miðvikudagur, október 20, 2004

Ein stór athugasemd (þó fleyguð með plasti)

— Mér finnst það hamla mér að geta ekki talað frönsku reiprennandi eins og þýsku. Þess vegna ætla ég að læra frönsku eins og vitlaus maður næsta sumar og skrá mig í 6 einingar í málinu í Tungumálamiðstöð HÍ næsta vetur og ná orgasmísku valdi á því.

— Glæra plastpokarúllan (fyrir opna skinkupakka og svona) hefur alltaf verið geymd í Skúffu 1 við eldhúsgluggann. Einhver snillingur tók upp á því að setja hana alltaf í Skúffu 3 fyrir mánuði eða svo sem olli því að ég opna alltaf Skúffu 1 og 2 áður en ég ramba á þá réttu. Nú í gær pavlovaðist ég loksins til að opna Skúffu 3 fyrst.

— Þegar ég heimsótti Tungumálamiðstöðina fyrst í september tók ég eftir því að í þýskuhillunni var álitleg díalektkennslubók í austurrískri þýsku. Ég ætla að læra þessa bók algjörlega utan að og horfa síðan á milljón þætti með hinum víenníska lögregluhundi Rex og hljóma þannig eins og alvörustyrmerkingur þegar ég legg upp í pílagrímsför mína til Hins heilaga rómverska keisaradæmis þýskrar þjóðar um áramótin.