mánudagur, júlí 31, 2006

Úr The Cambridge Encyclopedia of the English Language eftir David Crystal

„Can the Royal Family provide enough prestige to Received Pronunciation to enable it to survive? Phoneticians have already observed glottalization (e.g. of final /t/ in hot) in the speech of younger members of the Royal Family. To some observers, this is a sure sign of the beginning of the end.“

Sic transit gloria mundi.

laugardagur, júlí 29, 2006

Dagdraumur

Heddfónar á hausnum, græna ljósið kviknar, heimurinn hlustar: „BBC World News, read by Atle Steenthorsen.“
„Vinir“ manns

„Nei, það er ekki það. Þú býrð bara svo langt í burtu, það er svo erfitt að komast til þín, svo mikið mál. Þú hlýtur að skilja það.“

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Það er svo erfitt að búa einn

Fyrir skemmstu þegar ég var ekki búinn að læra hvernig er best að haga uppvaski (það á að þvo upp jafnóðum svo það safnist ekki fyrir) þá lenti allt í kjarnorkusprengju; fullur vaskur og fullt eldhús reyndar af ógeðslegu óhreinu leirtaui með storknaðri pastasósu eins og aftökusveit hafi skotið sígauna eða geðsjúkling í nágrenninu.

Sömuleiðis var klósettið orðið staður hræðslu og viðbjóðskennda enda ekki á hverjum degi sem maður veður í storknuðu hlandi og vatnspollum með slímhimnu og líkamshárum ofan á.

Nei, þá hringdi ég í mömmu og sagði henni að koma að þrífa hjá mér. Síðan fór ég í vinnuna á kvöldvakt, og þegar ég kom heim um nóttina var búið að þrífa allt í eldhúsinu, skúra baðið, búa um rúmið mitt og taka óhreina tauið.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Í Lastalandi

Ekki eru allir sammála þessu. Sérstaklega ekki saurlifnaðarmenn og þjóðníðingar sem búa þarna í flokkum í nágrenninu og þurfa að sofa úr sér kókaín-rúsið um helgar og skrúfa bununa í skolskálinni í botn eftir nætursódómuna. Kirkjuklukkur eru þeim hatursefni.

Aftur á móti eru sömu menn iðulega miklir stuðningsmenn þess að reisa mínarettur með kjökrandi ímömum úti um allt í nafni fjölmenningar. Kirkjur eru ógeð en moskur eru æði.

laugardagur, júlí 15, 2006

Mér líður eins og götustráki eða Fagurfræðilegt mótvægi

Ólíklegasta fólk vafrar um internetið. Það getur bara sleppt því að lesa síðustu færslu og lesið þetta fallega ljóð í staðinn, og hlustað á Rannveigu Fríðu Bragadóttur syngja það. Þetta fangar svo vel, lag og ljóð, þegar kvöldhiminninn verður fjólublár á Íslandi á sumrin.


Sólskríkjan

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni;
hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt, sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein —
ó, ef að þú vissir, hvað mikið hún kunni.

Þar söng hún í kyrrðinni elskhugans óð
um óbyggðar heiðar og víðsýnið fríða,
og æskunnar barnglaða, blíðróma ljóð,
sem biður þess, sumarið, aldrei að líða;
því sitja þar vorkvöldin hlustandi hljóð,
því hika þar nætur og dreymandi bíða.

En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin;
hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn, —
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.

- Þorsteinn Erlingsson, lagið eftir Jón Laxdal.
Hvat mælti Óðinn í eyra Baldri áðr hann væri á bál hafiðr?

Spyrja nú halir allir í heimstöð. Zidane var þó ekki stunginn með mistilteini og brenndur heldur fékk klapp á bakið frá le Chef d'État. En ég þykist af varalestri mínum viss um að Valföður hafi mælt:

„Eh, succhiatore! Tua madre si da per niente e lo prende in bocca!“ *hönd sveiflað*
Hey, typpasuga! Mamma þín selur sig fyrir túkall og tekur það í kjaftinn!

Og hinn hvíti ás kveðið úr haugnum sem minning hans verður nú husluð í:

„Toi, putain de salope sodomisée, tu me fais chier!“ *úmp*
Rassriðna hórudrusla, ég missi saur í návist þinni!

föstudagur, júlí 14, 2006

Tenórrödd og nálarsnark

Mér hefir verið falið innan stofnunarinnar að velja síðasta lag fyrir fréttir 17.-30. júlí. Möguleikarnir sem þetta gefur mér til húmoristískrar misnotkunar skelfa mig.

Því nú er síðasta lag fyrir fréttir heilög menningarstofnun, ríki í Ríkisútvarpinu. Hvað um að spila Ham fyrir fréttir? Eða Purrk Pillnikk? Geir Ólafsson?

„Geir Ólafsson söng Dagurinn í dag, lag Friðriks Ómars Hjörleifssonar, sem nefndur var „absúrdhressi“, við ljóð Kristjáns Hreinssonar Skerjafjarðarskálds. Nafnlaus einstaklingur lék á skemmtara. Útvarp Reykjavík, klukkan er tuttugu mínútur gengin í eitt. Fréttir.“

Tenórrödd og nálarsnark, eða karlsópran Geirs Ólafs og skemmtari? Já það verður gaman í hádeginu á mánudaginn.
Nei, heyrðu mig nú

Bréfasendingar mínar báru ekki tilætlaðan árangur. Ég fékk í pósthólfið í morgun tvö blöð, Fréttablaðið og Blaðið. Blaðið sem ég borga fyrir, Morgunblaðið, barst mér hins vegar alls ekki.

Hins vegar þá var búið að fjarlægja bréfin sem stíluð voru á blaðbera Blaðsins og Morgunblaðsins. Fréttablaðsmaðurinn hafði greinilega ekki lesið sitt.

Nú má draga af þessu ályktanir:

a) Blaðberi Morgunblaðsins móðgaðist yfir því að ég skyldi draga hann inn í yfirsjónir annarra, því sannlega er það yfirleitt blaðberi Fréttablaðsins sem treður blaðinu bara einhvern veginn í lúguna svo það blokkerar allt annað. Hann hefur lesið orðsendinguna en farið að gráta og ákveðið að ég skyldi sko ekki fá Moggann í dag.

b) Öllum blaðberunum var sama um skeytasendingarnar, hentu orðsendingunni bara burt. Moggamaðurinn var á sterkum lyfjum í morgun og sveik mig því um vöruna sem ég hef þegar greitt fyrir. Blaðberi Blaðsins (tautologia anyone?) var í sólskinsskapi í dag og þóknaðist að afhenda mér það.

Þegar ég kom upp í fýlu yfir þessu, þá var Pólverjafjölskyldan byrjuð að blasta píkupopp og búin að skrúfa sjónvarpsstöðina Polsat í botn. Sömuleiðis gekk landskjálfti mikill um íbúðina mína þegar börnin fóru að hlaupa og hoppa viðstöðulaust.

Setti ég Warschauer Einzugsmarsch 1939 á fóninn contra inimicos meos Polaccos? Nei, vegna þess að ég er ekki alrúinn heilbrigðri skynsemi.

Reiði og gremja. Reiði og gremja yfir því að hafa ekki stjórn á aðstæðum mínum og nánasta umhverfi. Mig greip æði og því hringdi ég í öll dagblöðin þrjú og endurtók efnislega það sem stóð í bréfinu. Kurteislega og herramannslega. Allir lofuðu bót og betrun.

Hver veit nema það reynist Münchenar-grið?
Límt í þríriti utan á lúguna í nótt

Vinalegt en samt reprimandandi. Mikið má vera ef þetta leysir ekki vandann. Sjáum hvað setur.

Kæru blaðberar!

Atli heiti ég og bý á efstu hæð í þessu húsi. Ég vinn vaktavinnu hjá Ríkisútvarpinu og tæmi því póstkassann ekki reglulega á morgnana. Undanfarnar vikur hef ég fengið Blaðið mjög stopult og það virðist vera vegna þessa:

Þegar Morgunblaðið (eða Fréttablaðið, hvort sem kemur á undan) er komið í póstkassann er lítið pláss eftir og þess vegna lætur blaðberi Fréttablaðsins það standa hálfpartinn út úr lúgunni. Þetta sér sá sem ber út Blaðið í hádeginu og reiknar þannig með að ekki sé nóg pláss í póstkassanum eða lúgunni fyrir Blaðið, og lætur mig því ekki hafa það.

Ég fylgist vel með þjóðmálum og geri mér far um að vita hvað stendur í öllum dagblöðunum en mér þykir mikill fengur að þeim öllum þremur. Mér finnst það heldur verra þegar þau koma alls ekki.

Þess vegna langar mig að biðja ykkur um að leggjast á eitt svo að öll blöðin passi í póstkassann; blaðberar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins á morgnana geta reynt að koma sínum blöðum báðum fyrir inni í póstkassanum án þess þó að troða þeim og skemma þau, og þannig getur blaðberi Blaðsins komið sínu fyrir. Ég gáði að því mér til gamans og komst að því að blöðin eiga öll að geta komist fyrir inni í póstkassanum.

Hafið bestu þökk fyrir og ef þetta gengur ekki eða þið hafið einhverjar spurningar, þá er ykkur velkomið að hringja í mig eða senda mér tölvupóst:

Atli Freyr Steinþórsson
846-2871
afs1 hjá hi.is

laugardagur, júlí 08, 2006

Eins og meður búskmönnum eður Förjingum

Þetta helvítis land er óþolandi lítið. Fólk sem maður þolir ekki er einhvern veginn alltaf inni á gafli hjá manni í einu eða öðru formi, og iðulega kemur í ljós eftir langa mæðu að fólk sem þó fær að vera inni á gafli hjá manni er nátengt fólki sem maður hatar.
Úr skýrslum ríkisstofnunar

„Mínótu þögn varð vegna seinkunn veðufréttamans.“ Þakka þér fyrir að vera til, ó þú ómenntaði nafnlausi alþýðumaður, þú gefur okkur svo mikið.

En svona án gríns, þá eru málsögulegar ályktanir sem draga má af þessum bút álíka margar og atkvæði í setningunni.
„Mikið er nú Händel gamaldags“

Svona hugsuðu aristókratarnir í Vín einu sinni (reyndar segi ég nú bara fokkjú við svona viðhorfum, en hvað um það). Þeir fengu Mozart til að sprúsa upp á hann og „umbæturnar“ fólust aðallega í því að gera bassalínuna aðeins flóknari og erki-mózartískar óbókrúsídúllur eru komnar hér og þar: „Æi, helvíti var þetta klént hjá kallinum, hér þarf ég nauðsynlega að bæta við tilgangslausri óbókrúsídúllu.“

Þessu má í raun líkja við að fóli á borð við Marcel Duchamp yrði sleppt lausu inni í Péturskirkjunni með málningardollu og pensil.
Mansalsteknó og LP-platan Deutscher Polenfeldzug

Áður hefur komið fram að við hlið mér býr pólsk barnafjölskylda. Nú bregður svo við á sunnudegi, þegar ég er að lesa Morgunblaðið og hlýða hádegisfréttum, að ömurleg tónlist fer að berast gegnum veggina. Um var að ræða frámunalega háværa og örvæntingarfulla teknótónlist (takturinn: ííí ííí, ííí ííí ííí ííí), nokkurs konar mansalsteknó sem maður býst við að heyra í skúmaskotum Austur-Evrópu innan um gógódansara í búrum.

Mansalsteknói vill enginn hlýða yfir Morgunblaði og hádegisfréttum á sunnudegi, en einhvern veginn kunni ég ekki við að grípa til aðgerða. En næst þegar svona gerist þá verður skellt á fóninn Warschauer Einzugsmarsch 1939, nágrönnum mínum til yndisauka.

föstudagur, júlí 07, 2006

Ég er búinn að fatta Lost

Það er verið að rækta nýtt mannkyn á eyjunni. Þess vegna hafa þau svona mikinn áhuga á börnum, sbr. börn frönsku kerlingarinnar og nýfædda barnið hennar Claire. Orð sem Skotinn lét falla í síðasta þætti gefa til kynna að ekkert sé fyrir utan eyjuna, mannkynið hafi þess vegna væntanlega tortímst annars staðar en á eyjunni. Styttan með fjórar tær er jafnframt bending í átt til kenningarinnar um nýtt mannkyn, sem er á skjön við það sem fyrir var.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Atli Freyr Steinþórsson, húsmóðir

Ég fer í Bónus og geri magninnkaup. Síðan kem ég heim og sé reikninga í póstkassanum sem ég legg á minnið að þurfi að skila til þjónustufulltrúa í bankanum. Svo sé ég að Morgunblaðið er ekki enn komið og hringi og kvarta með bónuspokana í höndunum. Tek síðan upp úr pokunum. Æi, skrambans, osturinn inni í ísskáp er kominn fram yfir síðasta söludag. Best að rífa hann og frysta svo hann nýtist eitthvað. Oh, það þarf að þrífa eldavélarhelluna. Hvert lét ég Cif-kremið sem virkaði svo vel á bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla..........

Þetta átti aldrei að fara svona. Þetta átti ekki að gerast. Ég átti ekki að verða fullorðinn. Hver bað um þessar eymdarhugsanir?

laugardagur, júlí 01, 2006

Ályktun

Það er alltaf gaman þegar Englendingar tapa í fótbolta.
Nokkur gullkorn úr umfjöllun Sky-fréttastofunnar eftir tap Englendinga

Þulur: „There are the fans, despondent and horrified, watching each agonizing penalty after agonizing penalty.“

Illa tenntur maður með litríka húfu og einhvern ömurlegan Leicester-hreim, blokkerar loks myndavélina með lófanum: „Yeah, I feel robbed, absolutely robbed. I've cried my eyes out.“

Þulur: „The collective clamour for victory from these once happy fans didn't help England (áhersluþögn) fulfil their promise.“