þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Ó Hagkaup, það markaðstorg guðanna! Í háreistum marmarasölum Kringlunnar rann ég á yndisilm ávaxta og (m)unaðarvöru og festi kaup á skeppu af sætum granateplum og vænum bita af höfgum parmesankæsi. Þegar ég hafði satt mig á þessu settist ég niður og lét mér líða svona.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Hvað er skemmtilegra en vera menntskælingur í ruglinu?

Jú, háskælingur í ruglinu! Nú verður stúdentsprófavirksomheðið endurvakið og skrúfað í botn.

May God have mercy on my soul.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Kæra dagbók

Í dag komst ég að því að ég er ekki kvenmaður. Ég komst einnig að því að íslenskt samfélag er viðsjárverðara en ég hugði.

Í fávitsku minni hafði ég ekki hugmynd um að þetta gerðist á þessari eyju.

Þetta hefur þá verið ástæða þess að stelpan sem ég mætti hjá Kristskirkju eftir Oktoberfest færði sig yfir á hinn vegarhelminginn. Næst þegar ég mæti konu einn að kvöldlagi ætla ég að verða fyrri til og færa mig yfir á hinn vegarhelminginn, taka ofan hinum megin vegar og kalla glaðleg ávarpsorð til hennar svo að henni líði betur.

laugardagur, nóvember 27, 2004

Með tvennum tugum benja

Áðan var ég að sprauta tómatpúrru úr túbu yfir tekex (TTT). Þá losnaði um einhver höft og hálf túban sprautaðist á hvíta stuttermabolinn minn.

Varð mér þá að orði: And on thy T-shirt gouts of blood, / Which was not so before.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Og farið síðan eftir þessu!

Ef það er eitthvað sem pirrar mig meira en þegar bara vondu molarnir eru eftir í nammidollu þá er það þegar fólk segir „grúppa“ í stað „hópur“. Þetta finnst mér tilgerðarlegur fávitaháttur.

Dæmi (mælandi talar með bandarískum errum og dregur seiminn á kanalegan hátt): „Já, og so kjomum við seman í svona ... grúppuuuuuu, o þa ver rosalea geman í grúppunniiiiii.“

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

And what did I in the dark behold? A KIWI!

I see that a Kiwi has stumbled upon this feeble and frivolous blog by entering "Atli Freyr Steinthorsson" into Google.

I know two people in New Zealand, both of whom I haven't contacted in quite a while. Why? Because I'm an asshole.

Madame Walker? Was it perchance thou?

Doctor McNamara! I emplore thee! Step forward and leave a comment! Atallus Freioverus Saxithorisfilius te salutat!

Or send me an e-mail, atlif@isholf.is. Bitte! Or you can always stand on a beach and try and shout northwards. :-)

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Eldur í Sundehafn

Þar eru þau dekk sem aldrei og hvergi fást slík til dómadags.


Take the Dead German Composer Test!



Í tilefni af þessu leyfi ég mér að tilfæra heiti á litlu sönglagi sem meistarinn samdi eitt sinn: „Leck mich am Arsch“.

Og já, spuruli lesandi, enska þýðingin væri alllík þessari. Varla þarf að taka fram að lagið hefur ekki KV-númer.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Ó nótt vors lands, ó lands vors nótt

Klukkan er ekki orðin 18 og það er orðið ískyggilega dimmt úti.
Daginn eftir

Ég er enn að ná mér eftir Hríseyingabingóið.

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Af Kelaklaninu

Ég vaknaði í morgun kl. 11 við það að mamma var að tygja sig til brottferðar. „Æi, ég er að fara að setja rúllur í mömmu og svo erum við að fara á bingó hjá Hríseyingafélaginu. Viltu koma með?“

Bingó hjá Hríseyingafélaginu kl. 14. Ég bókstaflega heyrði smjörlíkið steikjast á pönnunni og brenna við. Ég fór með mömmu til ömmu og skrúfaði upp í Sunnudagsþættinum og Silfri Egils þar sem hárblásarinn hefði annars yfirgnæft viðtækið. Katrín Jakobsdóttir! Ég vil ekki skipta um þjóðsöng. Stefán Snævarr! Þú ert frábarr.

Skipholt 70, kl. 13:39. „Og svo ef einhver spyr þig, Atli minn, þá ertu af ættinni hans Kela.“ Leiddi ömmu yfir hálkuna á bílastæðinu og hún réðst á fyrstu gráhærðu konuna sem hún sá og kyssti á kinnina.

Agnar afabróðir: „Jæja, vinur, þú ert bara kominn með skegg og svona. Jájá. Hvað ertu að gera?“ AFS: „Ja, ég er bara í háskólanum ... í íslensku og latínu.“ Virðingarfull og heilög þögn. Sotto voce: „Laaaaaatínu?“

Á einu borði var græn bingóspjaldahrúga. Ég tók upp tvö en leist ekki nógu vel á annað. Það var eitthvað við það sem pirraði mig þannig að ég tók annað. Borgaði 500-kall og settist. Við hliðina á mér sat lágvaxin þéttholda kona. Hún beygði sig aðeins fram og sagði við dóttur sína: „Sjáðu manninn sem situr við vegginn þarna hinum megin. Er þetta ekki einn af Dennu krökkum? Það er alveg Lambhagasvipurinn með honum.“

Allt í einu fór sælustraumur um hverja mína taug.

„Jæja, velkomin, gaman að sjá ykkur. Líka gaman að sjá Sævar Sævarsson og Jón Pétur hérna í fyrsta skipti. Við í nefndinni erum orðnar svo miklar druslur að finna ykkur öll.“ Tveir gamlingjar með lifrarbletti standa upp og veifa höndunum og allir klappa fyrir þeim og hlæja. Mamma: „Haha, sjáðu þessa, Atli, þetta voru mestu æringjarnir í Hrísey, alveg sko ...“

„Þá er það bara fyrsta bingó. Spila lárétt.“ B 14, I 21, N 39, G 48, O 63. Stendur heima. Það var bingó á spjaldinu sem mér leist heldur á!

Í hátalarakerfinu: „Haha, þú verður nú að koma upp, ég ætla ekki að sækja þetta til þín.“ Karfa með hamborgarhrygg, grænum baunum, rauðkáli og niðursoðnum perum. Hríseyingar Reykjavíkur klappa fyrir mér á sviðinu.

Bingó tvö, bingó þrjú, hlé. Þéttholda konan snýr sér að mér og segir: „Jæja, þú ert bara heppinn. Af hvaða ætt ert þú?“ AFS: „Uuu, ég er af ættinni hans Kela, sko.“ „Jájá, ég þekkti hann Guðjón frænda þinn!“

Tvær litlar stelpur hlaupa að mér. S1: „Varst þú að vinna? Við erum ekki búnar að vinna neitt. Ég kom hingað fyrst þegar ég var sex ára og hún þegar hún var fimm.“ S2: „Nei, ég var fjögra, manstu ekki, svo fórum við heim til þín í Bólstaðarhlíðina.“

Áfram. Bingó fjögur. Bingó fimm: „Jæja, bingó í kross.“ B 5, I 17, N 43, G 54, O 61. Bingó á hinu spjaldinu mínu! Kertaskreyting og konfekt í vinning!

Á leið minni upp á svið öskraði ljóshærð kona sem ég hef aldrei séð áður að mér af lífs og sálar kröftum: „TIL HAMINGJU!!!“ Frægasti Hríseyingurinn, Árni „Lilli klifurmús“ Tryggvason var þarna líka og kallaði: „Þú mátt ekki taka þetta allt frá okkur maður!!!“ Flissaði. Allir Hríseyingar Reykjavíkur taka undir með honum og hlæja að mér.

Allt búið. Agnar afabróðir við ömmu: „Jæja, Ingibjörg! Þetta helst þá í ættinni! Það fá bara andskotann allir bingó sem koma með þér!“ Sem er alveg rétt sögulega séð.

Ég leyfi mér að vitna í verk ævisöguritara míns, Æviminningar Álftnesings: „Víst var mikil spenna kringum Gettu betur á sínum tíma og tilfinningin þegar ég tók við Hljóðnemanum yfirþyrmandi. Það var þó hjómið eitt hjá bingói Hríseyingafélagsins 2004. Aldrei, hvorki fyrr né síðar, fann ég til slíks stolts og þegar ég hampaði hamborgarhryggnum góða.“
Að öðru

Í dag mun ég ganga undir nafninu Hérastubbur bakari. Best að skoppa og hræra í góða haldabrauðsuppskrift.
Dílemma (?)

Skyldu orðin ensemble og saman vera runnin af sömu rót?

Ekki get ég spurt kennara við Háskóla Íslands þar sem slíkt þætti án efa óvinsæl tímasóun. Ég dríf mig á skyggnilýsingu og spyr Rassinn að þessu. Hann hlýtur að vita þetta.

Reiður samnemandi og lesandi úr sal: „Af hverju flettirðu þessu ekki upp í bók, fæðingarhálfvitinn þinn?“

Svar: Vegna þess að ég er Atli Freyr Steinþórsson og stunda nám við akademíu til að grípa frumorsakir. Horæta!

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Levius fit patientia quidquid corrigere est nefas

Í dag ræddum við söguleg málvísindi á einstaklega yfirborðskenndan hátt í Háskóla Íslands. Skautað var yfir helstu tópík á ljóshraða og síðan fór kennslupersónan að tala um Rasmus Kristján Rask. Rekjum það stuttlega:

Kennslupersóna: „Já, og svo kemur Rask til Íslands 1818 og kynnir sér ...“
Atli Freyr Steinþórsson: „Nei, hann kom hingað 1813.“
KP: „Já. 1813. Og kynnir sér íslenskuna nánar en hann sko byrjaði að læra hana sex ára ...“
AFS: „Nei, hann byrjaði að læra hana á unglingsárum í Odense Katedralskole. Þegar hinir baunarnir fóru að slarka fór hann upp á háaloft með kerti og eintak af Heimskringlu.“
KP: „Jaaá. En já. Rask hélt því fram að satem-málin ... já, hérna, satem-mál og kentum-mál; málaflokkar sem heita eftir tölunni hundrað á sanskrít og latínu — að satem-málin ...“
AFS: „Satem heitir eftir tölunni hundrað á avarísku.“
KP: „HVAÐA DJÖFULS MÁL ER ÞAÐ?!“
Wachet auf, ruft uns die Stimme

Ég er að hlusta á Rondó FM 87,7. Það er ný sólarhringsstöð RÚV sem spilar bara klassísisma og djástónlist. Já, þið lásuð rétt: ný sólarhringsstöð RÚV sem spilar bara klassísisma og djástónlist.

Hvers vegna er aldrei nokkur skapaður hlutur auglýstur á þessari blessuðu stofnun? Ekki nóg með að þeir láti undir hljóðnema leggjast að auglýsa heila útvarpsstöð, heldur auglýsa þeir aldrei góða þætti á Rás 1 heldur. Þegar eitthvað skemmtilegt er í útvarpinu þarf ég alltaf að þola það að vera spurður hvort ég hafi hlustað á hitt og þetta áhugavert. Sem ég gerði ekki því ÞAÐ VAR ALDREI AUGLÝST OG ÉG VISSI EKKI AF ÞVÍ!

Ókei, einhver gæti boðið fram lausnina: „Hlustaðu bara öllum stundum á útvarpið eða alltaf á þættina sem mestar líkur eru á að verði áhugaverðir.“ Það er ekkert hægt. Stundum er bara Hjálmar H. Ragnarsson spilaður í Hlaupanótunni og þá slekkur maður. Til að forðast slíkar uppákomur væri einfaldlega hægt að birta á heimasíðu RÚV (ég bið ekki um meira) dagskrána í smáatriðum með vikufyrirvara. Er það til of mikils mælst?

Aprópó dagskrárbirtingar: Það er húðsundurslítislega óþolandi að hafa engar kynningar og afkynningar á nýju stöðinni Rondó enda er hún spiluð beint af ferðatölvu á skrifborði uppi í Efstaleiti. Kynningaskorturinn var einmitt það sem varð Klassík FM sálugu til fjörtjóns þegar æstur lýður frústreraðra kynningarsinna réðst á stöðina morgun einn og reif hana niður stein fyrir stein. Kynningarskorturinn reyndar og að þeir spiluðu forleikinn að Rosamunde eftir Schubert 15 sinnum á klukkutíma.

Ef glæsilegasti maður Norðurlanda hefði mátt mæla í umræðuþætti einum á dögunum hefði hann vakið máls á öllu þessu.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Á báða bóga

Viðsjálir tímar, fræðin kalla. Framboðið er bara minna en eftirspurnin.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

„Dagur íslenzkrar tungu“

Fánaskreyttar auglýsingar í dagblöðum og hallelújasamkomur þar sem fólk er heiðrað fyrir „framlag sitt til tungunnar“. Menn hlaupa út af kontórnum og æða hver upp að öðrum á götu úti með gleðiraust og helgum hljóm um ágæti máls feðranna. Svona anzkotans þjóðernisfasjismus er náttúrulega óþolandi og ólíðandi auk þess sem hann er grófasta móðgun við fjölmenningarsamfélagið.

Ég ætla að halda til Lögbergs á Þingvöllum við Öxará, hella beizkum klór í fossinn og sletta málningu á fánann.
Lappinn minn komst heim við illan leik í dag. Hann er haldinn Broca-málstoli og man lítið sem ekkert af því sem við höfum gert saman.

Sælukennd fyllti húsmæður á Ísafirði sem hafnarverkamenn á Kópaskeri þegar glæsilegasti maður Norðurlanda settist þriðji frá hægri á öðrum bekk í umræðuþætti í sjónvarpinu í kvöld. „Kjartan Ólafsson endurborinn,“ sagði ónefnd handritafræðikona í Vesturbænum og japlaði á sméruðum harðfiski.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Ég er lamaður af sorg

Lappinn minn fékk harðdisksstopp og lést í fyrradag. Hann er nú í aðgerð svo hann jojki á ný.

Ég get ekki gert neitt sem ég á, þarf og vil gera. Ég þarf að velja mikilvægustu skjölin sem á að bjarga því það væri of dýrt að bjarga þeim öllum. Þess vegna mun ég ekki eiga neina tónlist á mánudaginn eða ýmsa skemmtilega hluti sem ég hef sankað að mér síðastliðið eitt og hálft ár.

Aukinheldur þurrkast öll forrit út af Lappanum. Ég fótósjoppa því ei meir.

Á einhver að minnsta kosti nýja útgáfu af Word handa mér svo ég geti komið mér af stað eftir helgi?

Lappi minn. Sniff.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Monsún-tíð á Íslandi. En ég sundríð boðaföllin og klæði mig í lopapeysuna sem þokan prjónar mér. Hún er hlý og íslensk.
Ef Guð er til þá býr hann í þessu. Fagur fagur er heimur.

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Vlad Freyr Steinþórnescu

Það er svolítið drakúlskt að drekka eldrauðan blóðappelsínusafa frá Chiquita. Núna finnst mér eins og hemóglóbín saklausra hreinna meyja frá Rúmeníu renni mér í æðum.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Ladies and Gentlemen, the President and Vice President of the United States of America!

Vegna forsetakosninganna hef ég verið með tvö lög á heilanum og flogið um Árnagarð með þau á vörunum. Þessi lög eru inngöngumars forseta Bandaríkjanna, Hail to the Chief, og inngöngumars varaforseta Bandaríkjanna, Hail Columbia.

Það er hægt að breyta Hail to the Chief í ágætt sing-along:

Hail to the Chief we have chosen for the nation,
Hail to the Chief! We salute him, one and all.
Hail to the Chief, as we pledge cooperation
In proud fulfillment of a great, noble call.

Yours is the aim to make this grand country grander,
This you will do, that's our strong, firm belief.
Hail to the one we selected as commander,
Hail to the President! Hail to the Chief!


Þess má geta að lúðraþyturinn í upphafi er kallaður ruffles and flourishes og er endurtekinn fjórum sinnum fyrir forseta og varaforseta, þrisvar sinnum fyrir hershöfðingja og sjaldnar fyrir aðra.

Þótt við Hail Columbia sé til leiðinlegur texti er lagið frekar lúðrablástur en söngur. Textalaust hefur því lagið verið mér sýnu verst. Nú er svo komið að það rúllar aftur og aftur og aftur í hausnum á mér.

Vart þarf að taka fram að ég er kominn með leiða á því.

Annars er þetta unaðslegt gósenland.
Haha

Noam Chomsky og hundurinn hans Umsögn lenda í ævintýrum við að hata samborgarana og bandarískt samfélag:

- Þeir fara í partý og Noam reynir við listasögukennslukvinnu en er leiðinlegur;
- Umsögn neyðir hann til að stofna frekar til utanríkisstefnudiskós en halda fyrirlestur;
- Noam fer í grillveislu en er rekinn burt fyrir stjórnmálaskoðanir;
- hann fær litla Chomsky-dúkku sem leiðréttir málfar átómatískt;
- og gerð er Hollywoodhasarmynd um Noam þar sem Bruce Willis leikur hann.

Einstaklega steikt og karlinn hafður að háði og spotti enda ekki á helgislepjuna í kringum hann bætandi. Í bandarískri mynd um málvísindi sem við vorum látin horfa á í tíma um daginn kom fyrir frasinn: „This is what Noam Chomsky has said ... and Plato concurs with him.“

KOMM-ON!

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Annars var ekki að vænta af þessari blessuðu þjóð

Ég ætla að fara að sofa núna. Í guðanna bænum ekki segja mér á morgun að George Bush hafi unnið, ég veit það alveg.
Raunir hins unga hirðskálds

Hennar hátign Maack bað mig að semja slaður um Snæbjörn til birtingar á bloggsíðu sinni gegn kassa af sjerríi. Núna líður mér kjánalega.

Skáld eiga ekki að semja óhróður um vini sína.

En regalíski titillinn minn var ágætur.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Lítum á nokkra ritgerðatitla

Áhrif réttarins til að fella ekki sök á sjálfan sig á málsmeðferð á stjórnsýslu- og dómstigi.

Mannúðleg meðferð fórnarlamba innanríkisátaka samkvæmt 3. gr. Genfarsáttmálanna og Viðauka II við Genfarsáttmálana.

Endurskoðun ákvarðana um veitingu opinberra starfa í ljósi jafnréttislaga.

Ákvarðanataka á sviði fiskveiðistjórnunar og varúðarreglan.

I am about to soil myself.

Ruglandinn: Hvað er að fella sök á sjálfan sig Á MÁLSMEÐFERÐ?
Sóðaskapurinn: Áhrif réttarins til að fella ekki sök á sjálfan sig á málsmeðferð á stjórnsýslu- og dómstigi! Af hverju dritaði völundurinn ekki niður fleiri á-hljóðum?
Stílleysan: Mannúðleg meðferð fórnarlamba innanríkisátaka!
Síklifunin: ... samkvæmt 3. gr. Genfarsáttmálanna og Viðauka II við Genfarsáttmálana!
Nafnorðafylliríið: Endurskoðun ákvarðana um veitingu opinberra starfa í ljósi jafnréttislaga!
Og botn heimskunnar: Ákvarðanataka!

Ó þá deild! sem útskrifar stúdent með ritgerðina Ákvarðanatöku, ó þá deild ber að afskaffa!

Með leyfi að spyrja: Eru íslenskir unglögfræðingar mállausir og stíls vanir mjölpokar?