sunnudagur, apríl 27, 2003

Detti mér nú allar

Áðan heyrði ég semballeik sem hljómaði eins og verið væri að hamra á steðja. Ég hélt að slíkum hljómi væri ekki unnt að ná úr því hljóðfæri, en skjöplaðist.

fimmtudagur, apríl 24, 2003

Harðfisksdrápa

Mikið óskaplega er harðfiskur góður matur.

Mikið óskaplega er harðfiskur dýr matur. Nú hleypur kílóverð á ýsu á um það bil 600 krónum, en harðfiskskílóið kostar 4815 krónur. Kostar það 4215 krónur að hlaupa með flökin út í skúr, hengja þau upp og bíða svolítið?

laugardagur, apríl 19, 2003

Ítalar

Talandi um hvað Ítalar eru dysfúnksjónal þjóð.

Í seinni heimsstyrjöldinni hernámu þeir Albaníu, og réðust síðan inn í Grikkland í október 1940. Grikkir tóku hraustlega á móti þeim og hröktu hinn afspyrnulélega ítalska her út úr landinu.

En Grikkirnir voru ekki búnir. Nei, nei. Sjö milljóna þjóðin hélt áfram inn í Albaníu og rak 45 milljóna þjóðina á undan sér uns Þjóðverjar komu og björguðu Ítölum.

Sagan segir að franskir varðmenn á landamærum Ítalíu og Frakklands hafi af þessu tilefni sett upp skilti sem á var letrað: „Grikkir, athugið! Hér byrjar Frakkland.“

föstudagur, apríl 18, 2003

Ivrit

Þá skýrist það bráðum hvort nógu margir hafa skráð sig í hebreskukúrsinn sem er á dagskrá í Menntaskólanum næsta skólaár. Yrði það í fyrsta sinn síðan á níunda áratug nítjándu aldar sem það mál yrði kennt við skólann.

Magister Kolbeinn tjáði 5.A að fengjust ekki nógu margar sálir yrði gripið á það ráð „að sjanghæja bara einhvern inn í þetta“.

Hvernig skyldi slík „sjanghæjun“ fara fram? Gerir maður grunlausum menntskælingi fyrirsát, stekkur fram og hendir svörtum plastpoka yfir hausinn á honum og segir: „Jæja, vinur, nú skalt þú læra hebresku“?

Ja bittinú bittinú.

þriðjudagur, apríl 15, 2003

Ó, þá náð

Ég hef sjaldan litið aðra eins dýrð og myndbandarekkann í Þjóðarbókhlöðunni. Þar eru öll leikrit Shakespeares á spólum í BBC-uppfærslu.

Þá er útséð um það hvað ég geri í sumar.
Komment dagsins

„Heyrðu, þetta er nú bara eins og í stærðfræðigreiningunni hérna í gamla daga!“ – Orð viðhöfð um stærðfræðikennslubækur máladeilda (!) í þeirri framsæknu og up to date stofnun Menntaskólanum í Reykjavík.
Tillaga

Horfði á Meistarasöngvarana frá Ameríku um daginn. Það er ekkert fútt í þessum þáttum, fyrir utan dómarann Simon Callow. Hann er Beckmesserinn í hópnum, svona hier-wird-nach-den-Regeln-nur-eingelassen-gaur.

Þetta væri miklu skemmtilegra ef dómurunum væri gert að skarta hnésíðum pokabuxum, vesti, fjaðraðri húfu og digurri gullkeðju um hálsinn.

Þá væri einnig við hæfi að láta públíkum og söngvara standa teinrétt í upphafi hvers þáttar meðan forleikurinn að Meistarasöngvurunum er spilaður. Það gengi áreiðanlega vel í áhorfendur Kanalands.

Húfur og vettlingar

Ég hef átt nokkrar húfur um dagana, og líka nokkur pör af vettlingum, en alltaf týnt þeim jafnóðum. Þegar ég tek þetta af mér hverfur draslið samstundis.

Síðustu húfunni týndi ég í strætó í febrúar, og stuttu síðar einkar eigulegum prjónavettlingum (hvar veit ég ekki). Næst þegar ég legg í að fara út með húfu á hausnum og vettlinga á höndum ætla ég að sauma hvort tveggja kirfilega í úlpuna eins og gert er við litlu börnin.

Það ætti að duga.

laugardagur, apríl 12, 2003

Heimir Pálsson, ef þú ert að lesa þetta, reyndu þá að semja betur grundaðar bækur.

Dæmi: Fróðleiksmolar um Guðbrandsbiblíu sem vert er að setja í kennslubók eru u.þ.b. átta talsins. Þessum átta molum er í kennslubók Heimis Pálssonar „Frá lærdómsöld til raunsæis“ dreift niður á 30 blaðsíður innan um allsendis óskylt efni.

föstudagur, apríl 11, 2003

Rule Britannia!

United Kingdom (England)
United Kingdom (Britain) -
One of the longest-standing nations in history, it
has survived several centuries and kept its
traditions alive.


Positives:

A Long History Full of Tradition.

Well-Renouned.

Strong and Respected.


Negatives:

Viewed as Pompous and Aristocratic.

Bitterness of Others About Past Transgressions.

Bad Teeth.



Which Country of the World are You?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, apríl 08, 2003

Mánudagur

15:05 Kem inn úr dyrunum. Fæ mér að borða.

15:55 Geri margar misheppnaðar tilraunir til að horfa á Barry Lyndon á DVD-disk sem er of rispaður til að hann spilist. Ergi mig á því um stund.

16:55 Fer á internetið.

17:35 Leggst til svefns.

Þriðjudagur

1:25 Vakna. Ligg andvaka. Hlusta á orgelsinfóníu Saint-Saëns.

4:25 Ligg enn andvaka.

7:10 Fer í strætó. Verð næstum úti.

7:50 Fer úr strætó í Lækjargötu.

8:10 Dey.

laugardagur, apríl 05, 2003

En skandaløs begivenhed

Var að koma af MorfÍs-úrslitunum, þar sem viðhafður var mesti dómaraskandall sem samanlögð mannkynssagan kann frá að greina.

Mínir menn stóðu sig betur en Verslingar í öllum tilfellum, voru ávallt rökfastari og töpuðu sér aldrei í asnalegum fíflalátum eða tilgangslausum skrípalátum. Það sem helst stóð í manni eftir flestar ræður Verslinga voru öll ófyndnu sniðugheitin þeirra, en hönd festi aldrei á efnisatriðum þeirra, því þau voru svo vel falin í öllum fyndinleikanum.

Jóhann Alfreð Kristinsson klykkti út í hvorritveggja lotunni með góðri ræðu í enn betri flutningi, og tók Breka Versling algjörlega á öllum sviðum. Eftir magnaða lokaræðu Jóhanns lyppaðist Breki upp í pontu og reyndi að halda andlitinu með skætingi og sömu klisjunum sem Verslingar höfðu staglast á frá upphafi.

Þá voru Verslingar gefnir fyrir frekar sóðalegan orðaforða og ódýran húmor sem tókst sérstaklega ekki hjá fánanum með gjallarhornið því hann hafði ofreynt sig. Breki tók einmitt upp á því að æpa lokaræðuna sína í míkrófóninn upp á effektinn sem reyndist enginn þar sem sarg hans og garg skar í hlustir.

Í dómarahlénu sást það á Verslingum uppi á sviði að þeir héldu sig hafa tapað. Liðsmenn frekar súrir á svip og svona. Einnig heyrðist í valinkunnum Verslingum úti í sal að það gengi bara betur næst.

En hvað gera dómararnir? Jú, þeir dæma Verslingum sigurinn. Það ætti kannski bara að taka upp á því að dæma lélegra liðinu sigurinn í öllum tilfellum í öllum kappleikjum. Það væri áhugavert.

MR-ingar unnu þessa keppni og það vita allir sem á horfðu.

Valgaften

Hins vegar voru engin brögð í tafli þegar kosningaúrslit Skólafélagsins og Framtíðarinnar voru kynnt bagefter. Ég hlaut nokkuð örugga kosningu í embætti skólaráðsfulltrúa sem er mál gott.

„Ég vil þakka … það trausssssssss … sem mér hefur verið sýnt … með því að kjósa mig … skólaráðsfulltrúa … nú.“ Djöfull hatar maður ekki Svein Björnsson á Þingvöllum '44.

Nýjar váðir

Ég verð að fá mér nýjar buxur. Þetta gengur ekki mikið lengur.

fimmtudagur, apríl 03, 2003

Schallplatten

Í gær fór ég í plötubúð. Klæddur íþróttagalla og skokkskóm. Við skulum segja að ég hafi átt að vera annars staðar.

Í plötubúðinni datt mér í hug að festa kaup á Niflungahringnum á DVD (Metropolitan-Levine-uppfærslunni) á rúmar 20.000 krónur en hætti við á síðustu stundu. Hvers vegna veit ég ekki. (Hver er annars besta myndbandsuppfærslan á Hringnum? Það eru víst uppi deildar meiningar um Levine.) Lét tvo geisladiska nægja: níundu Beethoven með Karajan '63 (Berliner Philharmoniker, Wiener Singverein) og sellókonsertadisk með Daniel Barenboim og Jacqueline du Pré.

Níundu Beethoven átti ég fyrir með Karl Böhm '80 (Wiener Philharmoniker, Konzertvereinigung Wiener Staatsopernchor) en hann er einmitt þekktur fyrir að taka hana frekar hægt. Til samanburðar má nefna að sinfónían tekur 79'02'' hjá Böhm en 66'58'' hjá Karajan. Tólf mínútur, sem er slatti. Karajan hefur þetta frekar snaggaralegt, kannski um of að mínu mati, enda búinn að venjast Böhm.

Tónmeistarar Karajans stilltu hljóðnemunum greinilega upp fjær kórnum en gert er hjá Böhm og verður hann því ekki jafn-intens og vera ber. Þá voru þeir með míkrófóninn uppi í trompetleikurunum sem er ekki til bóta. Gundula Janowitz er sópran hjá Karajan en Jessye Norman hjá Böhm, en Gundula er einmitt Sópransöngkonan. Söngstíll Jessye er þó lágstemmdari sem mér finnst henta betur hér en hin (samt sem áður) undurfagra há-pitchaða rödd Gundulu.

Walter Berry er barítón á báðum upptökum og skilar sínu nákvæmlega eins í hvoru tveggja tilfellinu. Þegar kemur að tenórnum fara mál þó að skýrast. Plácido Domingo syngur á Böhm en einhver Waldemar Kmentt hjá Karajan. Kmentt þessi er vægast sagt hörmulegur söngvari, með lélega framsögn og ömurlegar söngáherslur. Domingo tekur hann ósmurt.

Mér líkar eiginlega betur við alla hægðina í Böhm því þá næst langmest tilfinning út úr þessu. Mér finnst of mikið flaustur á Karajan. Síðan er Böhm-upptakan gerð im Großen Musikvereinssaal í Vín en Karajan í Jesus-Christus-Kirche í Berlín. Hljómurinn í Musikvereinssaal er miklu þéttari og fyllri en kirkjuhljómurinn, sem virkar frekar flatur.

Ég verð því að dæma Böhm betri en Karajan. Næst er það Claudio Abbado sem verður prófaður, þ.e.a.s. ef ég finn hann í hinu gríðarlega úrvali klassískra diska á klakanum.

Ég átti engan disk fyrir með Jacqueline du Pré og Barenboim en á þessum flytja þau sellókonserta eftir Haydn og Boccherini. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef aldrei heyrt svona ótrúlega skitsófrenískan sellóleik á ævi minni. Hvað var að þessari konu? Þetta er svo óheft, brjálað og tilfinningaþrungið. Öðruvísi. Bravó fyrir Jacqueline du Pré og frekari kynnum okkar.