ég var inni í geymslu á Bókasafni Garðabæjar í gær að raða tímaritum sem ekki eru til útláns í stafrófsröð, en þau voru í mikilli óreiðu. Þetta eru að stærstum hluta innbundin söfn af gömlum blöðum á borð við Skírni, Tímarit Máls og menningar og jafnvel Útvarpstíðindi frá 1938. Og fleira í þeim dúr.

Ég tók mér góðan tíma í að skoða það sem ég var að raða upp og komst meðal annars að því að dagskráin í Ríkisútvarpinu var að mörgu leyti bitastæðari fyrir sjötíu árum en í dag. Hver dagur hófst á þýskukennslu (slef) og síðan var allt kvöldið lagt undir

a) klassíska tónlist
b) fyrirlestra um sögu og menningarmál í flutningi prófessora við Háskólann.

Nóta bene: allur fyrirhugaður tónlistarflutningur var vandlega skráður, þannig að maður gat séð hvaða verk voru á dagskrá og hvenær en því er sko ekki að heilsa í dag, stendur bara 16:03: Hlaupanótan. Búið basta.

Allavegananana, þegar lestri mínum á Útvarpstíðindum lauk fór ég að lesa Ísafold frá 1882 og rakst þar á þennan texta:

Auglýsingar.

KVENNASKÓLINN Í REYKJAVÍK.

Þeir, sem vilja koma konfirmeruðum, efnilegum og siðprúðum yngisstúlkum í kvennaskólann næstkomandi vetur (1. okt. til 14. maí), eru beðnir að snúa sjer í þeim efnum til undirskrifaðrar forstöðukonu skólans, ekki seinna en 31. ágústmán næstkomandi.

Reykjavík, 26. dag júnímán. 1882.
Thóra Melsteð.


Í dag var ég að skoða Mbl. og sá eftirfarandi:

Kvennaskólinn í Reykjavík

Innritun
Innritun nýnema fyrir skólaárið 2004-5 fer fram í skólanum miðvikudaginn 9. júní og fimmtudaginn 10. júní frá kl. 8 til 18. Innritun lýkur föstudaginn 11. júní kl. 16.

Kvennaskólinn í Reykjavík býður bóknám til stúdentsprófs.
Brautirnar eru þrjár:

félagsfræðabraut
málabraut
náttúrufræðibraut


Í skólanum er bekkjakerfi en þó mikið val á 3. og 4. námsári.

Inntökuskilyrði eru samkvæmt reglugerð menntamálaráðuneytisins. Þau eru háð brautarvali nemandans. Umsókn skal fylgja staðfest ljósrit af grunnskólaprófi.

Námsráðgjafar skólans verða til viðtals innritunardagana.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu skólans, www.kvenno.is eða í síma 580 7600.

Skólameistari.


Hvor auglýsingin finnst lesendum skemmtilegri og lykta síður af stofnanaýldu?