föstudagur, júní 27, 2003

Fjörfiskur

Ég er með svo mikinn fjörfisk í hægri augabrún. Þetta er óþolandi. Ég er farinn að verða hræddur um að ég sálist úr þessu. Getur maður dáið úr fjörfiski?

Kvöldvaktir

Vaktavinna eru áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Sérstaklega þegar maður er á kvöldvakt til 19:00 eins og í dag og þegar ekkert er að gera milli 17:00 og 19:00. Ekkert. Ekki nokkur skapaðör hlötör.

miðvikudagur, júní 25, 2003

Hah!! Var að hindra konu í að taka Áhyggjudúkkur eftir Steinar Braga, lýsti innihaldinu í smáatriðum og hún varpaði henni frá sér.

Vald mitt sem biblíotekara er óskorað! Múahahahahahahaha! (bergmál)
Woody Allen...

...kemur um þessar mundir fyrir í kynningarmyndbandi frá franska ferðamálaráðinu til að reyna að bæta tengslin milli Frakklands og Bandaríkjanna. Ástæðan? „So that I don't have to freedom-kiss my wife when what I really want to do is French-kiss her.“ Haha.

mánudagur, júní 23, 2003

Aðdáendur

Ég er stundum að hugsa um hvað það er óréttlátt að dæma fólk af aðdáendum sínum. Hvers á Richard Wagner að gjalda fyrir að hafa eignast geðsjúkling sem aðdáanda nokkrum áratugum eftir dauða sinn? Hvers vegna þarf tónlist hans að líða fyrir upphafningu sem sinnisveikir menn veittu henni á nokkurra ára tímabili?

Ég fæ ekki séð að tónlist Wagners hafi gegnt stærra hlutverki í Þýskalandi á þessum árum en, til dæmis, melódían við Deutschland über alles. Nema síður sé. Ég þori að fullyrða að sá lagstúfur Haydns hafi verið brúkaður við mun fleiri nasísk tækifæri en tónlist Wagners. Og að sjálfsögðu ávallt beintengdur þjóðernissósíalískri heimsyfirráðahugmyndafræði.

Væri þá ekki ráð að banna Haydn? Það væri svo sem við hæfi, enda ótrúlega melankólísk og sorgleg tónlist sem liggur eftir þann mann. Eða ekki.

Ég sé þetta fyrir mér: „Já, neinei, við forðumst að spila svona þriðjaríkisáróður hér í Ísrael. Enda er það alveg deginum ljósara að í öllum sembalkonsertum sínum leggur Haydn blessun sína yfir helförina. Þá leggur brennslufnykinn af sinfóníunum hans, sérstaklega Parísarsinfóníunum. Og ég ætla nú ekki einu sinni að nefna strengjakvartettana, guð minn góður, eins gróflega antísemitískir og þeir eru.“

mánudagur, júní 16, 2003

Tíminn bifast áfram hér á Bibliotheca Maxima Gloriosa Gardbæensis. Hingað flykkjast andans menn og lesa í skinnbókum þeim fornum sem hér eru geymdar, hlekkjaðar við múrsteinsveggina, og bergja af nornabrunninum. Bókasafnið liggur í hinu ægifagra og tyrnda citadelli Gardburg, hvar meykónginn ríkisins er að finna, kembanda hadd sinn.

Hingað koma ekki allir til að lita fornar skinnbækur. Hinn endinn á spektrúminu er líka til, enda hafa safnast fleiri pantanir á Klintónkerlinguna en áður hafa þekkst.


Mikið óskaplega...

...hljóta Frakkar að vera eitt glaðlynt fólk. Þeir geta ekki orðið reiðir öðruvísi en að fá kóleru.

föstudagur, júní 13, 2003

Úff, bloggleti

Þeir á svenska teve-inu ætla sér að sýna 14 Ingmar-Bergman-myndir í sumar og fylgir Bergurinn þeim úr hlaði með persónulegu kommentari. Eftir að hafa séð Det sjunde inseglet og Smultronstället í Hafnarfirðinum um daginn spyr ég: Verða nokkrar þeirra festar á dé vaff dé?

Já.