Hvað er Atli að gera?
Atli er í Háskólanum, með stóru h-i. Alveg eins og þegar hann var í Menntaskólanum (M, ekki m). Háskólanám á vel við Atla þó hann hefði ekkert á móti því að vera að fást við eitthvað annað. Eina skilyrðið sem framtíðarstarfið verður að uppfylla er að hann fái að segja eitthvað gáfulegt. Það má líka vera fallegt. Og skáldlegt.
Atli er undarlega hrifinn milli málfræði og bókmennta. Einhvern veginn finnst honum sem skáldskapur sé málfræði í praksís. Hann leitar dyrum og dyngjum að einhvers konar millivegi og finnur hann helst í Jóni Helgasyni sem var vænn maður.
Atli er í nokkrum námskeiðum í Háskólanum. Þau eru:
Latína II: Ræðumennska Cícerós. Cíceró var maðurinn sem bjargaði sjötta bekk. Þegar allt var komið í þrot og hengiflugið blasti við í janúarbyrjun heyrðist allt í einu stórkostleg og tær rödd sem mælti til mín af festu og þunga: Kvússkve tand abútere KATILÍNA!!!! ... patientía NOSTRA?!?! Eftir tvöþúsund ár brann þessi texti ennþá. Þess vegna skráði ég mig í Cíceró ári seinna.
Heimspekileg forspjallsvísindi. Ég forfallaðist í fyrsta skiptið, en skilst að þetta sé leiðinlegt, enda kallað fýlan. En: sú er skoðun mín að sé heimspeki kennd af mikilmennum er ekkert betra í þessum heimi. Sé hún hins vegar kennd af dusilmennum breytist hún í andhverfu sína fullkomna. Ég bíð spenntur.
Íslensk beygingar- og orðmyndunarfræði. Málfræði, tunguvísdómur.
Íslensk setningafræði og merkingarfræði. Staffræði, málrófskunnskapur.
Íslensk bókmenntasaga. Íslenskar bókmenntir frá öndverðu liggja undir. 6800 bls. á leslistanum, Atlakviða til Péturs Gunnarssonar. Það verður sjón að sjá.
Þetta er Atli að gera. Jú, og ýmislegt annað reyndar.