laugardagur, október 28, 2006

Margrét doctissima pulcherrima

Vafamál yfir hverju hjartsláttur eykst, Margréti eða latínuáletruninni á Kambárbryggju.
Magi

Þegar hlutfall milli krems og köku er 60/40, kreminu í hag, þá er illt í efni.

föstudagur, október 27, 2006

Blóð á torgum

Skríkjandi og eyðslublindur háaðall sem borgar lambaspörð í skatt (ef þá það) og kúguð alþýða sem stendur undir öllu saman með óendanlega óréttlátum ofursköttum.

Frakkland 1789? Nei, Ísland 2006.

miðvikudagur, október 25, 2006

Hljóðin úr næstu íbúð

Er það í náttúru slavneskra kvenna að liggja fáránlega hátt rómur? Ekki í merkingunni vólúm, heldur tíðnisvið. Og slavneskt tónfall guð minn almáttugur. Mig skortir samlíkingar. Mér dettur einna helst í hug geðbiluð prumpublaðra.

þriðjudagur, október 24, 2006

Hugmyndir mínar um starf mitt

Félagi minn Jón Hannes segir frá dásamlegum og hressandi atburði. Þetta er skemmtilegast í ljósi þess að ákveðnir persónuleikar í þularstétt stunduðu þetta á árum áður þegar þeim mislíkaði eitthvað í dagskránni. Þá slökktu þeir bara á útsendingunni, nú eða léku harmonikkutónlist ofan í hana. Þetta er siður sem þarf að endurvekja, til dæmis með viðbót við útvarpsfrumvarpið:

„Nú verður dagskrá Ríkisútvarpsins til þess að gera vakthafandi þul gramt í geði, til að mynda óæskilegar/hálfvitalegar skoðanir eða heimskandi málfar, þar með talið rangur framburður. Hefur hann þá óskorað vald til að rjúfa útsendingu með þrjátíu sekúndna ærandi ýli, svo oft sem þurfa þykir. Skal útbúinn rauður hnappur á stjórnborði þular í þessum tilgangi.“
Afturafhald leiðir til úttútnunar

Mig langar að segja svo margt. Um svo marga. Ég er að springa.

sunnudagur, október 22, 2006

Hvar?

Fór Bókmenntahátið í Reykjavík fram í haust án þess að ég yrði þess áskynja? Fór hún kannski fram í alternatífum veruleika, mér óaðgengilegum?

laugardagur, október 21, 2006

Nei

Nei, það er ekkert erfitt að nálgast Nóregs konungatal, það er prentað í fjögurra binda heildarútgáfu Sigurðar Nordals á Flateyjarbók, hver finnst í öllum bókasöfnum á höfuðborgarsvæðinu. Í mörgum eintökum.

Hugsa áður en maður talar. Rannsaka áður en maður ályktar.

föstudagur, október 20, 2006

Þrælar hefðar

Það eru allir alltaf að tala um það hvað þeir séu alltaf að læra. „Ég var að læra um daginn og blablablablabla.“ Aldrei „læri“ ég. Þetta kemur bara. Einhvern veginn.

þriðjudagur, október 17, 2006

ba bara bara bara ... babba ra bababa ba rabbara

Ég er með intróið úr Stiklum Ómars Ragnarssonar límt á heilanum. Þetta hlýtur að vera eftir Bach.

Ég ætla að skipa Angelu Hewitt að spila þetta í kvöld.

„Are you telling me you don't know the Stiklur theme song? And you call yourself a piano player?“

þriðjudagur, október 10, 2006

Ég hef nú aldrei

Vá, á ég að segja ykkur svolítið? Ég heyrði fólk tala saman í Árnagarði áðan og það var að tala saman á íslensku! Á ÍSLENSKU! Hahahaha. Allt getur nú skeð.
Maður veit aldrei hvenær kallið kemur

Kennari: „Ja, ég veit ekki, er einhver hérna inni sem kann grísku?“
Atli Freyr, styður þú kjarnorkuáætlun Norðurkóreumanna?

Stutta svarið er já.

sunnudagur, október 08, 2006

Allt varð þér að ljóði, af hverju ekki þetta?

Æ, hefur hagmælt alþýða aldrei nokkurn tíma ort stutta og laggóða minnisrímu um röð og ætt fornra Noregskonunga? sbr. Danakonungaformúluna: Kristján Y-ti = undanfarandi Friðrik X-ti + 2.

Og nei, ég nenni ekki að bera mig eftir Nóregs konungatali, 83 erinda dróttkvæði undir kviðuhætti. Sem er þar að auki erfitt að nálgast.
Corpus dissolvitur

Þegar ég sogast heill og óskiptur ofan í eitthvert viðfangsefni hætti ég stundum að taka eftir líkamanum.

fimmtudagur, október 05, 2006

Lágmarkspar

Hómófóbía : hómófónía. Snorri í Betel : Hildegard von Bingen (?)
Syntesa

Það gæti brostið á með Þorlákstíðum bráðum. A-a-a-a-a-a-a-alle-e-e-e-e-e-e-e-lu-u-u-u-u-u-u-u-u-ia-a-a-a-a-a-a-a-a-a-aaaaaaaaaaaaaaaaaaa.
Antitesa

Það er handritalestur ekki heldur.
Tesa

Nótnalestur er ekkert mál.

þriðjudagur, október 03, 2006

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum

Jæja, nú fer spennan sko aldeilis að magnast um það hvaða gjörsamlega óþekkti og fullkomlega óáhugaverði, leiðinlegi og irrelevant rithöfundur hlýtur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í ár.
Enn é e bara tvýtugur

Borið hefur á umræðum um fordóma gagnvart ungu fólki í ábyrgðarstöðum. Ég er sjálfur vel settur hvað þetta varðar því útvarpshlustendur virðast almennt halda að ég sé ekki undir sextugu. Sem er gott mál.

sunnudagur, október 01, 2006

Loksins skil ég þetta, loksins

Það hefur komið fyrir margsinnis undanfarnar vikur að ég hef vaknað með einhvern stórasannleik í höfðinu. Á mörkum draumtíma og rauntíma finnst mér eins og ég hafi skilið eða uppgötvað eitthvað hulið.

Við skulum taka dæmi. Vekjaraklukkan hringir og ég kem hægt og rólega upp úr djúpinu en með þá bjargföstu vitneskju að allt verði bráðum ókeypis. Þá hugsa ég sem svo, og finn til gríðarmikils léttis, ég er oft æstur og glaður: „Mikið er gott að ég vaknaði rétt fyrir klukkan sjö. Mikið er ég rosalega ánægður með að hafa vaknað einmitt núna rétt fyrir sjö, því klukkan sjö verður allt ókeypis. Það verður allt ókeypis. Bráðum verður allt ókeypis.“

Svo rís ég upp og nudda augun, og á leiðinni fram í eldhús gleymi ég þessu smám saman. Þegar lýsisskeiðin er full er ég yfirleitt búinn að steingleyma uppgötvuninni sem mér þótti þó firnamerkileg þegar ég vaknaði þremur mínútum áður. En ég man bara að uppgötvunin var merkileg. Og líka sérstaklega mikilvæg.

Ég veit eiginlega ekki hvað svona lagað á að þýða.
Og hann mælti: „Drottinn, leystu mig undan oki menntunar minnar“

„Meginmarkmið námskeiðsins er að fá verðandi kennara til að átta sig á því flókna áhrifasamhengi sem reynt er að gera sýnilegt sem almennt ráðstafanlegu með því að koma reglu á og tjá skipulega þau samhangandi þýðingarfullu atriði sem hugtakið "menntapólitík" felur í sér.

Það samhengi hlutanna sem hér er lagt til grundvallar má nefna "áhrifasamhengi mannfélagslegrar uppeldisviðleitni", sem er hugsað sem það tímabundna og lifandi fyrirkomulag áhrifa, sem virðast ráðstafa eða beina þróun einstaklinga inn á ákveðna braut "mannfélagsmyndunar", þegar þeir læra sögulega afstætt að gera sér grein fyrir og ná tökum á þýðingarfullum atriðum lífsbjargar-fyllingar "fullvalda mannfélagsaðila".

Almennt beinist athygli okkar að "viðleitni mannfélags til að setja og marka uppeldisviðleitni sinni sérstakt keppimark". Í huga margra er "skóli" árangur slíkrar sameinaðrar viðleitni. Öðrum er ljóst að "skólaformið" og "skólavæðingin" er engan veginn afrakstur "beinnar" sameiningar um "mannfélagslegt uppeldisfyrirkomulag", heldur er nær sanni að segja, að það mótist "að ofan" sem mótsagnakennd málamiðlun undir forræði "ríkis" sem tímabundins handhafa pólitískrar samhæfingarviðleitni í nokkuð sundurleitu "mannfélagi".

Efni námskeiðsins má því skilja sem tilraun til að koma svolítilli reglu á mótsagnakennda framvindu hins "mannfélagslega uppeldisfyrirkomulags", sem geri verðandi kennurum kleift að átta sig örlítið á "ástandi mála" sem eins konar árangri af mótsagna- og tilviljanakenndum viðbrögðum við tímabundinni áskorun um að ná vísvituðum tökum "almennrar ráðstöfunar" á þýðingarfullum atriðum "mannfélagslegrar uppeldisviðleitni".“