fimmtudagur, febrúar 27, 2003

Punkt dagsins
á Sverrir Jakobsson fyrir bráðfyndna frjálshyggjuskilgreiningu sína á bókasöfnum: sameign bóka = kommúnismi.

Próftaflan
er komin upp á veggi Lærða skólans. Á tímabilinu 2.–19. maí er mér gert að mæta og þreyta stúdentspróf í tveimur greinum, líffræði og stærðfræði, og lokapróf í nokkrum öðrum fögum. Í einni vikunni verður próf upp á hvern einasta dag, en í annarri er tveggja daga gap sem fer til einskis. Betra hefði mér þótt að skipuleggja þetta svo: próf á mánudegi, miðvikudegi og föstudegi (með nokkrum óhjákvæmilegum hliðrunum kannski) á þriggja vikna tímabili svo að maður hafi að minnsta kosti einn heilan dag eða helgi til að undirbúa sig fyrir hvert próf. En það verður víst ekki og því þýðir ekki að kvarta. Menntaskólinn í Reykjavík gefur sko engin grið.

Sigurjón pais aristos estin
Helvíti líst mér vel á félaga minn Sigurjón sem nú vegur með sér að skella sér á fornmáladeild I í sjötta bekk, komandi af nýmála II.

Sigurjón, þú ert æði.

Af menntum
Annars hef ég aldrei skilið sumt fólk. Ég hef aldrei skilið það fólk sem að loknu menntaskólanámi fer í greinar á borð við lögfræði, sagnfræði, íslensku eða einhverja húmaníska grein og kemur af annaðhvort dýrafræði- eða tölfræðideildum. Ég skil ekki hvaða akk slíkir menn sjá sér í því að stritast við í fjögur ár að stúdera einhvern fjandann sem gagnast þeim ekki neitt í komandi námi.

Ég blæs á þau rök að enginn lærdómur sé gagnslaus og það kerlingaraus að „þetta víkki sjóndeildarhringinn svo svakalega“ og að menn hafi „kynnst svo rosalega mörgu“. Það fólk sem fer í áðurnefndar greinar hefur ekkert gagn af líffræði, eðlisfræði, efnafræði eða æðri stærðfræði á vegferð sinni. Slíkir menn hefðu miklu meira gagn af traustri klassískri menntun í formi latínulærdóms, sagnfræðistúderinga og mikillar og traustrar málakunnáttu.

Það eina sem blífur er sérhæfing sérhæfing sérhæfing frá blautu barnsbeini!

Hvað gengur því fólki til sem kemur af dýrafræði- og tölfræðideildum og leitar í húmanískar greinar? Hefði lögfræðistúdentinn ekki meira gagn af því að geta lesið Corpus juris civilis á frummálinu? Skyldi sagnfræðistúdentinn ekki prísa sig sælan fyrir að kunna sína aoristosa þegar hann pælir gegnum Heródótos? Hvað vill sá íslenskustúdent upp á dekk sem ekki hefur brotist inn í myrkviði ablatívusafrumskógarins? (Reyndar þurfa ýmsir lögfræðingar að vera ágætlega að sér í verslunarrétti og skyldum viðbjóði, en þeir koma bara úr Versló og öllum er sama um þá.)

Þá skil ég ekki hvers vegna móðurmáls- og sagnfræðikennsla er jafnmikil á öllum deildum. Æi, allt í lagi, kannski eiga allir skilið að fá sömu móðurmálskennslu. Og þó … Nei, skera verður hana niður hjá þeim sem vilja frekar teikna parabólur og diffra sig djöfuls til! Alveg miskunnarlaust! En allir hljóta að vera sammála mér í því að veita húmanísku deildunum smávegis-„edge“ með því að auka sagnfræðikennslu þar en minnka hana á öðrum deildum svo að slíkar deildir verði girnilegri í augum þeirra sem ef til vill ætla sér í sagnfræði eða skyldar greinar.

Það hlýtur að vera keppikefli manna nú á tímum taumlausrar og óstöðvandi efnishyggju, þegar allt verður að lúta lögmálum gróðans, sama hvað það er, að sem flestir verði skólaðir á klassískan hátt. Því verður að beina öllum þeim sem leita í húmanískt háskólanám í þann farveg í menntaskóla. Öllum!

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Máludvikling

Ónefndur maður mætti fyrsta sinni í grísku í morgun í árþúsundir. Sýnt þótti að námið myndi eftirleiðis veitast honum erfitt þar sem forngrískan á bókinni hefði þróast svo mikið á svo löngum tíma.
Yes

Djöfull grætur maður það ekki að rubba einhverjum helvítis enskustíl af. Í tilefni af því ætla ég að fá mér súkkulaðibitamuffins og kókómjólk dazu. Reynið bara að stöðva mig. Hahahahahahahahahahaha!

þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Ómenning

Blessaðir frjálshyggjungarnir andskotast út í tónlistarhúsið. Það sem þarf að gera er eftirfarandi: veita jafnmiklu fjármagni til menningarinnar og gert er til, við skulum segja, íþrótta. Sjáið til dæmis allar fótboltafílabeinshallirnar sem spretta upp eins og gorkúlur, því að halda þarf öllum helvítis úthverfafótboltamömmunum og -bullunum ánægðum! Það er ekki eins og sá hópur fjármagni þessi mannvirki með félagsgjöldunum í Fylki!

Nei, hingað og ekki lengra. Nú verður skorið á öll framlög til íþrótta í þessu landi og því fé mun síðan nefnd ráðstafa sem ég veiti forsæti. Þá kemst allt í lag.

mánudagur, febrúar 24, 2003

Tilviljun?

Ég held ekki: HHG og HHG.

sunnudagur, febrúar 23, 2003

Bull og vitleysa

Stærðfræðipróf á morgun. Ja, þegar ég verð menntamálaráðherra ...

Þeir fara fjöld

Í vikunni sat ég rólegur í strætóskýli einu innan borgarmarkanna og beið eftir vagninum. Sé ég þá hvar fimman brunar upp að skýlinu og staðnæmist. Dyrnar opnast og við stýrið situr Karl XVI Gústaf Svíakonungur, uppáklæddur í einkennisbúning strætisvagnabílstjóra, og glápir á mig yfir gleraugun sín. Síðan keyrði hann vagninn burt.

Þetta minnir mig óneitanlega á það þegar ég sá Poul Nyrup Rasmussen, þáverandi statsminister í Danmörku, rigningardag einn haustið 2001 á Bókhlöðustígnum, haldandi á regnhlíf og skjalatösku.

Skyldu norrænir þjóðaleiðtogar sækja til Íslands þegar þeir vilja hverfa í mannfjöldann í einhverri heimsborginni? Kannski finnst Karli XVI Gústaf bara ansi þægilegt að geta gripið til strætókeyrslu í Reykjavík þegar Stokkhólmur verður of þrúgandi ...

Ég hlakka til að fara aftur í fimmuna.

Allt

Það er bókstaflega allt að gerast í bloggheimum. Sowohl Snæbjörninn als auch Alexxxan hafa inciperað bloggun. Þá hefir Sævar von Flenschburg hafið að greina frá viðburðum í Slésvík-Holtsetalandi.

Fynd vikunnar

Það var nú talað um að bera mál sín á torg í mínu ungdæmi.

Herranótt

Og þá er það Herranæturferð á eftir. Ég hlakka til.

fimmtudagur, febrúar 20, 2003

Kvót dagsins

„Já, fyrirgefðu. Hérna, eigið þið nokkuð Heimskringlu?“

„Bíddubíddu, Heimskringlu? Nei, það held ég ekki. Hefur hún nokkurn tíma verið prentuð?“
GB

Var að koma heim af viðureign Verslunarskólans og Hamrahlíðarinnar. Hvort tveggja liðið sýndi ágætistakta, en mesta athygli hlýtur þó að hafa vakið karfaskilningur Hamrahlíðunga á hundraðkallinum. Hláturprik fá þeir þar.

En, eins og Andrés Indriðason orðar það, þá er nú bara eitt lið sem vinnur ekki, og urðu það verslóskir sem bitu í það súra epli núna, 31-24 minnir mig.

Post-GB

Ákvað síðan í beinu framhaldi af því að rölta á auglýstan bókamarkað við hliðina á Eymundssyni og reyndist það mikið ævintýraland. Þar var á einum stað saman kominn meirihlutinn af lager bókaforlaganna síðastliðinn aldarfjórðung eða svo. Ég kom heim með svona 30 kg af bókum eftir að hafa fundið fjölmörg kúríosítet sem ég hef séð á bókasöfnum og hefur lengi langað í.

Til að mynda fann ég eftir áratugaleit (já, þið lásuð rétt, ég hóf leitina bevor ich im Mutterleib empfangen war) hina íslensku hómilíubók á mjög skaplegu verði. Þá kom ég auga á viðtalsbókina „Guðni rektor – „Enga mélkisuhegðun, takk!““ og hafði fest kaup á henni áður en ég áttaði mig á því. Þetta er náttúrulega flottasti bókartitill í heimi.

Það er með ólíkindum að þetta sé ekki gert oftar, það er að efna til svona markaðar. Það var allt fullt út úr dyrum og ljóst að forlögin eru ekki að tapa neinu á þessu. Þarna var ótrúlega margt að finna, og langflest á mjög góðu verði; eitthvað annað en ömurlega sama gamla fokdýra andlausa „úrvalið“ í bókabúðunum sjálfum. Fólk vill gjarnan kaupa gamalt efni!

Ég get gert mér í hugarlund að bisnissmaðurinn í Björgólfi Guðmundssyni hafi reiðst mikið þegar hann sá öll þessi verðmæti húkandi inni á lager:

Björgólfr ríki: „Starfsstúlka, hví er sjóðr sjá er hér getr at líta eigi strokinn lófum kaupfúsra manna?“
Starfsstúlka: „Æi skiluru það langar engum fattaru að kaupa svona gamalt þúst og þetter bara ógisslett og selst ekke rassgad fattaru.“
Björgólfr ríki: „Lát af sofandahætti þessum, fávísa stúlka, ok kom á kaupstefnu einni mikilli í þeim stað er Smáralind nefnisk, — ok sel þú!“

Sem er einmitt það sem starfsstúlkan gerði. Heyrið það, forlagsmenn: Komið þessu í verð!

Kanaland

Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með málflutningi sandkassabarnanna í Ameríku. „Jáneinei, við ráðumst bara á það sem okkur sýnist og þegi þú, gamla Evrópa.“ Bandaríkjamenn verða að gera sér ljóst að þeim leyfist ekki að gera hvað sem þeim sýnist á alþjóðavettvangi. Það er mikilvægt að þjóðir heims sýni að slíkur yfirgangur verður ekki liðinn mikið lengur, og að Bandaríkjamenn geti ekki rekið hernað gegn hverjum sem er án haldbærra raka. Sú fyrirlitning sem Bandaríkin hafa sýnt „gömlu Evrópu“ og reyndar heiminum öllum er forkastanleg.

Bandaríkjamenn eru heimsk, vitlaus, hrokafull, hallærisleg og leiðinleg þjóð. Nú ætti stórveldistíma þessa guðsvolaða fólks að ljúka, og sú menningarlega og pólitíska spennitreyja sem það neyðir aðrar þjóðir í vera sundur rakin.

Kominn er tími á valdaskeið sameinaðrar Evrópu undir styrkri stjórn Þýskalands! (Og kannski Frakklands, þó ekki.)



Jú, jú, maður hefur svo sem alltaf vitað þetta:


HEIGHT=105>

Congratulations! You
are the most evil man of all time! Not only did you exterminate millions of Jews and involved
the world in the biggest war the world has ever seen, you also convinced the Germans that
the perfect human is a tall blue eyed blond when you're a short, dark Austrian yourself! Well
done you spiteful little shit!

What tin-pot dictator are you? Take the HREF="http://www.poisonedminds.com/tests/dic/">"What Dictator am I?" test at HREF="http://www.poisonedminds.com">PoisonedMinds.com

þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Allt og ekkert

Það er útlit fyrir tvær leikhúsferðir í vikunni, Mors venditoris og Cor canis. Herranætursýningin lofar góðu miðað við það sem sýnt var á keppninni, en ef Mors venditoris er eitthvað í líkingu við það sem maður heyrir á spólunni í enskutímum, ja, þá er ekki von á góðu.

Hvers vegna er það annars ófrávíkjanleg regla að hlusta á allt lesið efni í ensku? Það er ekki eins og menn séu lítt kunnir framburði þessa máls!

Síðan er útlit fyrir nokkra ágætistónleika á vori komanda, War Requiem með Ashkenazy og svona. Annars sá ég, það sem ég taldi vera, Ceciliu Bartoli á sjónvarpstónleikum á sunnudaginn. Guð minn almáttugur hvað hún er orðin feit! Hún er algjörlega óþekkjanleg frá öllum plötuumslögum sem ég á með henni. Síðan hefur hún elst svo mikið og er bara ekki Bartolileg lengur. Er orðin gráhærð, blessuð.

Þetta er frekar slæmt, því eins og allir vita, þá er allt gamalt handónýtt. Sjáið bara handritin, – orðin svo sótsvört og grómtekin að það er ekki einu sinni hægt að lesa þetta helvíti! Þetta á bara heima á haugunum.

Síðan sá ég Ingibjörgu Haraldsdóttur koma út úr 10–11 með innkaupapoka FULLAN af nauðsynjavörum. Þetta er tvímælalaust merkasti dagurinn í lífi mínu.
Halló, Margrét.

mánudagur, febrúar 17, 2003

Þjóðarbókhlaðan
er skemmtilegur staður. Þar sá ég meðal annarra Ingu Láru Baldvinsdóttur og Arnbjörn Jóhannesson. Þó ekki saman. Tíhí.

sunnudagur, febrúar 16, 2003

Týbingur hittir vel á vondan þegar hann hyggst troða illsakir við mig í formi ritdeilu. Námsefnið er ekki að gera sig þessa dagana og þess vegna tek ég því fegins hendi að mega munnhöggvast við svo ágætan fýr.

Ég tek athugasemdum hans um að ég kunni að liggja óvígur eftir þessa „árás“ hans með léttum hug, enda alls óhræddur í þessu einvígi, verandi fagurbrynhosaður, prússneskur greifi með gljáfægða pistólu og eðalborið nafn, von Stein, í baráttu við einhvern pólskan almúgamann að nafni Petrowitsch, tötraklæddan með heygaffal. Ég tel drengskap minn óflekkaðan í þessu máli þar sem það var almúgamaður Petrowitsch sem dirfðist að sletta drullu á gullspengdan vagn minn, en ég af mildi minni gef honum færi á mér í einvígi til að hann gangi ekki æðrulaus misindismaður frá huglausu drullukastinu, heldur falli hann með einhvern snefil af reisn í svörðinn, deyjandi á hólminum.

Almúgamaður Petrowitsch uppástendur að tónlistarsafn hans sé „heilbrigðara áhlustunar“ en mitt, hvað sem það þýðir, og hefur uppi fjálglegar yfirlýsingar um hversu sérhæfður tónlistarsmekkur minn sé. Heldur þykir mér almúgamaður Petrowitsch taka djúpt í árinni þegar hann gefur í skyn að mesta stund leggi ég á marsatónlist og þjóðsöngva, þótt einhvern tíma hafi ég sagst hafa af slíku nokkurt gaman. Ég veit ekki betur en safn mitt innihaldi allt frá mestu miðaldapólýfóníu til algjörrar framúrstefnu og margt þar á milli. Almúgamaður Petrowitsch telur sig þess umkominn að lýsa sig þroskaðri hvað varðar klassískan tónlistarsmekk, og verður helst séð að hann telji það felast í fjölbreyttum smekk og umburðarlyndi. Gumar hann því af hugtakinu „lítil sérhæfing“ og telur þroskamerki.

Hér geigar þó heygaffall almúgamanns Petrowitsch allsvakalega, og kemur lagið þar sem hann síst varði; í eigin gump.

Ógurlegt umburðarlyndi almúgamanns Petrowitsch nær nefnilega ekki til að minnsta kosti einnar tónlistarstefnu, barokks. Í upphafi færslunnar gerist almúgamaður Petrowitsch svo vinsamlegur að sveipa hulunni af skefjalausum fordómum sínum og sýna hvern mann hann hefur að geyma. Almúgamaður Petrowitsch veltist um af hlátri yfir barokkáhuga annarra og telur slíka menn sitja sér skör neðar. Í raun er röksemdafærsla hans um guðhelgan þroska því fallin um sjálfa sig, vegna þess að almúgamaður Petrowitsch getur ekki unað öðrum mönnum þess að gerast áhugasamir um annað en yndi hans sjálfs; pólska alþýðutónlist. Þroski hans nær ekki lengra en það.

Almúgamaður Petrowitsch telur þroska fólginn í því að hlusta á sams konar tónlist og hann gerir sjálfur. Ekki sér hann út fyrir þann sjóndeildarhring sem hann hefur markað sér og hlær í sjálfumgleði að þeim sem utan hans standa. Almúgamaður Petrowitsch gengur þess dulinn að „de gustibus non est disputandum“, en ekki svo sem við hann að sakast, enda firrtur þeim eðlu fræðum sem slíkt boða, borinn og barnfæddur í margskiptu landi og hrjáðu.

Ég tel mig umburðarlyndan nokkuð gagnvart flestum tónlistarstefnum. Ég þykist hafa myndað mér víðan smekk, sérstaklega síðastliðin misseri, með því að gefa ýmiss konar tónlist gaum. Ekki ætla ég mér þá dul að halda að sérstök áhugasvið mín liggi æðra en áhugasvið annarra, nema stöku sinnum í grínaktugum og alvörulausum ummælum. Almúgamanni Petrowitsch er þó full alvara þegar hann reynir að níða skóinn af þeim sem interessera sig fyrir einhverju öðru en hann.

Gef ég því lítið fyrir „þroska“ almúgamanns Petrowitsch.
GB

Jahá.

Árshátíðirnar þrjár

Þær eru víst orðnar þrjár, blessaðar, og maður farinn að hafa af þeim nokkurt gaman. Ekki skil ég af hverju. Og þó.

Fyrst var það Austur-Indíafjelagið. Þangað datt mér í hug að fara í brúnum kakífötum með veiðihatt og riffil talandi valdsmannslega hollensku, – bara svona til að sjá hvernig staðarhaldarar brygðust við. Til þess kom þó ekki.

Pros tën Nannan síðan. Of grön skýra og allt það. Pedro nokkur skyldi í þeim stað greiða mér 5000 kr. íslenskar fyrir að hafa fundið orðsifjafræði orðsins 'dildo' í virðulegri, enskri orðabók. Þegar ég ætlaði að heimta þessar krónur kom í ljós að það var Gunnlaugur sem gefið hafði þetta loforð og var hann hvergi að finna.

Breiðvangur síðan alltaf skemmtilegur. Það ætti að nefna þennan stað Fallandaforað.

Eurovision

Alveg er mér lífsins ómögulegt að skilja þá menn sem amast við framburðinum 'júróvisjón' og mæla með þeim veðbjóði 'evróvisjón'. Bíðum nú við. Hvers vegna að íslenska fyrri hlutann en sleppa þeim seinni og samt þykjast voða þjóðlegur? Ef menn eru of snobbaðir til að nota enskan udtale þá er alveg hægt að fara aðeins í suðaustur og segja frekar 'ojróvizjón'. Eða bara Melodi Grand Prix eins og Bauninn nefnir þetta af stakri snilld. Og slettir frönsku.

Já, héðan í frá ætla ég að segja Eurovision en ekki Eurovision.

Ég horfði sem sagt á hátíðarhöldin á RÚV eins og margur annar og hafði gaman af. Sérstaklega hló ég mikið að aumum færeyskutilburðum stjórnenda, en væntanlega ekki jafnmikið og gervöll Þórshöfn. RÚVarar skiluðu þó sínu og klúðruðu fjölmörgum atriðum í útsendingunni eins og þeirra er von og vísa.

Stjórnendur hljóta þó að fá mikið hrós fyrir að segja Ævör Pálsdóttir og þar með uppreisn æru.

Að lögunum fluttum tók ég þá ákvörðun að gerast plebbi og kjósa lag. Eða jafnvel lög. Á endanum var ég kominn niður í þrjá flytjendur: Botnleðju, Ragnheiði Gröndal og Birgittuna. Þá mundi ég eftir Eurovisionþættinum þar sem hinn últraheimski og fávíski trommari hljómsveitarinnar Botnleðju mælti eftirfarandi orð:

„Skiluru, érað segjaðér ða! ÖLLUM hljómsveitum langar að fara í Eurovision. ÖLLUM!“

Síðan mundi ég eftir hinu 30.000 orða mótmælabréfi sem ég hafði skrifað RÚV þar sem ég velti upp þeirri spurningu hvert stofnunin stefndi fyrst hún hleypti svona skít í loftið. Mér er spurn: Ætlar Ríkisútvarpið næst að gera út her manns til að hrækja framan í alla greiðendur afnotagjalda? Mér fyndist einboðið að gera það fyrst menn eru komnir út á þá braut að vera sama þegar skitið er á sjónvarpsáhorfendur.

Ég ákvað því að greiða minni mætu gagnfræðaskólasystur Ragnheiði Gröndal atkvæði mitt, en einnig Birgittu Haukdal þar sem hún er sæt.

sunnudagur, febrúar 09, 2003

Sunnudagur

Af einhverjum ástæðum hefur aldrei verið hægt að gera neitt á sunnudögum. Hvers vegna skyldi það vera? Vikan fram undan lofar þó góðu.

Og verum þess ætíð minnug að:

„[W]as deutsch und echt, wüßt' keiner mehr,
lebt's nicht in deutscher Meister Ehr.
Drum sag' ich Euch: ehrt Eure deutschen Meister!“

laugardagur, febrúar 08, 2003

Kaffið

Það mun hafa verið sumarið 2000 sem bloggari komst í kynni við BWV 211, eða „Kaffikantötuna“ svokölluðu eftir fimmta evangelistann. Það var í Bachprógramminu sem Ríkisútvarpið ákvað að helga heilan dag, dánardægur maestrosins 28. júlí, og hafi sú stofnun, kúltúrpílári samfélags vors, fyrir bljúga þökk að eilífu.

Reyndar réðst bloggari í það verk að taka alla dagskrána, tæpan sólarhring, upp á nokkrar fjögurra tíma myndbandsspólur og uppskar þess vegna hrossahlátur frá þeim er síst skyldi.

Kaffikantatan er stuttur leikþáttur þar sem óðamála faðir reynir að sannfæra dóttur sína um að láta af kaffidrykkju. Fyrr á tíð þótti kaffið nefnilega glepjandi drykkur sem tafði fólk á kaffihúsum og leiddi til hóglífis. Nema hvað, stúlkan neitar að láta af þessum ósið og telur fjálglega upp unaðssemdir kaffisins. Faðirinn hótar henni þá því að gefa hana aldrei í hjónaband. Hún lofar þá að láta kaffi aldrei aftur inn fyrir sínar varir, en strengir þess heit á laun að giftast engum nema hann setji það í brullaupssáttmálann að hún megi drekka kaffi hvenær sem hana lystir!

Kantötunni lýkur síðan á kór þar sem kaffiávana kvenna (!) er lýst og spurt hvort hægt sé að áfellast dæturnar fyrst slík drykkja sé fyrir þeim höfð.

Bloggari hefur af og til verið að raula þennan kór síðastliðin ár en rakst fyrir tilviljun á upptöku af kantötunni með Barböru Bonney og Gustav Leonhardt. Nú syngur hann kórinn hástöfum og hefur gaman af, enda laglínan ljúf og skemmtileg.

„Die Katze läßt das Mausen nicht, / Die Jungfern bleiben Coffeeschwestern,“ segir í upphafi kórsins; „kötturinn hættir ekki að veiða mýs, á sama hátt geta piparjónkurnar ekki hætt að hittast yfir kaffi“. Hvörju orði sannara.

Annars hefur bloggari aldrei skilið kaffidrykkju, eins viðbjóðslegur vökvi og þetta er. Frekar langar hann að smjatta á öskubakka en sötra einn bolla af þessu stoffi.

En Bach stendur fyrir sínu.

föstudagur, febrúar 07, 2003

Helgin.is ...
... færir spé að meistara Ingólfssyni á síðu sinni, og tilfærir þar hnyttni sem gekk manna meðal í fjórða bekk sje haustið 2001. Þykir mér það ósnoturt í meira lagi.

Kairos esti ponein

Þá er kominn tími til að rífa sig upp úr lægðinni, koma hlutum í verk og líta ekki um öxl. Og eigi víkja!

fimmtudagur, febrúar 06, 2003

Pési og málfræðilegi rökstuðningurinn

Áðan (eða 'á áðan', eins og Stefán Pálsson ritar jafnan; gaman væri að fá málfræðilegan rökstuðning hans fyrir þessari eksentrisíu) rak á fjörur mínar pésinn Vikulega í Firðinum.

Lesendur mega giska einu sinni hvað vakti mestan áhuga minn í því riti.
Bylting?

Sem ég sat í tölvustofunni í morgun sá ég hvar Jóhann Alfreð Kristinsson var að fylla út eyðublað þar sem Einar Örn Gíslason var titlaður 'útvarpsstjóri'. Taldi ég að um byltingu væri að ræða og Gerður G. Bjarklind hefði verið gerð höfðinu styttri og musterið við Efstaleiti stæði í ljósum logum. Svo reyndist ekki vera því að þeir kumpánar voru einungis að sækja um það til útvarpsréttarnefndar að reka árshátíðarútvarp Framtíðarinnar.

Hjúkkett, segi ég nú bara.
Grazie

Ráðin hefir verið bót á vanda þessum. Þakka þér fyrir, Snæbjörn Guðmundsson.
Próblem

Það er nú ekki einleikið með þennan Blogger. Hvers vegna í ósköpunum birtast færslur sem ég skrifa á morgnana ekki fyrr en seint og um síðir, en síðdegisfærslur samstundis? Bloggdróttinn er oss ekki hliðhollr.
Spurning ...
... hvort maður á ekki að skella kommentakerfi og svona upp.

Jæja ...
... best að skunda til þýðverskukennslustundar, enda stórátök fyrir dyrum á þeim vettvangi.

miðvikudagur, febrúar 05, 2003

Bannfæring I

Í rökréttu framhaldi af síðustu færslu og að beiðni Vatíkansins hef ég tekið að mér bannfæringar páfastóls norðan Alpafjalla. Best að byrja bara á byrjuninni (þessi ofstuðlun þjónar listrænum tilgangi):

Hér með bannfæri ég stærðfræði ásamt með prófum. Megi eignir Sigríðar Jóhannsdóttur hálfar undir kirkju og hálfar til erfingja falla.
Hugmynd

Ég hefi tekið eftir því að tvær þeirra þriggja fyrirsagna sem ég hefi ritað á síðu þessa eru á latínu. Er það fyrirboði um eitthvað, gæti einhver spurt. Því er til að svara að það er aldrei að vita hvort þetta verði ritað á a) latínu, b) tokkarísku eða c) persnesku með tíð og tíma.

Ég skil þó ekki aðra framhaldsskóla sem eru að myndast við að kenna latínu. Ég hélt að allir vissu að sú kennsla ætti einungis heima í einum skóla á Íslandi (ókei, kannski tveimur en það er nú ekki útséð með þann seinni).

Þetta verður meðal þess fyrsta sem ég geri þegar ég næ guðlegu valdi á öllum hlutum; að úthýsa raungreinum úr Menntaskólanum í Reykjavík og banna kennslu í þeim fögum allt til heimsslita, endurnefna skólann Latínuskólann, taka upp námskrána (eða reglugerðina, öllu heldur) frá 1850 og banna öðrum menntastofnunum í landinu kennslu í þeim eðlu classicis.

Yrði þetta ekki vinsælt?
Mors tempestatis causa

Miðvikudagur; vikan hálfnuð. Viðbjóðslegt veður eins og jafnan á þessu landi og þess vegna þeygi gott að ferðast úr Bessastaðahreppi til annarra sveitarfélaga.

Á dögum sem þessum verður manni ljóst mikilvægi þess að stofna íslenska akademíu einhvers staðar á Ítalíu, helst í Campaniu, og flytja lærdómsstarfsemi þangað. Ó, það væri gaman.

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Fatalt athæfi

Í gær gerði ónefndur aðili athugasemdir við framburð bloggara þegar hann af innlifun hafði yfir texta á framandi tungumáli. Sá hinn sami gerði sér ekki grein fyrir því að dauðlegir menn setja ekki út á framburð bloggara.

laugardagur, febrúar 01, 2003

Doctor philosophiae

Bloggari var að koma heim af æsispennandi fræðaviðureign sem átti sér stað í hátíðarsal Háskólans. Þar öttu kappi Ármann Jakobsson annars vegar og Sverrir Tómasson og Bergljót Kristjánsdóttir hins vegar. Referee var Anna Agnarsdóttir, deildarforseti heimspekideildar.

Bloggari hafði einkum þær áhyggjur er hann tölti til viðureignarinnar að hann mætti allt of snemma og yrði þar af leiðandi stillt upp við vegg; þar yrði hann að athlægi viðstaddra, verandi ungur að árum og svo sannarlega yngri en tvævetur í fræðunum. Til þess kom þó ekki þar sem nokkur slæðingur af fólki var mættur.

Bloggari hafði einnig haft af því áhyggjur að ná vondu sæti en hann minnti að hljóðburður í salnum væri ekki upp á marga fiska. Það reyndist hins vegar vitleysa þegar til kastanna kom því að salurinn var útbúinn hinum bestu hátölurum.

Þarna voru kempur á borð við Jónas Kristjánsson, Ásdísi Egilsdóttur, Gísla Sigurðsson, Helga Skúla Kjartansson, Braga Halldórsson (íslenskukennara og ljúfmenni með meiru) og Harald Bernharðsson (Wernerslögmálsmann). Þarna var einnig mættur Andri Snær Magnason sem kleip mikið í kinnar sér og ruggaði fram og aftur lungann úr athöfninni.

Skítakuldi var úti og snjókoma en það kom ekki að sök, — ólíkt því sem gerðist frostaveturinn mikla þegar 5. bekk í Menntaskólanum í Reykjavík var sagt að hypja sig heim og koma aftur að ári þar sem landsstjórnin tímdi ekki að kaupa eldivið handa honum!

Hófst nú athöfnin á slaginu 14:00. Inn gengu deildarforseti og háskólarektor, doktorsefni og andmælendur, eða „doktorsefni og föruneyti hans“, eins og deildarforseti komst svo skemmtilega að orði síðar og uppskar hlátur. (Sagði einhver „hringsins“?) Deildarforseti og andmælendur klæddust blásvörtum skikkjum en háskólarektor og doktorsefni borgaralegum fötum. Hefðu hinir skikkjuðu að ósekju mátt skarta drifhvítum hárkollum og sokkabuxum, en það er aðeins afturhaldsskoðun bloggara.

Settist nú föruneytið við pódíumið í salnum og var Sverri Tómassyni boðið að hefja mál sitt. Hann hóf að leggja út af orðinu „hugsunaraugu“ í einni málfræðiritgerðinni í Ormsbók, en hætti því fljótlega og fór að tiltaka prentvillur og telja upp uppáhaldsbækurnar sínar sem honum fannst gengið fram hjá í ritgerðinni. Þá setti hann út á það að sín væri að engu getið í verkinu þótt til hans væri vitnað og talaði um „sjálfsagða kurteisi“.

Illur hugur hans risti þó grunnt og eftir langa ræðu, hverrar efnisatriði ég hefði átt að glósa (fjandinn sjálfur! já, ég er nörd) hrósaði hann ritgerðinni og kallaði brautryðjendaverk. Ármann sté þá á stokk og fór mjög almennum orðum um athugasemdir andmælanda. Þar sem Sverrir dró heildarniðurstöður ritgerðarinnar síður en svo í efa og hafði eiginlega einungis tjáð sig um allt annað en veigamikil efnisatriði var varla um neina vörn að ræða af hálfu Ármanns. Ég hafði nú satt að segja búist við meiri illgirni og orðaskaki á borð við: „Þú ert ömurlegur fræðimaður!“ — „Nei, ÞÚ ert stétt vorri til skammar!“ — „Haltu kjafti, allt hugmyndakerfi þitt er meingallað!“ Því var ekki að heilsa. Kannski reyna alvörufúskarar ekkert að skrifa doktorsritgerðir lengur …

Þá var gert hlé en að því loknu tók Bergljót til máls. Ræða hennar komst mun betur til skila en ræða Sverris, þar sem henni lá afar hátt rómur (ólíkt Sverri) og kvað afar fast að orði (ólíkt Sverri). Hún var þó með kvef og gerði óspart gys að því þegar hún þurfti að snýta sér í tíma og ótíma. (Líkamsvessahúmor finnst þá líka í háskólafólki!) Hún gerði engar alvarlegar athugasemdir við ritgerðina og vitnaði að lokum í Hreiðars þátt heimska þegar hún fór svofelldum orðum um verkið: „Allvel, allvel.“

Eftir að Ármann hafði farið almennum orðum um „andmæli“ hennar, yfirgaf föruneytið salinn og skildi doktorsefni eftir við pódíumið. Föruneytið sneri fljótt aftur með prófbók heimspekideildar og doktorsbréf Ármanns. Deildarforseti lýsti þá doktorskjöri þar sem það væri samdóma álit doktorsnefndar og þar sem enginn hefði með tilskildum fyrirvara óskað þess að andmæla „ex auditorio“. (!!!) Var þá athöfn slitið um kl. 16:45.

Ekki vissi ég að það væri hægt að sækja um að andmæla „ex auditorio“! (Fyrir ykkur vanvitana sem eigi eruð mæltir á látínu þýðir 'ex auditorio' 'úr áheyrendasal'.) Djöfull væri það flott ef einhver gerði það! Ég ætti kannski að sækja um þetta næst þegar ritgerð verður varin við raunvísindadeild? … Ehh, nei.

Sem sagt, feitt fræðadjamm á laugardagseftirmiðdegi.