miðvikudagur, maí 31, 2006

Páfinn heldur ólifnaði í Póllandi í skefjum.

þriðjudagur, maí 30, 2006

Rúvmatur oj

Ohh. Kjötbollur í mötuneytinu. Þær hljóta að hafa fengið lifrarbólgusjúkling til að skíta í hakkið eða eitthvað. Þetta eru ekki eðlileg viðbrögð meltingarfæra við heilbrigðum mat.

mánudagur, maí 29, 2006

Framsóknarflokkurinn

Æi.

laugardagur, maí 27, 2006

Úr skjalasafninu

„Ríkisútvarpið, Skúlagötu 4. Ágúst 1968.

Til þula: Að ósk forseta Íslands skal titla hann svo í fréttum eða annarri frásögn: Dr. Kristján Eldjárn, forseti Íslands (ekki herra K.E.), og nafn konu hans er Halldóra Eldjárn (ekki Halldóra Ingólfsdóttir).“

Ég hef oft velt því fyrir mér hversu mjög menn vilja flíka lærdómstitlum. Því nú er Ólafur Ragnar Grímsson doktor.

fimmtudagur, maí 25, 2006

Pólverjar eru mér að skapi. Þeir vita hvernig maður á að haga sér þegar svo ber undir.
Viltu finna milljón? í Borgarleikhúsinu

Það er æðimargt hægt að segja um þessa ömurlegu sýningu.

***

Til dæmis: „Ekki sjá þessa sýningu.“

***

Annað væri: „#%#&/()#!$ peningarnir mínir sem ég #%/&"#$& í þessa "$#&//$%$"#" sýningu, með svona =/)%$#"!"#%&.“

***

Er einhver, sem gæti sótzt eftir skemmtun á borð við þá, sem hér var boðið upp á? Sér Leikfélag Reykjavíkur sér hag í því, að bera slíkt á borð?

mánudagur, maí 22, 2006

Rannsókn

Tuttugu og sex klukkutímum eftir að maður bryður ferskt hvítlauksrif finnst bragðið ennþá nema það er úldið og alltumlykjandi.

laugardagur, maí 20, 2006

Carola og Fenrisúlfur

Af hverju sveiflar þessi kona kjálkanum svona þegar hún syngur?

föstudagur, maí 19, 2006

Vitleysa

Af hverju að hafa óraddað edl í orðinu máltíð?
Hier wo mein Wähnen Frieden fand; Wahnfried sei dieses Haus von mir benannt

Háborg þýskrar menningar getur ekki heitið [bei-rúþ]. Hún verður að heita [baí-rojt].

Þessu er sérstaklega beint til íþróttafréttamanna við ríkisstofnun hér í bæ.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Evrósöngvó

Ég er á bömmer. Pizzan, kókið og snakkið sem við útveguðum var greinilega allt til einskis. En svona í alvöru talað, þá klúðraði Ágústa þessu frekar mikið. Hún var svo andstutt að hún gat ekki sungið. Og svo hefur þetta fokkjú-dót ábyggilega ekki hjálpað til. Allir Sigmarar-Guðmundssynir hinna landanna hafa rakkað hana niður í Kastljósunum sínum. Mér finnst Silvía Nótt ekki lengur fyndin. Hún brást mér.
Carrie Bradshaw

„Are we women so [lýsingarorð] about [nafnorð] that it keeps us from [sagnorð]? Is [nafnorð X] becoming [nafnorð Y (stuðlar/rímar/pönnar við X)] after all?“

Repetitur ad infinitum. Guði sé lof að þetta helvíti er búið. En hvernig á maður núna að forheimskast um ellefuleytið fyrri hluta viku?
Ég kann ekki við þetta orðalag

Af hverju að „setja fram“ kenningu? Af hverju er þetta bundið við þennan eina verknað? Það setur enginn neitt fram nema kenningar. „Ég setti fram mjólkurfernuna.“ „Ég setti fram brandarann.“ „Haha Atli settu fram brandara.“ Óviðfelldið orðalag einhvern veginn. „Seeeeeeeetja fram kenningu.“ Slepjulegt. Tilgerðarlegt eins og í heimskulegri og andlausri bókmenntafræðiritgerð eftir vitleysing sem finnst „setja eitthvað fram“ gáfulegasta orðaruna í heimi.

sunnudagur, maí 14, 2006

Afturför/framför

Svo mikið er nú bráðið af klakabrynju snobbs míns síðan í fimmta bekk að ég tel mig tilbúinn að lesa Áhyggjudúkkur eftir Steinar Braga.

laugardagur, maí 13, 2006

Beauty and the Geek

Ég held ekki með Chuck og yfirlætisfíflalátum hans. Ég held með Richard, sem lítur út, hegðar sér og talar eins og sonur Woody Allens.
Vorboðinn ljúfi

Hugtakið „íslenski hópurinn“.

föstudagur, maí 12, 2006

Af hverju eru allir að rífa kjaft við mig í dag?

miðvikudagur, maí 10, 2006

Orlofsgreiðslur geta af sér innkaupalista

Villtir og trylltir Sennheiser-heddfónar.

Miði á Garrison Keillor í Þjóðleikhúsinu (ég heyrði óendanlega fyndinn skets úr útvarpsþættinum hans þar sem verið var að skeggræða evrópska hámenningu með norrænum Minnesota-hreim ("mmhmmm sure ja")).

Miði á I Fagiolini-masterclass í endurreisnar/barokk-söng.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Færslan sem dó

Stelpan við hliðina á mér fór á klósettið. Þess vegna ætlaði ég að kíkja á pappírana hennar og blogga eitthvað í líkingu við: „Híhíhíhíhíhíhí stelpan við hliðina á mér er að lesa [skrifa það sem stendur á blaðinu].“

Svo sá ég að fyrirsögnin á blaðinu var Impression management (áhrifastjórnun) og færslan dó í fæðingu vegna leiðinleika.

Fokk hún var að koma aftur sjitt vandræðalegt hjartsláttur ég verð að setja alla glugga niður fljótt windowstakki m windowstakki m

mánudagur, maí 08, 2006

Að taka próf sem maður er tilbúinn að taka, Eða: Gleymdar minningar

04:59. Vakna við BBC World Service í útvarpinu.
05:00. Sofna.
06:05. Vakna. Ráfa fram í eldhús.
06:23. Frumlestur undir próf hefst.
08:51. Fer fram að lesa blöðin með góðri samvisku. Djöfull gengur mér eitthvað vel.
09:16. Byrja aftur að læra.
09:54. Steiki mér egg á pönnu. Næ í hjólið mitt niður í geymslu og pumpa í það vegna þess að einhvern tíma ætla ég að verða ekki-feitur.
10:35. Held áfram að læra. Fæ prófahugljómunina. Hún felst í því að allt í einu uppljúkast aðalatriði og maður getur sagt nánast óskeikullega fyrir um úr hverju verður prófað og hvernig. Til samanburðar má geta þess að ég fékk sömu hugljómun fyrir samræmdu prófin 2000 í október árið 1999. En fyrir stúdentspróf í grísku 2004 hálftíma áður á Íþöku, vinstra megin í salnum.
10:36. Eflist mjög.
10:37. Glósa og glósa og glósa og glósa glósurnar aftur í samræmi við hugljómunina.
12:20. Hádegisfréttir hefjast í Ríkisútvarpinu. Lokahönd lögð á smæstu smáatriði í samræmi við hugljómun. Fiðrildi blakar vængjum í Peking.
13:01. Mér er tjáð af prófstjóra í KR-heimilinu að ég sé á vitlausum stað. Ekkert mál, Deutschland er parkerað fyrir utan með fullan tank.
13:30. Próf hefst í VR II, af öllum stöðum.
16:30. Rúst. Rústrústrúst.

sunnudagur, maí 07, 2006

Fransmaður leggur spurningu fyrir AFS í partíi í gær

„Why do you ave zisss perfect French accent?“

Heitið á sjálfsævisögunni komið upp í hendurnar á mér.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Jess æm a gradjúeit off ðe Júnivörsití off Æsland

Ein af ástæðum þess að ég get ekki lært í Odda er sú að ég þoli ekki þann mannlega harmleik sem hrúgað er í kringum mig af vitgrönnum samnemendum mínum.

Einn slíkur harmleikur var leikinn fyrir stundu. Þar sátu fjórir viðskiptafræðinemar og voru að tala saman. „Hahahahahahahaha (svínshrotur) þetta er ekki beinlínis flamable (svínshrotur) hahahahahaha.“

Það sem þessi ljóshærði mannskítur vissi ekki er að enska orðið um viðkvæman eldsmat er flammable. Það sem hann vissi ekki er að ensk tökuorð komu sum hver í tveimur hollum: fyrst í miðensku úr frönsku (flaumbe > flame) og síðan í nýensku úr latínu (flammabilis > flammable). Það sem viðskiptafræðihóran fattaði ekki var að hann átti að segja [flammabúl] en ekki [fleimabúl], enda blandaði hann eldri mynd við yngri mynd.

Þetta er ástæða þess að ég læri heima með eyrnatappa þó skítugir séu. Þetta er fólkið sem ræðst til starfa í Fjármálaeftirlitinu og verður landinu til skammar því það er daufdumbt á alþjóðavettvangi. Háskóli Íslands besti háskóli í heimi lalalalala aaaaaa a a a soslsllwsosllwosls baaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaah.
Konformismus?

Eyrnatapparnir sem ég nota við lesturinn eru orðnir viðbjóðslega skítugir. Og lykta illa. Þeir eru úr gulu frauði sem kemst samanþjappað inn en tútnar út.

Í prófi um daginn sá ég skynsaman lögfræðinema á skjön við samfélagið sem mætti með stóreflis traktorsheyrnarhlífar og leysti prófið í friði og spekt. Ég hugsaði alvarlega um það í nokkrar sekúndur að kaupa mér svoleiðis en svo uppgötvaði ég að það væri ekki hægt vegna þess að ég vildi ekki stinga í stúf. Ég vil svo mikið vera eins og allir hinir.
Tölvustofan í Odda

Það er kvefdólgur hér inni sem sýgur horslummur upp í nef sitt. VÍK BROTT SATAN! Þú smitar mig ekki og sviptir mig rödd minni! SATAN! VÍK BROTT!
Greiðslumat

Er ég í greiðslumati? Já. Stóðst ég greiðslumatið? Já. Finnst mér afkáralegt að vera í greiðslumati? Já. Er hægt að snæða greiðslumat? Nei. Les ég núorðið viðskiptablað Morgunblaðsins? Já. Veit ég hvert eiginfjár Landsbankans er? Já. Veit ég að samanlagt eiga bankastjórar KB-banka 8,7 milljarða virði af hlutabréfum í bankanum? Já. Öfunda ég þá af því? Já. Veit ég hvernig þeir öfluðu sér þessa penings? Nei.

Verður margur af aurum api?

Já.

mánudagur, maí 01, 2006

Að vera blindur á smekk

Hið íslenzka Biblíufélag: „Rís þú og et!“

Nýja Biblíuþýðingin: „Stattu upp og fáðu þér að borða!“