fimmtudagur, mars 27, 2008

Evgeny Kissin

Evgeny Kissin.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Að taka myndir af ókunnugu fólki án samþykkis þeirra

Oft kemur það fyrir í útlöndum að löngun grípur mann til að taka mynd af ókunnum en áhugaverðum einstaklingi á förnum vegi. En menn verða gjarnan að gjalti í slíkum aðstæðum og fallast hendur frammi fyrir mögulegum viðbrögðum viðfangsins, enda þykir ekki við hæfi að brjóta svo freklega á tilverurétti manns.

Ég hef lengi iðkað myndatökur af ókunnu, áhugaverðu fólki í útlöndum (vegna þess að ég er siðlaus) svona: 1) Horfa ákveðið á ímyndaðan fjarlægan punkt sem svo vill til að er alveg við hliðina á viðfanginu, 2) munda vélina og smella af, 3) horfa síðan aftur ákveðið á ímyndaða fjarlæga punktinn við hliðina á viðfanginu eins og þú sért að íhuga myndefnið.

Viðfangið hefur oftast tekið eftir aðgerðum þínum á stigi 2), jafnvel á stigi 1), það fer eftir því hversu nálægt það er. En alveg örugglega á stigi 3), þá horfir það á þig eins og til að leita útskýringar á því af hverju þú ert að taka mynd af því.

En þú ert ekki að taka mynd af viðfanginu. Þú ert í raun að taka mynd af fjarlæga ímyndaða punktinum alveg við hliðina á viðfanginu, það vill bara svo til að viðfangið lendir á myndfletinum miðjum. Þess vegna er mikilvægt að bila ekki á stigi 3), heldur að láta eins og viðfangið sé alls ekki til og varði þig engu.

Þessi aðferð virkar í stórborgum vegna þess að ekki þykir svara fyrirhöfn að stofna til illdeilu við ferðamann með ljósmyndavél, sem var kannski og kannski ekki að taka mynd af þér, og talar ef til vill skrýtið tungumál og gæti orðið reiður og pirraður ef afskipti eru höfð af honum. Sönnunarbyrðin liggur öll hjá þér sem viðfangi, og í erli stórborgar er hún of þung til að henni megi lofta á nokkrum tugum sekúndna. Þess vegna hef ég aldrei fengið athugasemd frá viðföngum mínum.

Þetta snýst um félagslega nálægð. Þetta virkar þar sem hún er lítil, en síður þar sem hún er mikil. Ég var einu sinni kominn í útlandagírinn í Leifsstöð og gerði tilraun til að taka mynd af sætri stelpu sem vann í útibúi Landsbankans, en leið illa þegar stig 1) var hálfnað, vegna þess hve félagsleg nálægð milli okkar var mikil. Ég sá að spurningin „Fyrirgefðu. Ertu að taka mynd af mér?“ lá beinlínis á vörum hennar ofan á varalitnum. Og þá er hulunni svipt af glæpamanninum og hann stendur eftir nakinn.

En með blekkingum, misnotkun á mannlegu eðli og óheiðarleika má um frjálst höfuð strjúka þegar myndir eru teknar í óleyfi af ókunnugu fólki á götum stórborga.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Best

Rómantískir hljómsveitarforleikir sem enda á risastórri macho-útsetningu á þekktu stefi er besta tónlist í alheiminum. Gjörvöllum. Ég nefni Akademískan hátíðarforleik eftir Johannes Brahms sem lýkur á Gaudeamus igitur; Hátíðarmars eftir Pál Ísólfsson sem lýkur á Úr útsæ rísa Íslandsfjöll; 1812 eftir Tchaikovsky sem lýkur á rússneska keisarasöngnum; og forleikinn að Elverhøj eftir Kuhlau sem lýkur á Kong Christian.

mánudagur, mars 17, 2008

Zero% Fat Inside This Bag!

Var ég búinn að segja ykkur söguna af fitness-snakkinu sem ég keypti og reyndist við nánari aðgæslu vera 60% sykur?

þriðjudagur, mars 11, 2008

Hugleiðingar um sjálfstætt Skotland

Ég vil vekja athygli á eftirfarandi sem ég hef ekki haft rænu á að kynna mér fyrr en nú:

Íbúar Stóra-Bretlands eru 60,6 milljónir.

Þar af búa 50,8 í Englandi.

En 5,1 í Skotlandi.

3,0 í Wales.

1,7 á Norður-Írlandi.

Mér datt ekki í hug að hlutföllin væru 50/5 milli Skotlands og Englands. Skotar eru færri en Svíar, jafnmargir og Danir. Magnað. Þeir voru fleiri í huganum.

sunnudagur, mars 02, 2008

Hannibal ad portas

Bókstaflega.

laugardagur, mars 01, 2008

Ég er gamall maður

Gærdagurinn færði mér gleði.