laugardagur, júlí 31, 2004

Þjóðernisskandall # 2

Og nú er það spurningin, góðir hálsar: Tekur Dorrit Moussaieff stökkið og kemur fram á svölum Alþingishússins á morgun í skautbúningi undir nafninu Þuríður Shlomodóttir eða ekki?

Nú er tækifærið for at blive Islænding, Þuríður! Athöfnin á morgun verður í boði Reykjavík Grapevine.
Og koma svo, meira svona

Ég hef alltaf verið ákafur aðdáandi alvarlegra slagsmála á þjóðþingum eins og þessara hér. Ég gleymi því aldrei þegar ég var u.þ.b. átta ára og sá fyrstu þingslagsmálin mín í fréttunum, en þá hafði tævönskum þingmönnum orðið heitt í hamsi.

Einhver kona stóð í ræðustólnum og var að tala. Síðan stekkur einhver maður inn í mynd og löðrungar hana snarplega og otar fingri að henni með skömmum. Hún fer í hann og þau stimpast eitthvað. Síðan er klippt á það þegar meirihluti þingmanna er að kýlast, blöð fljúga um þingsalinn og almenn óöld ríkir. Það er eitthvað svo fyndið við litla og ofurreiða asíska þingmenn. Þeir eru með svo litla handleggi og eru svolítið óöruggir þegar þeir kýla mann, hætta eiginlega þegar höggið er hálfnað en láta svo vaða, hrista handlegginn eiginlega utan í viðfangsefnið.

En já, þið getið ímyndað ykkur vonbrigði mín þegar ekkert svona gerðist á íslenska þinginu í vor. Ærið var nú tilefnið samt. Slíkt kódakmóment hefði verið þegar Steingrímur gungudruslaði Davíð, en þá átti hann að hjóla í Steingrím med det samme og negla hann niður. Hoppa síðan á honum.

Ísland er svo óspennandi. Vantar þetta agressjónselement í hávelborið fólk.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Breaking News

Þegar ég fletti Morgunblaðinu í þessu sá ég mynd á bls. 43 sem ég taldi við fyrstu sýn vera Sverri Teitsson. Hugsaði ég þá: „Nei bittinú, bittinú, nú hefur Ingibjörg sko afsalað sér forsætisráðherraefninu og sett allt sitt á vonarstjörnuna."

Við nánari skoðun kom þó í ljós að hér var ekki um Teitsson að ræða, heldur var þetta móðir hans Ragna Briem sem unnið hafði í lesendaleik.

Góðar stundir.
Djöfull barrrrrr-okka ég í vinnunni

Skýr, lítill ljóshærður strákur kemur inn á BGB og spyr hvort við eigum einhverja geisladiska. Hvers konar diska, spyr ég. Æi, ég er að læra á fiðlu, segir hann.

Ég sé mér leik á borði. Já, já, hefurðu heyrt um Vivaldi og Händel? Nei, segir hann. Ég geng að rekkanum og dreg út fiðlukonserta eftir Vivaldi og einn Concerto grosso eftir Händel. Hann ljómar allur og ég lána honum þá án þess að rukka krónu.

Skýri, litli ljóshærði strákurinn kemur inn á BGB og spyr hvort hann megi hafa Vivaldi og Handel lengur. Händel, leiðrétti ég góðlátlega. Já, já, þú mátt hafa þá eins lengi og þú vilt, félagi. Takk.

Hann er ég.

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Leiðbeiningar til lánþega
 
Borið hefur á því að fólk kunni ekki að haga sér á bókasöfnum. Nú verður ráðin bót á því.

1. Skýrleiki.
Þegar komið er að afgreiðsluborði skal bera upp erindi sitt í skýrt formuðum aðalsetningum. Einn efnisliður erindis skal borinn upp í einu. Ekki má til dæmis henda bókastafla á borðið og spyrja um leið hvort hundraðþúsundmilljón kerlingajólabækur séu inni.  Bókaverði er skítsama hvort Brennd lifandi, Barist fyrir frelsinu eða Mér var nauðgað í Miðausturlöndum og mér líður svo illa séu inni ef sá háttur er hafður á.

2. Nákvæmni.
Ef svo ber undir skal flokka gögn í tvo stafla: stafla sem lánþegi vill taka að láni og stafla sem lánþegi vill skila. Skal hann tilgreina með skýrum hætti hvers kyns hvor stafli er. Ekki hrúga öllu á borðið og ætlast til þess að bókavörður viti hvað hann á að gera við það.

3. Brottfararleyfið.
Undir ENGUM KRINGUMSTÆÐUM skulu lánþegar skilja eftir gögn á borðinu þegar bókavörður er ekki við afgreiðsluborðið og storma inn í safnið að skoða kerlingablöð. Bókavörður veit ekki hvað gera skal við gögnin og þá eykst hætta á að þau lendi óskönnuð inni í safninu, öllum til óþæginda. Góð þumalputtaregla er að skilja aldrei við efni nema bókaverði hafi verið afhent það og hann gefið viðkomandi lánþega brottfararleyfi frá afgreiðsluborðinu.

4. Tillitssemi.
Ekki setja hluti sem láta skal bókaverði í té beint á afgreiðsluborðið heldur afhendið honum þá. Þetta á sérstaklega við um hvers konar greiðslu, svo sem debetkort, smápeninga og seðla en ekki síst bókasafnskort sem getur verið ákaflega erfitt að plokka upp af borðplötunni. Þá skal leitast við að koma bókum, hvort sem menn eru að skila eða taka að láni, í fögrum stafla eins nærri bókaverði og nokkur kostur er. Hann er að þessu allan daginn og þreytist við að hífa upp bókastafla. Í ætt við þetta er að tala í síma meðan á afgreiðslu stendur eða eiga í áköfum samræðum við þriðja aðila á safninu. Slíkt torveldar mjög afgreiðsluna.

5. Óskeikulleiki.
Lánþegi skal hafa í huga að bókavörður hefur rétt fyrir sér í 100% tilfella. Hann þekkir safnið og innviði þess mun betur en lánþegi og er því í mun betri stöðu til að veita sem réttastar upplýsingar um stofnunina og safnkost á hverjum tíma. Lánþegar skulu forðast að deila við bókavörð enda hafi þeir óskeikulleika hans í huga. Drottinvald bókavarðar yfir safninu er algjört og forboðið er að draga það í efa.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Bíómyndir

Ég fæ gæsahúð þegar ég ímynda mér Christopher Lee segja Revenge of the Sith. Með áherslu á Sith.

Bíómyndir II

Ég hlakka svo til að sjá Alien vs Predator að ég er að deyja. Ég meina, þetta er ALIEN VS PREDATOR! Hvað er ekki gríðarlega, fáránlega, óendanlega áhugavert við það? Þetta eru bestustu og flottustu skrímsli í horror-heiminum ever sem ERU AÐ FARA AÐ BERJAST!

Þetta er eins og ef Johann Wolfgang von Goethe og Friedrich von Schiller hittust á förnum vegi og færu að kveðast á. Á sama hátt er Alien vs Predator ein Ereignis von Weltbedeutung.

mánudagur, júlí 26, 2004

Björn M. Ólsen ryðst yfir brjóstvarnir

Ég gerði ypsilon-villu í sagnbeygingu áðan. Sjytt, maður. 


Breskur þjóðernisskáldskapur ...

snýst að miklu leyti um guðlegar fígúrur sem stíga niður af himnum til að gera aðskiljanlegustu hluti.

The God of War was pleased and great Bellona smiles
To see these noble heroes of our British Isles!
And all the Gods celestial, descending from their spheres,
Beheld with adoration the British Grenadiers.
 
Og líka:

When Britain first at Heav'n's command,
Arose from out the azure main,
This was the charter of the land
And guardian angels sang this strain:

Rule Britannia! Britannia rule the waves.
Britons never shall be slaves. 

föstudagur, júlí 23, 2004

En við skulum samt sjá til

Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þeir fóstbræður, nafnar og samframbjóðendur í hreppstjórn, Kerru-Jón og Jón á Játvarðsstöðum, nái ekki hylli sveitunga sinna í nóvember.

 

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Verbum diei

Orð dagsins kemur úr fimmta ólympíska óði Pindars: dedaidalménoi. Algjör redúplíkasjónsorgía hér á ferð. Grammatískur orgasmi væntanlegur.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Nostra alma mater vivat, crescat, floreat!

Hvar skyldi gamli góði MR-andinn koma betur fram annars staðar en í minningargrein um sjálfan MR-nestorinn, Guðna Guðmundsson?

Er ráðuneytið lagði til að Menntaskólinn skyldi gerður að því sem kallað var „fjölbrautaskóli“ með svonefndu „áfangakerfi“ lagðist rektor öndverður gegn þeirri firru og hafði fullnaðarsigur.

Með gæsalöppum og stóru M-i. Megi vor aldna móðir blómgast um eilífar tíðir og úr kletti hennar æva kvarnast.

Britney Dowland

Á dýrðardögum Napsters, sem munu hafa verið frá miðju ári 2000 fram á vor 2001, kom maður heim eftir skóla og eyddi dágóðum tíma í tónlistarniðurhal. Ég hef hlustað svo mikið á þessa tónlist að hún verður ævinlega bundin ákveðnum minningum og ákveðnu tímabili. Þegar ég hlusta til dæmis á lagið „Fine knacks for ladies“ eftir John Dowland er ég kominn í stofu C.1.01 og horfi yfir bekkjarfélagana í 3.B. Elsku þribbi, eilíflega ert þú mér horfinn.

Ég hafði aldrei rænu á því að fletta upp textanum í þessu lagi og hef staðið í þeirri trú í mörg ár að í laginu stæði „Ah, megababy“ sem mér fannst ég greina. Í Englandi keypti ég mér disk með King's Singers þar sem þetta lag er, og í nostalgíukasti lét ég verða af því að fletta textanum upp. Hann er svona:

Fine knacks for ladies, cheap choice, brave and new
Good penniworthes, but money cannot woo;
I keep a fair, but for the fair to view;
A beggar may be liberal of love.
 
Þá er það komið á hreint: „A beggar may be ...“ Enda kannski ólíklegt að Britney Spears hafi verið textahöfundur valinkunnra enskra madrigalatónskálda árið 1600. Ég veit það ekki.


Nýja Vísakortið mitt, hvers kortanúmer er ...
 
Ég er orðinn adúlt með Vísakort sem notað verður um alla eilífð. Næstu ár verða skuldir, eymd og volæði en ekki leikur að stráum.
 
En það er eitt sem hræðir mig við þetta: Er kortanúmerið mitt sem stendur á sjálfu spjaldinu það eina sem óprúttinn kóni þarf til að steypa mér í skuldir einhvers staðar í Bútan? Ef ég kveikti óvart á tölvu, færi á internetið, skrifaði kortanúmerið mitt í Create a new post og ýtti á Publish post, alveg óvart, væri það mjög slæmt?
 
Er hættulegt að ganga alltaf með Vísakortið á sér ef einhver skyldi stela því? Hafa hryðjuverkamennirnir ekki unnið í striðinu gegn hinum frjálsa heimi ef ég læt undan óttanum? Gerir Vísakort eiganda sinn kaupóðan? Verð ég gjaldþrota í lok mánaðarins eins og danski ríkissjóðurinn árið 1801?
 
Ég ætla að losa mig við þetta Vísakort strax á eftir.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Myndir frá London komnar inn
 
Þar er margt og mikið: æsileg lestarævintýri, konungleg intervensjón, dónalegir hallarverðir og Fífl-Janear þáttur kirkjusaurgara. Skoðið!

fimmtudagur, júlí 15, 2004

London

T minus 1. Yeah, baby, yeah!

Hvað gerir Atli á bókasafninu?

Jú, hann hittir aðra fágaða menntamenn í MSN-tóbakskollegíinu og ræðir við þá á latínu. Þetta bætir, hressir, kætir.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

London

T minus 2. Yeah, baby, yeah!
Í þetta stefndi maður, andskotinn hafi það

Haha. Ég segi ekki meir.
What is next, may I ask? Her Majesty herself? The Monarchy itself?

Nú ætla þeir að steypa sjálfum Lord Chancellor af stalli og leggja niður hans háa embætti, sem er eitt það elsta í konungsríkinu. Tony Blair skipaði gamlan vin sinn, Charlie Falconer, í þetta embætti beinlínis til að leggja það niður.

En riddarar réttlætisins í House of Lords greiddu atkvæði gegn þessari firru, 240 gegn 208. Við þurfum að koma vitinu fyrir þessa fjandsamlegu Labour-kóna þarna úti um næstu helgi og tuska þá til hlýðni við hennar hátign. Meira um þessa vitleysu hér og hér.

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Yo soy el Gran Inquisidor de la Santa Inquisición Española

Ég hef eignast nýtt alteregó. Hann er dómstjóri í Heilaga spænska rannsóknarréttinum. Hann svífst einskis og spilar á stegluna sína eins og aðrir á kassagítar. Hans refsing kemur að ofan til handa trúvillingum og svikurum við páfastól. Hann ber hring og á hann er letrað: SANCTUS DOLOR — heilög þjáning.

Hann heitir El Atlo.

mánudagur, júlí 12, 2004

London

T minus 4. Yeah, baby, yeah!

sunnudagur, júlí 11, 2004

Miðvikudagsrakstur II

Ég mun skera hár mitt að morgni dags. Tilgangurinn er sá að fyrri hluta vikunnar sjái fólk mig með skegg en þann seinni skegglausan. Fyrst um sinn mun ég veita lýðnum skegglausan miðvikudag með morgunrakstri en stunda kvöldrakstur með reglulegu millibili til að gæta jafnvægis milli Angra Mainyu og Spenta Mainyu.

Brúðkaup

Um helgina var ég í fjölskyldubrúðkaupi úti á landi. Það væri í sjálfu sér efni í bíómynd, eða jafnvel skáldsögukorn lítið. En þegar veislunni var að ljúka sá veislustýran ástæðu til að lesa upp plagg sem nefndist „Málfræði hjónabandsins“ sem var samansafn af einföldum samlíkingum milli hjónalífs og grammatíkur.

Meðal efnis í þessari undursamlegu ritsmíð var heilræðið: „Hjón ættu að lifa í nútíð og gleyma þátíðinni. Síðan ættu þau að leitast við að vera gift í framsöguhætti en ekki viðtengingarhætti.“ Þá brast eitthvað innra með mér og ég var eini maðurinn sem gaf frá sér hljóð í félagsheimilinu og hló. Hátt.

laugardagur, júlí 10, 2004

Ho barbaros

Ég ætla aðeins að raka mig á miðvikudögum héðan í frá. Svo ætla ég líka að safna hári.

föstudagur, júlí 09, 2004

Atli útlenski

Þá er það komið á hreint. Í ár fer ég í þrjár utanlandsferðir, til:

1) London á Bretlandi 16.—18. júlí með Ásgeiri og Birni;
2) København í Danmörku 1.—5. september með Helga og Oddi að heimsækja Snæbjörn;
3) Hansestadt Hamburg í Þýskalandi 21. desember til 9. janúar með sjálfum mér að gista hjá ættingjum. Og kynna mér norðurþýskan merkantílisma.

Loksins, loksins er ég á leið til Drottins Deutschlandsins míns, eftir tveggja og hálfs árs aðskilnað. Ég ætla að vera yfir jól og áramót og hver veit nema ég taki Expreß-Zug til Vínar einhvern daginn ...

Ég býst við því að fljúga til Kaupmannahafnar og taka lest til Hamborgar. Þegar ég kem yfir landamærin ætla ég að taka í einhvern neyðarrofa, stökkva úr lestinni og kyssa jörðina. Síðan ætla ég aftur inn í lestina og látast vera sofandi.

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Tvær ljósmyndir

Ég keypti tvær ljósmyndir af Fréttablaðinu og DV á kompúterísku formi í vikunni. Önnur birtist í Fréttablaðinu 23. apríl 2004, og er af nokkrum úr 6.A þar sem við vorum í Vesturbænum að internasjónalast og revólúsjónerast.

Hin birtist í DV 18. mars 2002 og er af spurningaliði Reykjavíkurskóla og var prentuð undir fyrirsögninni „Fólk á að halda að við séum yfirnáttúrulegir“. Ekkert sem við sögðum í því viðtali kom rétt út í blaðinu. Ekki neitt. Þess vegna virtist það vera eintómur hrokamónólóg af okkar hálfu.

Dæmi: Ég sagði að við værum nú næstum búnir að renna saman í spurningalegt nirvana. Í blaðinu var þetta: „„Ég tel mig nú vita mest um hljómsveitina Nirvana,“ segir Atli og hlær við undirtektir félaga sinna.“ Annað var eftir þessu.

Þessi mynd er ein sú besta sem var tekin af spurningaliðinu meðan það var og hét. Það slaknar alltaf á hjartarótunum þegar maður sér hana, blessaða.

Ég ætla að fá þessar myndir prentaðar í því sem næst stærðinni A4 á glanspappír og síðan ætla ég að ramma þær inn og hengja upp inni hjá mér. Fyrir fólkið sem var með mér á myndunum býðst ég að gera slíkt hið sama og afhenda því við hentugt tækifæri gegn því að það borgi hráefniskostnað, en hann er hér fyrir neðan. Ég er sá eini sem birtist á báðum myndum, þannig að menn greiði einungis einfalt gjald hvar þeir eru skráðir:

Myndirnar kostuðu 1500 kr. hvor um sig og glansprentunin kostar 540 kr.

Obba, Bjarney, Markús, Una og Tommi borgi því 790 kr.

Helgi, Oddur og Snæbjörn borgi því 915 kr.


Viðkomandi vinsamlegast kommenti og reyni að koma skilaboðunum áfram til þeirra sem ekki lesa síðuna.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Sumir, aðrir ekki

Lánþ. 1 (snýr sér undan): Heyrðu, svo var ég að skila þessu. Eigið þið nokkuð þarna, þarna eftir hann æi þarna Viktor Arnar, Flateyjarbók, eigið þið hana?

AFS (skannar, kímir og bendir í átt að 819.3): Jájá. Við eigum hana alveg ...

Lánþ. 1 (bendir á glæpasögurekkann): En bíddu á hún þá ekki að vera þarna?

AFS: Já, haha, Flateyjarbók er sko skinnhandrit ... sem var gefið út ... haha ...

(Augnaráð. Algjör þögn.)

AFS (flýr): Get ég aðstoðað?

Lánþ. 2 (horfir viðurkenningarglotti á AFS): Ég ætla að skila þessu.
Loftkastali

Og talandi um tengingar. Portúgalska hljómar eins og Rússi að reyna að tala spænsku. Málhljóðin eru ótrúlega lík rússnesku en samt greinir maður inni á milli einhver rómönsk orð sem maður kannast við. Ótrúlega fyndið. Ég er helst á því að portúgalska þjóðin í heild sinni hafi verið herleidd til Rússlands fyrr á tímum en það hafi bara gleymst óvart að skrá það í sögubækur. „Já úps! Skildum eftir eyðu þarna maður váááá!“

Fleiri tengingar, I've started so I shall finish: Fyrst 'feira' þýðir 'dagur' á rússgölsku, þá hlýtur hinn vinsæli menningaráfangastaður Íslendinga Albufeira að þýða 'hvítidagur' þar sem 'albus' þýðir 'hvítur' á látínumáli. En nei, þetta er komið úr arabísku og þýðir 'lón'. Djöfull.
Tengingar

Þar sem ég sit sýknt og heilagt inni í loftkældu og flúoresent-lýstu lókúmi verð ég að ráða það af öðru en sólarljósi á kroppi mínum eða grænum gróðri að það sé komið sumar.

Fólk hlýtur eiginlega að vera komið í sumarvinnuna sína, því í stað allra leiðinlegu IP-talnanna (á borð við 134.234.12.238.xdsl.is) þá eru í staðinn komnir glæsilegir fyrirtækjaserverar á sitemeterinn. Landsbankinn, Marel, ýmsar ónefndar ríkisstofnanir.

En ég hef eina spurningu: Af hverju í andskotanum heitir serverinn hjá Samskipum 'Chopin'? Hvaða fyndni á þetta að vera? Heitir kannski serverinn hjá ölknæpunni Sirkus 'Goethe'?
Raspútín!

Ra-Ra-Rasputin, lover of the Russian Queen!
There was a cat that really was gone.
Ra-Ra-Rasputin, Russia’s greatest love machine,
It was a shame how he carried on!

He ruled the Russian land and never mind the Czar,
But the kasachok he danced really wunderbar.
In all affairs of state he was the man to please,
But he was real great when he had a girl to squeeze.


Haha. Þetta lag er snilld, Boney M er mjög kúltíveruð hljómsveit, eins og maðurinn sagði. Gæti einhver útskýrt fyrir mér muninn á Putin og Rasputin? Er þetta svipað og Steinsson versus Þorsteinsson? Og hvað er málið með STRENGJASVEIT í öllum diskólögum?

laugardagur, júlí 03, 2004

10. maí 1940: The Return







„Útvarp Reykjavík. Í fréttum er þetta helzt: Brezkur herliðsafli er genginn á land í Reykjavík og hefir hertekið bæinn. Sturges yfirforingi gekk rakleiðis á fund forsætisráðherra, Hermanns Jónassonar, og tilkynnti honum að brezka heimsveldið hefði af frjálsu fullveldi sínu hertekið landið vegna þess styrjaldarástands, er nú ríkir í heiminum.

Væri sú aðgerð til þess fallin að styrkja stöðu heimsveldisins í norðurhöfum, og væri þar unnið í beinu samræmi við hendingar í söngnum Rule Britannia, en þar væri að finna vísuorðin: „Rule Britannia, Britannia rule the waves“. Jafnframt tjáði yfirforinginn forsætisráðherranum að brezka heimsveldið liti nú svo á, að Ísland væri eftirleiðis óaflátanleg nýlenda hans hátignar Bretakonungs, og féllst forsætisráðherra á það, þar eð hugur þjóðarinnar hefir nú lengi staðið til þess að brjótast undan ægivaldi Dana en einhenda sér í faðm hans hátignar Bretakonungs.

Þá kynnti Sturges yfirforingi forsætisráðherra nýjan landsfána, en hann er dreginn upp á sígildan og smekklegan hátt, líkt og gert hefir verið í öðrum nýlendum hans hátignar Bretakonungs, og trónir þar Sambandsfáni Bretlands í efra vinstra horni, en á bláum feldinum miðjum til hægri liggur hinn krýndi þorskur Íslands á rauðum skildi, og skal hann minna á hin fornu tengsl við Danmörku, er nú hafa verið rofin.

Mikill og almennur fögnuður ríkti meðal bæjarbúa nú í dag, og sagðist fréttamanni Útvarps svo frá laust eftir miðdegi, að „bæjarbúar [væru] frá sér numdir af gleði, veifuðu brezkum fánum og blönduðu geði við hina brezku hermenn“. Ekki sízt var fagnað fyrir framan Stjórnarráðið þar sem brezkir sjóliðar drógu hinn nýja fána Íslands að húni við innilegan og dynjandi fögnuð mannsafnaðarins, er fyrir framan bygginguna var. Fánanum heilsuðu brezk herskip, er lágu á ytri höfninni, með 21 fallbyssuskoti. Þá hefir fregnmiðum af hertökunni rignt yfir bæinn úr brezkum flugvélum.

Af alþjóðlegum viðbrögðum er það að segja, að Roosevelt Bandaríkjaforseti lýsti ánægju sinni með þessa þróun mála, og óskaði Íslendingum allra heilla. Þýzka útvarpinu sagðist svo frá um hádegisbil að Hitler kanzlari hefði umsvifalaust boðað til herráðsfundar í kanzlaraamtinu við þessi stórtíðindi, og hafi heyrzt til Heinrichs Himmlers, er hann stormaði inn í bygginguna, segja: „Nein, o nein! Meine Insel, meine Insel!“ Þá hafa heillaóskir borizt frá norsku og hollenzku útlagastjórninni í London, sem og de Gaulle yfirhershöfðingja Frjálsra Frakka. Brezka útvarpið BBC hefir eftir de Gaulle: „Ég fagna þessum heillavænlegu örlögum Íslendinga, sem nú hafa skipað sér í hóp mestu þjóða veraldar með því að verða nýlenda Breta. Með hertöku Íslands hefir stríðsgæfan snúizt oss í vil.“

Nú verður brezki þjóðsöngurinn leikinn, en að honum loknum verður gert hlé á útsendingu, þar til er útvarpað verður valdaafsalsathöfn þeirri, er fram fer í Alþingishúsinu klukkan 20 í kvöld, er Hermann Jónasson lætur af embætti forsætisráðherra með því að rita undir skipunarbréf hans ágætis herra Howards Smith, er héðan í frá verður landstjóri Íslands.“
Skothelt

Að sjálfsögðu vil ég að enir hávu Hellenar verði sigrsælir á EM. Til að það verði gulltryggt ráðlegg ég Hellenum að gera eftirfarandi:

1) Stilla stórum tréhesti upp á vellinum rétt áður en blásið er til seinni hálfleiks.

2) Skora eins mörg mörk og þurfa þykir meðan fattlausir Portúgalar dást að hestinum.

Virkaði einu sinni. Mun virka aftur.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Let's Get Our Priorities Straight

Til að forða stórslysi þykir rétt að minna á eftirfarandi: Ri-naldo er ópera eftir Händel. Ro-naldo er portúgalskur fótboltakappi.
Konungskoma afstaðin

Ég sýndi af mér óaðfinnanlega framkomu við konungskomuna. Öllum Noregi er sómi að verðandi drottningu. Síðan fór ég og stal rauðri rós úr blómkransi sem átti að mynda norska fánann. Ég skírði hana Mette-Marit.