föstudagur, júlí 14, 2006

Nei, heyrðu mig nú

Bréfasendingar mínar báru ekki tilætlaðan árangur. Ég fékk í pósthólfið í morgun tvö blöð, Fréttablaðið og Blaðið. Blaðið sem ég borga fyrir, Morgunblaðið, barst mér hins vegar alls ekki.

Hins vegar þá var búið að fjarlægja bréfin sem stíluð voru á blaðbera Blaðsins og Morgunblaðsins. Fréttablaðsmaðurinn hafði greinilega ekki lesið sitt.

Nú má draga af þessu ályktanir:

a) Blaðberi Morgunblaðsins móðgaðist yfir því að ég skyldi draga hann inn í yfirsjónir annarra, því sannlega er það yfirleitt blaðberi Fréttablaðsins sem treður blaðinu bara einhvern veginn í lúguna svo það blokkerar allt annað. Hann hefur lesið orðsendinguna en farið að gráta og ákveðið að ég skyldi sko ekki fá Moggann í dag.

b) Öllum blaðberunum var sama um skeytasendingarnar, hentu orðsendingunni bara burt. Moggamaðurinn var á sterkum lyfjum í morgun og sveik mig því um vöruna sem ég hef þegar greitt fyrir. Blaðberi Blaðsins (tautologia anyone?) var í sólskinsskapi í dag og þóknaðist að afhenda mér það.

Þegar ég kom upp í fýlu yfir þessu, þá var Pólverjafjölskyldan byrjuð að blasta píkupopp og búin að skrúfa sjónvarpsstöðina Polsat í botn. Sömuleiðis gekk landskjálfti mikill um íbúðina mína þegar börnin fóru að hlaupa og hoppa viðstöðulaust.

Setti ég Warschauer Einzugsmarsch 1939 á fóninn contra inimicos meos Polaccos? Nei, vegna þess að ég er ekki alrúinn heilbrigðri skynsemi.

Reiði og gremja. Reiði og gremja yfir því að hafa ekki stjórn á aðstæðum mínum og nánasta umhverfi. Mig greip æði og því hringdi ég í öll dagblöðin þrjú og endurtók efnislega það sem stóð í bréfinu. Kurteislega og herramannslega. Allir lofuðu bót og betrun.

Hver veit nema það reynist Münchenar-grið?