miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Ég man

Ég man þá tíð þegar ég hætti samstundis að lesa texta eftir mann sem skrifaði ennþá. Mér fannst viðkomandi vera hálfviti sem kynni ekki íslensku. Þessir dagar eru liðnir.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Bók lífsins

Hún heitir To Be a Jew og er uppflettirit um öll hugsanleg álitamál sem kunna að vakna í hversdagslífi hins trúaða gyðings. Tökum dæmi:

Not all coffee creams labeled "non-dairy" are in fact non-dairy, according to the rules of kashrut. Some contain sodium caseinate, which is derived from milk, making it a dairy product which should not be used at a meat meal. (Ógeðslegu kristnu dollarafurstar sem ljúga því að saklausum gyðingum að mjólkurduftið sé ekki búið til úr mjólk.)

Glass under ordinary use has been confirmed as a non-absorbing material. (Hér er áhugavert að sjá hvernig fremstu vísindi leggjast á eitt með últra-trúarorþódoxíu, en það gerist ekki á mörgum sviðum.) Therefore, its occasional use for serving either meat or dairy is not prohibited. However, to use one set of glass dishes as a substitute for the traditional practice would be wrong and should not be permitted as a matter of policy. (Það má ekki svindla, sko.)

Water glasses may be used either at dairy or meat meals. (Hjúkkett.)

Loksins, LOKSINS! get ég lifað lífi mínu í fullkominni sátt við Torah og Halakha. Guð sé oss næstur.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Spurning

Hlýtur sigurvegarinn í keppninni Herra Ísland sæmdarheitið fegurðardrottinn? „Ég er fegurðardrottinn, brosi gegnum tárin ...“

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Merkilegasta slafaþjóðin

Þetta þýðir: „Afsakið, hvað er klukkan? Klukkan er tólf. Þakka þér kærlega fyrir.“ Tinna reyndi að kenna mér að spyrja um klukkuna á tékknesku áðan en hún talaði of hratt. Ég er haldinn fordómum gagnvart Rússlandi og rússnesku en ég vil samt læra slafneskt mál. Það liggur beinast við að læra pólsku, vegna þess að sambúðin við Pólverja hefur verið leiðarstef í þýskri þjóðarsögu síðustu árhundruð og fullkominn skilningur á þýskri þjóðarsál er langtímamarkmið mitt. Pólska gæti því verið hopphella í áttina.

Þá eru Pólverjar kúltúrþjóð og Kristssoldátar. Ef pólski konungurinn Jan Sobieski hefði ekki komið Vínarbúum til hjálpar á ögurstundu árið 1683 og brytjað Tyrkina í spað sem sátu um borgina (sjá nánar hér) þá bæri Evrópa annan svip í dag. (Hér er reyndar líka mynd af augnablikinu þegar Jan Sobieski sendir páfanum í Róm hraðboð um fall hundtyrkjans. „Gjörðu svo vel, hraðboði, seg Hans Heilagleika af sigri Vorum. Hlaup, hraðboði. Hlaup.“)

Pólverjar hafa sem sagt verið til margs annars nýtilegir í veraldarsögunni en flaka fisk á Íslandi og lyddast undir kommúnistum, eins og helstu fordómar gegn þeim hljóða. Pólverjar hafa átt sér þroskað ritmál frá alda öðli og státa af bókmenntum sem pólskukunnátta væri lykill að.

Frédéric Chopin var pólskur, eða Fryderyk eins og það hljómar á pólsku.

Á ferðalagi um Vestfirði hefði pólskukunnátta ýmiskonar hagræði og fyrirgreiðslu í för með sér.

Á næstu dögum birtast fleiri greinar undir heitinu Merkilegasta slafaþjóðin (fyrir utan Rússa, sem teljast ekki með).

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Krakúff

Einhvern tíma ætla ég að stíga út úr lest í Kraká sem kemur frá Berlín. Þá ætla ég að spyrja gamla konu: „Przepraszam, która godzina?“ Og konan svarar: „Jest godzina dwunasta.“ Og ég svara: „Dziekuje bardzo,“ og fer burt.
In jenen Tagen

Ég sat við hliðina á manni áðan, af hverjum var lykt af Dómínós-pizzum, sígarettum, svita og áfengi. Það er lykt sem ég tengi bara við eina sitúasjón.
Ég elska bókmenntateoríu

Skyndilega eru Straumar og stefnur og Þórbergur Þórðarson uppáhaldsnámskeiðin mín. Guði sé lof fyrir strúktúralisma og Suðursveit. Hatur mitt á bókmenntateoríu hefur nú sefast mjög, reyndar svo að ég vakti í alla nótt og hlustaði á impressjónísk hljómveitarverk og las nokkrar greinar eftir Derrida og Foucault. Það er svolítið eftirtektarvert hvað þessi skrif eru glæsileg og merkingarþrungin ef maður les þau fordómalaust.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Í dag fékk ég bréf númer 3. Það var frábrugðið hinum bréfunum að því leyti að í því var bara stafarunan „Ó ó ó ó ó ó ó ó ó ó ó“ á víð og dreif um blaðið og sem fyrr klippt út úr Morgunblaðinu.

Sko. Ef einhver lesandi þessarar síðu er að þessu mér til hrellingar má sá hinn sami alveg fara að gefa sig fram og við getum hlegið að þessu saman. Að öðrum kosti verður að gera eitthvað í þessu.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti

Í fjórða bekk gekkst ég undir fimleikapróf um vorið. Prófið átti að snúast um sjálfuppfundna fimleikasýningu með kúnstugum hreyfingum. Til þessa var búið að stilla upp ýmsum tólum í Íþróttahöllinni. Ég stakk upp á öðru við desígneraða fimleikaflokkinn minn; að ég stæði úti á gólfi og þyldi Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson frá hjartans rótum og þeir myndu leika framvinduna. Með þessu móti þyrfti ég ekki að taka þátt nema frá theatrölsku sjónarmiði. Þetta gekk mjög vel. Eða svona. Þríhendurnar gengu ágætlega. Allt nema þessi tröllaukna náttúrulýsing. Það eina reyndar sem þeim tókst almennilega að leika, það voru hestarnir sem Gunnar og Kolskeggur riðu til skips. Svo var ekkert handa þeim að gera í átthendunum. Ekki neitt. Reyndar voru hestarnir það eina sem þeir gátu eitthvað leikið þegar ég hugsa út í það. Í öllu hinu voru þeir bara eitthvað að fíflast og hlæja undir framsögunni. Það breytti því ekki að Haukur frænka var mjög ánægður með framtakið. Ég spyr líka lesendur: Hvernig mynduð þið færa í leikbúning línurnar: „En spegilskyggnd í háu lofti ljóma / hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.“ Það er nú bara hægara sagt en gert, ha.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Hví?

Ég virðst vera eini maðurinn í öllu helvítis Útvarpshúsinu sem sá ekki Quentin Tarantino þegar hann kom í viðtal áðan. Horngrýtis.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Færslurnar tvær um ljóta kvenmanninn og hljóða og myrka afdrepið eru ekki tengdar.
Á móti mér situr einkar ófríður kvenmaður og starir á mig.
Í fríhöfninni á Kastrup-flugvelli er Hvileområde, hljóðeinangrað glerbúr með útsjón til flugbrautar, ekki ljósfrekt, þar sem er Lazyboy í hverju horni.

Það vantar alveg svona stað í Árnagarð. Mjög tilfinnanlega. Teftólógískt tilfinnanlega.
Mikið ert þú meydómslegur í dag

Ég hef Stíg Helgason grunaðan um að stíla fréttatilkynningar frá Mími, félagi íslenskunema. Það kemur ekki á óvart, enda er téður Stígur nú búinn að segja sig úr öllum námskeiðum til að einbeita sér að skemmtilegum tölvuskrifum á borð við þessi.

Nei, haldið þið ekki að rétt í þessu hafi Erlingur Óttar Thoroddsen gengið fram hjá mér í tölvuverinu í Árnagarði, vafalaust valhoppandi á leið í kennslu-tíma, en gefur sér þó engan tal-tíma til að eyða orði á kunningja sína. Hann leggur sig sko ekki í líma. Við að síma.

Þetta ætlar engan enda að taka. Þarna kemur Helgi Hrafn Guðmundsson, regnblautur á leið í sama kennslu. Tíma. Ábyggilega með síma. Innanklæða.

Hættum vér nú að ríma.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Julia Kristeva er hálfviti. Svo er hún líka forljót.
Ekki fyndið lengur

Ég fékk annað klippimyndabréf í dag, með sömu rithönd utan á. Það er einhver að gera grín að mér.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Linda P. sagði í sjónvarpinu í gær að sig dreymdi um að verða sendiherra.
Örn Árnason er mjög flinkur að búa til Pólverja með vatnsgreiddu hári og bullpólsku.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Minning úr Garðaskóla

[Re-yn'jong]-ið hefur kveikt í mér meira en ég vil. Núna streyma minningarnar fram án þess að gera boð á undan sér. Eins og til dæmis úr Sundlaug Garðabæjar kl. 8 að morgni vetrardags, þar sem ég stend myglaður og hlusta á Elísabetu Brand lesa nafnalistann rösklega og valdsmannslega og önnur hver stelpa er með trefil og heldur um úlnliðinn á sér og segir: „Nee, é e fofföddluð.“ Ég man að ég hugsaði alltaf um misræmið sem var milli þessa hátíðlega orðs og hins óvandaða framburðar.

Og nei mér dettur ekki í hug að fara á þetta dót. Aldrei. Nokkurn. Tíma.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Á ég að fara á [re-yn'jong] hjá gamla gagnfræðaskólanum mínum? Ég er nú á því að það eigi ég ekki að gera.
Guð minn góður

Mér er nú eiginlega hætt að standa á sama. Í dag fékk ég lítið bréf, sem bar nafn mitt og heimilisfang, ritað settlegri skólaskrift, að því er virtist með hendi gamallar konu. Frímerki hafði bréfið ekkert, en skartaði þess í stað forlátapóststimpli.

Nú. Inni í þessu bréfi var samanbrotið A4-blað. Á það voru límdir bókstafir sem klipptir höfðu verið út úr dagblöðum, bæði fréttum og auglýsingum. Úrklippur þessar mynduðu setninguna: „Ó ég hlusta / alltaf á þig.“ Skástrikið táknar skil milli samanbrotinna hluta blaðsins.

Nú eru nokkrir möguleikar í stöðunni:

1) Bréfið föndraði gömul kona sem finnst gaman að hlusta á mig í útvarpinu. Hún ætlar sér hins vegar ekkert lengra með þessa aðdáun en þetta.
2) Bréfið föndraði gömul kona sem finnst gaman að hlusta á mig í útvarpinu og ætlar að drepa mig og geyma mig í formalíni hjá sér.
3) Bréfið föndraði einhver misvitur kunningi minn mér til hrellingar.

Fólk sem fær svona bréf í bíómyndunum þarf iðulega að þola abdúksjón eða eitthvað þaðan af verra. Þess vegna þori ég ekki að labba einn úti í myrkrinu þessa dagana.