miðvikudagur, janúar 28, 2004

DV

Hvað sem annars má segja um DV, þá mega þeir eiga það að málfarshornið þeirra (sem er alltaf á áberandi stað á síðu 2) er ótrúlega skemmtilegt. Hrokafullt og hvefsið í garð málsóða. Gott mál.

Eitthvað annað en Íslenskt mál í Mogganum sem er ekki svipur hjá sjón eftir fráfall Gísla Jónssonar. Jón G. Friðjónsson færir lesendum sínum ritgerðir sem eru sjaldan annað en hornklofar, stjörnumerkingar, skáletranir, einfaldar gæsalappir og afleiðslutákn. Sem er allt saman mikilvægt og góðra gjalda vert ... í fræðiritum. Ekki lesendavænum greinum í dagblaði.

Greinarnar hans Gísla voru góðar. Þær voru litteratúr.


Meira um málvöndun

Áðan notaði ég lýsingarorðið 'hardkor' um Íslendingasagnaútgáfur Fornritafélagsins. Það var gaman.


Punkturinn

Menningarleg endurreisn Norðurlanda er hafin.

sunnudagur, janúar 25, 2004

Hafnfirskt responsibílítet eður Um traustsins náttúru

Sem ég stóð á þeim stað Nonnabita mitt á milli óttu og rismála í nótt sem leið var það mál manna (eins og því miður reynist alltof oft á skemmtilegum stundum) að hver ætti að tygja sig til sinna heimkynna. Áður en mér gafst nokkurt tóm til að hugleiða það hvernig ég kæmist heim, — en eftir á að hyggja held ég að ég hefði blætt í leigubifreið í stað þess að verða úti á Austurvelli, nú eða uppi í tré í Suðurgötukirkjugarði — þá gekk þar fram maður góðs vilja: víkingur, glæfrapiltur (enda kom síðar í ljós að þýsk áræðnin átti sér þá skýringu að hetja okkar, mér liggur við að segja ofurhugi, kom úr því fræga Hansakaupmanna- og Fjörukrárvígi Hafnarfirði).

Hann, í vel formaðri og skýrt framkveðinni málsgrein, bauð mér far út í ystu myrkur Bessastaðavaldsins á Álftanesi á vélfáki sínum. Mig setti hljóðan. Þögn mín, lesandi góður, átti sér þá skýringu að fyrr um kvöldið hafði ég setið að sumbli með téðum fullhuga við sjóbarin klettbjörg annars staðar í höfuðstaðnum. Ég í fákænsku minni (og kannski vantrú á mannskepnuna) hafnaði boði Hansakaupmannsins nær samstundis með slíkum ofsa að osturinn á grillinu hætti að bráðna og skinkan súrnaði í öllum skúmaskotum steikarstaðarins. Við stutta umhugsun hafði slík heift gagnvart tilboði Hvammverjans grafið um sig í huga mínum að ég taldi hann best geymdan kommitteraðan á institúsjón. Taldi hann sig þess umkominn að stjórna vélfáki og setja líf sitt og annars að veði? Hann hélt því fram og hvikaði eigi.

Nema hvað, kæri lesandi, hópurinn skundaði út af vertshúsinu og fram hjá rauða kotinu sem eitt sínn var kennt við Vídalín (nótabene Geir Vídalin biskup góða, fróðleiksfúsi vinur, því að þangað inn steig Jón Vídalín aldrei fæti svo að mér sé kunnugt (eins og margir virðast halda (brjóstmynd þess manns er reyndar steypt í eir við Dómkirkjuna (en það er önnur saga og lengri)))). Föruneytið tvístraðist þegar óratór Jóhann gekk á brott og enn frekar þegar questionnær Helgi og maddama Þorbjörg héldu í átt að rússneska sendiráðinu og tennisvelli kínverskra ambassadöra, en úlpu Þorbjargar hafði ég rifið í tætlur fyrr um kvöldið í hjálpræðisskyni, hvernig sem það má skilja. Sárt ber ég mein um sinnu rein vegna þess.

En jæja, hvert var ég kominn, þolinmóði eftirfylgjandi? Jú, þar sem ég geng með væringjanum góða upp að mínorbasílíku Krists konungs í póstnúmeri sem ég man ekki í svipinn hvert er. Nú voru góð ráð dýr því að allt leit út fyrir að mér væri búið sæti í vélfáki sótölvaðs manns sem byndi enda á líf mitt innan nokkurra mínútna með brjáluðum þeysireiðarakstri þess glóps sem kynni ekki sín takmörk sakir fabríkeraðrar ofurtrúar á eigin getu vegna staupainnbyrðingar (Thor Vilhjálmsson + ½ Einar Benediktsson = síðasta málsgrein).

Ég vona, langeygi lesari, að þér sé ekki farið að leiðast þófið, því að hér dregur til tíðinda. Svona þér að segja (ekki láta það fara lengra), þá steig ég upp í vélfák Gaflarans við sjóbörðu klettbjörgin. Ég veit ekki af hverju, hvort það var trú mín á manninn endurborin eða hugdirfska benefaktors míns sem hreif mig með sér. En upp í steig ég og spennti beltið.

En þá var, ágæti netverji, eins og sprenging ætti sér stað, því að í miklum ljósglampa spennti ekillinn góði hrúta tvo fyrir vélfákinn og sveif á braut í vagninum. Hann klauf loftið sem guð og brunaði eftir brautinni, aldrei ranga beygju takandi eða vagninum illa beitandi.

Og sem ég stend í vagninum ber fyrir okkur í fjarska hvítan bát með gylltri stjörnu sem gæti ógnað ferð okkar. Til mín barst sú hugljómun (það var eftir öðru í þessari ferð, því að hún var á engan hátt venjuleg, lesandi góður) að þar undir þiljum væru sveitir manna gráar fyrir járnum. En þá herti ökuþórinn á keyrinu og hækkaði flugið og skildi herdeildina eftir í sjávarlöðrinu sem hann þyrlaði upp.

Og áður en varði var ég lentur á ísaldarsandflákanum, heimkynnum mínum, án nokkurra skeina.

Af þessari stuttu frásögu, heiðruðu menn og konur, getum við lært að þótt efinn, ljótur sem hann er, grafi um sig í brjóstinu er hægur vandi að vísa honum þaðan, — og það sem meira er að menn skyldu aldrei bera brigður á einlæg orð góðs manns, því að ekki sést hvað leynist undir fyrr en á reynir.

föstudagur, janúar 23, 2004

Viðburður

Brotið var í blað í tónlistarsögu mannkynsins þegar okkar frábæra Sinfóníuhljómsveit lék 1812-festívalóvertúrinn í gær. Þar var lamið og sparkað í tómar, ryðgaðar olíutunnur í stað þess að hringja kirkjuklukkum í lokin. Takk, Sinfó.

Sem betur fer hafði RÚV vit á því að róa sjokkeraða útvarpshlustendur niður (ég var að minnsta kosti miður mín) með ótrúlegri upptöku The English Concert á Divertimento KV 138 eftir Wolfí og þeim trausta KV 525. Ég hef ákveðinn grun um að þetta sé sami diskurinn og sá frá Harmonia Mundi með Andrew Manze sem fylgdi því sniðuga blaði BBC Music Magazine í september síðastliðnum. Guð blessi BBC.

þriðjudagur, janúar 20, 2004

Tvö atriði hafa orðið mér til mikillar pirringar síðustu daga:

1. Í gær fékk ég mér pylsu á bensínstöðinni við Þjóðarbókhlöðuna. Hún bragðaðist eins og öskubakki, grínlaust.

2. Í tvo daga hef ég leitað dyrum og dyngjum að armbandsúrinu mínu sem ég taldi týnt. Fyrir stundarfjórðungi eður svo fann ég það undir pappírssnepli við hliðina á tölvunni minni.

Takk fyrir.

sunnudagur, janúar 04, 2004

Morgunblaðið, 4. janúar 2004, síða 45

Þetta er bara byrjunin. Heimsyfirráð eru næst á dagskrá. Við erum alls staðar.

laugardagur, janúar 03, 2004

Dorrit

Í ljósi algjörs snilldarviðtals sem birtist við Dorrit í ísraelska blaðinu Ha'arets (og það er ekki sagt 'harets', eins og Kolbeinn Sæmundsson minnir á, heldur 'ha-arets', með nokkurs konar lokun í kokinu þar sem bandstrikið er eins og þegar enskumælandi menn segja 'uh-oh') verð ég að árétta þá skoðun mína sem vísað er í hér á spássíu að Dorrit Moussaieff (eða Þuríður Shlomodóttir eins og hún hlýtur að breyta nafni sínu einhvern daginn) verði forseti Íslands.

Forseti sem talar hebresku og getur tekið völdin í beinni sjónvarpsútsendingu í þokkabót. Need I say more?