fimmtudagur, janúar 31, 2008

Ohh

Ég fór í nammisjálfsalann.
Að halda aftur af sér

Þeir sem ætla að verða herra Ísland fara ekki nammisjálfsalann. Þeir sem ætla að verða herra Ísland fara ekki í nammisjálfsalann. Þeir sem ætla að verða herra Ísland fara ekki í nammisjálfsalann.
ÉG VAR EKKERT „ERFIÐUR“ Í LONDON!!!!!

Jestem Slavoj

Ég missti af Slavoj Žižek á laugardaginn. Ég var að horfa á hann í sjónvarpinu áðan. Mér líður eins og ég hafi verið í frjálsu falli í hálftíma og komið niður í sundlaug af marmelaði. Ég er með hjartslátt. Hvar getur maður lært slóvensku?

Núna man ég af hverju ég fór í háskólanám í hugvísindum.

mánudagur, janúar 28, 2008

Hagkaup, Garðabæ

- Fyrirgefðu, það vantar plastpoka þarna.

Starfsmaður forðast augnaráð.

- I don’t speak Icelandic.
- Oh, what languages do you speak then, eh, Jan, is it? Swedish? Finnish?
- English will be fine.
- OK. I was just looking for some plastic bags, to put the pastry into.
- I’ll go and get some.

Á leiðinni.

- Where are you from?
- From Latvia.
- Ah. Latviešu. That’s what Latvian is called ... in Latvian, isn’t it?
- How did you know that?
- I read it on Wikipedia. How would you say “Do you speak Latvian” ... in Latvian?
- I don’t know, I don’t speak Latvian.
- Why not?
- Because there are two languages in Latvia. I am Russian.

Samtalið virðist ekki bjóða upp á umræður um samskipti þjóðarbrota í Lettlandi og áþján kommúnismans.

- Your bags are there.
- Spasjiba!

Starfsmaður sýnir merki vanþóknunar.
Es lebe unser heiliges Deutschland

Myndin um Stauffenberg-plottið gegn Hitler í sjónvarpinu í gær var svolítið góð. Þetta var reyndar þýsk sjónvarpsmynd, Tom Cruise-myndin kemur í bíó í sumar eins og þið vitið. Ég ætla að sjá hana.

Ég furðaði mig á því hvað uppreisnin virtist vera víðtæk í herforingjaliðinu, ég hef alltaf lesið þennan atburð sem einhvers konar stundarbrjálæði í einum manni. En svo kemur í ljós yfirgripsmikil Hitler-antípaþía, sem ég hélt að hefði varla verið til. Það er að minnsta kosti minna gert til að halda henni á lofti en efni standa til. Gefur manni nýja sýn á tímann.

sunnudagur, janúar 20, 2008

MLH

Í vor útskrifast tveir menn með stúdentspróf frá Litla-Hrauni. Þessir menn hefðu að sjálfsögðu átt að fá að keppa í Gettu betur. Er ekki til einhver nefnd sem úrskurðar um svona? Öryggisráð Femínistafélags Íslands jafnvel?

- Spurt er um kaþólskt altarissakramenti. Við sjáum mynd.
*ding dong*
- Litla-Hraun?
- Já, er þetta transsubstantiatio, þegar menn trúa að oblátur og messuvín breytist í blóð og líkama Krists? ... Ööö, á fjórða Lateranþinginu árið 1215 ...
- Strákar, þetta er komið.
- Stebbi, þér verður fokking nauðgað í sturtu í kvöld!
- Getum við fengið ró í salinn?

Litla-Hraun í Gettu betur 2009!
Úff

Djöfull er ég kominn kirfilega á „fokk-eru-X-ár-síðan-Y“-aldurinn.

laugardagur, janúar 19, 2008

Hel

Kuldi og snjór hafa aldrei verið óvinur minn. Ég þrífst betur í snjó og kulda að vetrarlagi en blautu, brúnu grasi.

En núna hafa ofnarnir hjá mér verið bilaðir í þrjár vikur og þetta er eiginlega ekki hægt lengur. Ég er hættur að finna fyrir fótunum á mér. Það hrímdi í kókglasi á eldhúsborðinu í nótt.
Pik ap lajn

Witaj! Jesteś Polką?

föstudagur, janúar 18, 2008

Íslendingar eru ömurlegir í öllu

Það sem vakti athygli mína við skammarlegan og ófyrirgefanlega ömurlegan landsleik Íslendinga gegn Svíum í kvöld, var að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, var í markinu fyrir Svía. Nema í aukaköstum og vítum, þá kallaði hann á Christian Bale inn á völlinn. Af hverju veit ég ekki.

Þetta minnir mig á þessar ógnvænlegu lífsreynslur. Mér verður enn óglatt af kvíða þegar ég hugsa um þessar reynslur. Þegar ég sá þá með augunum mínum.

sunnudagur, janúar 13, 2008

Reality imitates art

Hvílíkur baggalútur.

laugardagur, janúar 12, 2008

Imperium

Hillary Clinton verður forseti í haust. Svo eftir átta ár verður Jeb Bush forseti, og situr í tuttugu ár í krafti stjórnarskrárbreytingar ad patriam defendendam in tempore belli. Síðan verður Chelsea Clinton keisaraynja, en ber heiðurstitilinn „President“ við trúarathafnir og þegar 11. september er minnst. Hún talar í ræðum fyrir senatinu um lifandi lýðræðishugsjón forfeðranna, þótt Bandaríkin verði þá orðin að keisaraveldi sem áreitir íslenskar ljóskur í pæjuferðum. Síðan verður bellum civile milli Clintoníana og Georgíana sem mexíkanskir barbara-málaliðar standa í að mestu. Svo ræna mexíkönsku barbararnir völdum og renna saman við amerísku yfirstéttina. Við tekur 1016 ára hnignunartímabil uns íbúar Samóa-eyja verða að drottnurum jarðarinnar.


Ósama bin Laden/Atli Húnakonungur traðkar á Ameríku/Ítalíu og öllu sem er fagurt og siðlegt og óbarbarískt, í boði Eugène Delacroix.

föstudagur, janúar 11, 2008

Nei

Neeeeeeei ...... nei. Nei, nei, nei, nei, nei, nei. Neineineineineineinei. Nei. Nei.

föstudagur, janúar 04, 2008

Fótbolti

Ég tala þýsku. Ég hef gífurlegan og óslökkvandi áhuga á fótbolta. Ég gegndi starfi þjálfara íþróttaliðs í úrvalsdeild 2004-2005 og er sjálfur tvöfaldur Íslandsmeistari í minni grein. Ég er borðleggjandi kostur í þetta starf miðað við kröfur.
Stíll

„Handþvottur er þýðingarmesta einstæða atferlið til að hindra útbreiðslu sýkinga,“ segir á bls. 29 í Tuttugu og fjórum stundum í dag.

Hingað og ekki lengra, ritstjórn Tuttugu og fjögurra stunda! Ég hafna því að ég verði að fá svona texta ofan í allt of lítinn póstkassa minn. Ég er hættur að láta stafsetningarvillur og beygingarvillur fara jafnmikið í taugarnar á mér og á yngri árum. Ég uppgötvaði þessa meginbreytingu í persónuleika mínum bara um daginn þegar textinn „Við byðjumst velvirðingar á myndtruflunum“ birtist í Ríkissjónvarpinu á Renée Fleming-tónleikum. Ég hlýt að vera inni í þessu „við“ í einhverjum skilningi. Og ég gat alveg skrifað upp á það að byðjast velvirðingar, vegna þess að mér þykir vænt um ypsilon og get unnt því þess að vera alls staðar. Ypsilonismi er merki þess að íslenskt ritkerfi sé lifandi og fljótandi. Kerfi sem er sjálfu sér nógt.

En það er ekki merki þess að íslenska sé lifandi og frjótt tungumál ef handþvottur er þýðingarmesta einstæða atferlið til að hindra útbreiðslu sýkinga. Það er merki þess að við getum hætt að lifa á þessu landi, brennt allt prentmál á íslensku og farið að afgreiða í kynlífssjoppu í Malmö.

Það er skrækróma og nefmæltur maður að tala núna í morgunútvarpi Rásar 2: „Það fer ofsalega mikið í taugarnar á mér að allar þulurnar sem eru núna, ha, nota allar alltaf L-I-T-L-A-U-S-A V-A-R-A-L-I-T-I! Ohh.“ Mikið er ég glaður að serótónínasamsetning heila míns kemur í veg fyrir að ég hafi áhyggjur af einhverju svona sem skiptir engu máli.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Dronningens nytårstale

Íslendingar.

Áramótaskaupið 2002 var dásamlegt. Og af hverju, spyrjið þið? Sjá mynd:



Þessi mynd segir allt sem segja þarf. Bonus and the Beautiful. Vá. Ég fæ hitafiðring í brjóstið af gleði.