mánudagur, mars 31, 2003

Danska – franska, þýska – gríska

Skyldi það vera tilviljun að fegurstu mál þessa heims koma í rímandi tvenndum?
Hernaðaríhlutun

Nokkrir hlutir hafa orðið fyrir barðinu á vanrækslu þetta árið, svo sem skólinn. Við það verður ekki unað mikið lengur. Þess vegna verða þessir hlutir tæklaðir frá og með deginum í dag með hernaðaríhlutun sem verður larger in scope than ever seen before. Mun hún ganga undir nafninu 'Operation Enduring Restoration' og verða fyrstu herdeildirnar sendar á bókalendurnar innan fárra mínútna.

sunnudagur, mars 30, 2003

Draumfarir

Nóttina fyrir úrslitin dreymdi mig afar mikið. Eiginlega alla nóttina, nánast stanslaust. Hápunkturinn var þó án efa þegar ég átti í hrókasamræðum við Hannes Pétursson skáld, en við spjölluðum heillengi saman um ýmsa hluti. Við áttum mjög innihaldsríkar samræður inni í húsi þar sem var að finna grátt og loðið filtteppi og dökkbrún mahóníhúsgögn. Voðaleg mid-seventies-stemmning.

Játning

Ég get alveg eins játað það núna. Ég á mér alterego sem eiga það til að brjótast fram. Þetta tiltekna alterego hef ég átt síðan í níunda bekk en það er hollenski flotaforinginn van Cleffens. Admiraal van Cleffens var í hollenska flotanum á umbrotatímum í sögu þeirrar þjóðar á sautjándu öld, og stýrði mörgu fleyinu gegn mörgum Spánverjanum. Miklum skaða hafa fallstykkin á skipum hans valdið. Hann þótti (og þykir) harður í horn að taka, enda á hann ættir að rekja til Leeuwarden og Delfzijl. Enginn skyldi eggja hann til einvígis fyrir sakir silfraðs korða hans.
Freudig, freudig, wie ein Held zum Siegen!

þriðjudagur, mars 25, 2003

Gloria in excelsis deo

Latínublað 5.A er rétt ókomið út. Nú þarf ég bara að prófarkalesa PDF-skjalið og þá er allt klappað og klárt. (Guð minn góður, hversu óendanlega óteljandi mörg hundraðþúsund af PDF-skjölum hefur maður prófarkalesið sér til óbóta í gegnum tíðina? Ansi mörg.)

Nú er bara að vona að 98,7% máladeildarfólks í neðri bekkjum viðurkenni makt myrkranna og fari á fornmáladeild. They don't know the power of the Dark Side.

Everything is going as I have foreseen.
Fimleikapróf

Ég tók fimleikapróf í dag með félögunum. (Já, fimleika-„próf“.) Það var rosalegasta sýning sem haldin hefur verið norðan Alpafjalla.

Í ár var stiginn endurreisnarhirðdans með viðeigandi hljóðfæraslætti og höfugum snúningum. Áhorfendur lágu í gólfinu af hrifningu.

Og þó. Rosalegasta sýning sem haldin hefur verið norðan Alpafjalla hlýtur að teljast fimleikaprófið í fyrra, en ég hef fyrir satt að það verði seint toppað. Mjög seint. Afar seint.

föstudagur, mars 21, 2003

Dia ti;

Af hverju á ég heima úti á Álftanesi? Hvers vegna þarf ég að dröslast í almenningsvagni allan liðlangan daginn, hættandi geðheilsu minni? Ef einhver góðviljaður maður á öldum internetsins vill gefa mér íbúðarhús í Miðstræti, þá má sá hinn sami kommenta hér fyrir neðan. Gerðu það ...

En núna er það útileikfimi.

fimmtudagur, mars 20, 2003

Fréttatilkynning

Friðrekur, af Guðs náð konungur Vinda og Gauta, Slésvíkinga og Holtseta, hertogi til Láenborgar og Þéttmerskis og Eydana yfirbjóðandi, greinir frá meiðingum sem gengu milli mín og Helgarinnar.is í gær. Málið var þannig vaxið að Helgi Hrafn áreitti mig sífellt í einu fimmmínútnahlénu og hætti ekki þótt ég þrábæði hann. Greip ég þá til þess ráðs að slá í hans útlimi honum til líkamstjóns. Ágerðist nú æsingurinn þegar Helgi neitaði að gefast upp og lauk honum svo að hönd mín slengdist í átt að tanngarði Helga. Mín túlkun er sú að Helgi hafi reynt að bíta í fingur mér, en Helgi heldur því fram að ég hafi kýlt hann. Loks hljóp Helgi út, þó ekki með formælingum í minn garð, heldur með ámátlegu þjáningartísti.

Ég, verandi sjentilmaður, vísa því öllum ásökunum um hrottaskap á bug.

sunnudagur, mars 16, 2003

Hvers á ég að gjalda...
fyrir að búa á þessu landi? Ég komst að því áðan að Öldin þrettánda er komin út í tveimur bindum, og kostar hvert bindi 5.800 krónur!

5.800 krónur!

Hvað réttlætir svona verðlag? Mér er spurn! Dugar þetta ekki fyrir barnaskóla í tvö meðalstór afrísk þorp og ársbirgðum af mjólkurdufti? Það er kannski hvort eð er algjör firra að lesa Öldina þrettándu í stað Sturlungu, en samt!

Nei, nú verð ég að róa mig niður og gríp því til hlutverkaleiksins míns Ibsen på Italien: set á mig lonníetturnar mínar og fer niður að þorpsbrunninum til að vaske blekbyttuna mína og sjálfblekunginn. Ahhh.

föstudagur, mars 14, 2003

AK

Akureyrarferðin var hin ánægjulegasta. Mig rekur ekki minni til að ég hafi ferðast með innanlandsflugi áður, þannig að það var heilmikil upplifun að spenna beltið, fara í loftið, drekka einn Svala, lenda og koma út í öðru landi. Þessi flugferð var svo stutt að það var ekki eðlilegt.

Akureyri er skrýtinn staður og kynlegur. Maður er á Íslandi en samt ekki. Fólkið talar undirfurðulegt afbrigði málsins en notar sama gjaldmiðil og við hin. Þá voru götuskiltin einnig á íslensku, mér til nokkurrar furðu.

RÚV-arar, þessir öðlingar, létu okkur fá bílaleigubíl og á honum þeystum við um eyrina í sætsíing áður en haldið var upp í MA. Húsakosturinn þar er skrýtnari en á Menntaskólareitnum, og er þá mikið sagt. Gamla skólahúsið þeirra MA-inga er um margt fallegt, en gera þyrfti nokkuð við það að innan. Þá hafa þau helgispjöll verið unnin á húsinu að gert hefur verið gat á bakhliðina hvar leiðir út í rana á enda hvers menn koma inn í ofurmódernt og straumlíneart lókal sem MA-ingar nefna Kvosina.

Var þar keppt. Var þar sigur unninn.

Á veggjum gamla skólahússins hanga margar myndir af gömlum útskriftarárgöngum úr skólanum, og eru elstu myndir frá þriðja áratug tuttugustu aldar, eins og gefur að skilja. Hló þá menntskælingurinn ég þar sem elstu myndirnar á veggjum Reykjavíkurskóla eru ívið eldri. Hnuss, þetta ungviði á Akureyri.

Eftir keppnina fórum við á Greifann restörang þar sem ég flottræflaðist og fékk mér steik. Varð þá ymjan mikil á bekkjum þegar uppskátt varð það að ég skyldi ekki borga með fimmþúsundkonu eins og minn er jafnan siður. Hatar ekki flottræfilinn, mar.

Að mat loknum héldum við í aðeins meira sætsíing þar sem ég vann mikið hreystiverk. Ég stökk ofan af geigvænlegu hengiflugi gríðarlanga vegalengd ofan á grjótharðan snjóskafl og lenti með þeim yndisþokka sem mér er svo eðlislægur. Af einhverjum völdum þótti viðstöddum ástæða til að hlæja að þessari fegurð. Þeir um það, helvítin á þeim.

Síðan var flogið heim og var þá kátt í vélinni.

miðvikudagur, mars 12, 2003

Endurbætur

Oddur Ástráðsson, rex internetus maximus, aðstoðaði mig við uppsetningu kommentakerfis. Hafi hann fyrir þökk vóra.
Eggjun

Skorað hefur verið á mig að fá mér kommentakerfi með þeim rökum að núverandi ástand væri „fokking óþolandi“. Sjáum til.
Ferðalag

Þá er það Akureyrin á morgun. Það verður gaman. Flugvél og svona.

þriðjudagur, mars 11, 2003

Kvikmyndir

Fór á Nóa Albínóa um helgina og mæli eindregið með henni. Íslensk kvikmyndagerð verður sífellt faglegri, sem er ánægjuleg og eðlileg þróun frá til dæmis Morðsögu, sem er ótrúlega óvönduð í alla staði, bæði hvað varðar filmuna (sem virðist hafa verið ónýt frá byrjun), hljóð, leik, handrit og, tja, ALLT annað.

Hvert er annars málið með filmuna í íslenskum kvikmyndum? Sá einhver Kúreka norðursins á Skjá einum um daginn? Hljóðið var í svo miklu hakki að maður heyrði varla í Hallbirni, og filman var svo eydd, léleg, morkin, dökk og skemmd að maður sá varla það sem fram fór. Vildu íslenskir kvikmyndagerðarmenn ekki spandera í góða filmu fyrr á árum eða hvað?

sunnudagur, mars 09, 2003

Óskynsamlegt

Svo ég haldi nú áfram að tala um íþróttir, þá vil ég lýsa yfir vanþóknun minni á bekkpressu. Ég fór í þartilgert tól á föstudaginn og lyfti einhverjum skitnum 30 kílóum upp og niður nokkrum sinnum. Ég hef aldeilis þurft að borga það dýru verði því að:

1) Klukkutímana eftir þetta reyndist mér örðugt að skrifa vegna þess hversu mjög hendur mínar skulfu og var það óþægilegt.

2) Nú um helgina hafa upphandleggsvöðvar mínir verið í lamasessi og það er vont að hreyfa handleggina.

Mæli ég ekki með þessu við neinn mann.

föstudagur, mars 07, 2003

Skór

Fyrir rúmum mánuði átti ég tvö pör af íþróttaskóm, annað útipar, hitt innipar. Nú gerist það einn daginn að ég, heimkominn, finn ekki útiparið mitt í íþróttatöskunni og hefst þá mikil sókn í ranni mínum. Hvorki finn ég skóna heima hjá mér eða í óskilamununum vikuna á eftir og dró þá ályktun að ég hefði gleymt þeim í íþróttahúsinu og einhver tekið þá. Ég átti þó inniparið upp á að hlaupa.

Eftir næsta innitíma saknaði ég inniskónna minna einnig. Þeir höfðu vafalaust verið gripnir svo miklum harmi þegar útiparið týndist að þeir hafa ákveðið að fremja sjálfsmorð og kasta sér í glötun með því að hlaupast á brott. Needless to say þá fann ég skópar þetta ekki í óskilamununum. Ekki fékk ég ráðið neitt við það, en þótti kyndugt að hafa tapað tveimur skópörum á jafnmörgum vikum og þau horfið sporlaust (hahahaha, hvílíkt pun!).

Það þurfti því að punga út tíuþúsundkalli fyrir nýjum skópörum, og hefur farið fé betra.

Nú líður og bíður. Verður mér þá sjöunda mars 2003 klukkan tuttugu mínútur í tólf litið á óskilahilluna í íþróttahúsinu og sé ég þá skópörin tvö lifandi komin. Eftir dúk og disk koma þau aftur í leitirnar þegar búið er að lýsa þau látin og búið að halda jarðarför með tómum kistum og alles.

Ó, hvað það hefði verið hægt að eyða þessu fé í eitthvað skynsamlegra. Ó.

miðvikudagur, mars 05, 2003

Ho Megas

Fór á tónleika með meistara Megasi í gær, live and unplugged. Mikil gæfa var það þegar ég sá loksins hversu stórbrotinn hann er.

mánudagur, mars 03, 2003

Nú er fokið í flest skjól
Ég var að fylgjast með Silfri Egils í endursýningu núna áðan. Þar kom þættinum að Steingrímur J. Sigfússon var að tjá sig um einhverjar kjarabætur svo talandi: „Unga barnafólkinu munar um þetta!“

Þegar menn sem hafa atvinnu af því að tala sjá ekki sóma sinn í því að beita réttri íslensku, ja, þá er einfaldlega fokið í flest skjól. Ég skora á fólk að kjósa flokk Steingríms ekki í komandi kosningum.

laugardagur, mars 01, 2003

Þýskuþrautin
Þá hafa resúltöt Þýskuþrautarinnar verið gjörð heyrinkunn. Yfirritaður varð í fyrsta sæti, Andrés nokkur í 4.B í öðru og Magnús félagi minn Sigurðsson í því þriðja.

Ekki er ég á leiðinni til Þýskalands annað árið í röð þannig að ég óska Magnúsi held og lykke í Tyskland í sumar. Ekki mun hann sjá eftir þeim tíma.

Athygli vekur að MR-ingar skipa fimm efstu sætin, og máladeildarnemendur efstu þrjú. Gott mál það.

Alþjóðleg strætóferð

Fyrst þessi færsla hefur tekið svo internasjónala stefnu er ekki úr vegi að greina frá ævintýralegustu strætóferð lífs míns.

Þannig var mál með vexti að á Hlemmi kom inn hópur af blaðskellandi Kínverjum sem hófu fjálgar samræður í sætum sínum. (Mikið óskaplega talar þessi þjóð annars fallegt mál, með sérhljóðum sem gera mann grænan af öfund.) Með svona tveggja stoppistöðva millibili kom inn í vagninn nýr hópur af Kínverjum með innkaupapoka og allir virtust þeir þekkjast.

Í Kringlunni kom inn rauðbirkinn maður með húfu og gleraugu sem settist við hlið mér, tók upp farsíma og mælti á samísku, að því er mér best heyrðist. Mér datt í hug að snúa mér að honum og spyrja hann á sænsku hvort þetta væri samíska sem hann talaði, en brast kjark.

Það mun ég sýta til æviloka og lauk þar með ævintýri þessu.