föstudagur, mars 31, 2006

Játning

Ég veit ekki hvort ég á að segja ykkur þetta en ég held ég hafi öðlast dýpstu og innilegustu lærdómsstundir lífsins í gegnum stærðfræði. Mér fundust öll dæmin í Almennri stærðfræði I-III svoleiðis: hver ný reikningsaðferð var ný sýn á heiminn, hver kafli var eins og sprenging sem felldi niður múra smárrar unglingshugsunar. Stærðfræðin stækkaði iðkendurna.

Mér fannst eins og bókin segði við mig á hverri einustu blaðsíðu: „Jájá, það er hægt að líta ýmsum augum á mennina og heiminn en ekki örvænta, augun vaxa sjálfkrafa í þér.“

(Og óskáldlega: Jájá, það er hægt að beita mörgum mörgum mörgum mismunandi reikningsaðferðum til að leysa stærðfræðiþrautir, en ekki örvænta, það er hægt að kenna þér reikningsaðferðirnar með einföldum og skipulegum hætti, lið fyrir lið.)

Hver nýr kafli var eins og opinberun en það var allt í lagi því maður hafði skilningsaugun til að takast á við hann. Ég tapaði þessari tilfinningu algjörlega á fyrsta ári í framhaldsskóla. Ég veit ekki af hverju. Kannski var það vegna þess að ég var með undursamlegan stærðfræðikennara í 9. og 10. bekk, en arfaslaka og vanhæfa öll árin mín þrjú í framhaldsskólastærðfræði, eða vegna þess að ég missti áhugann. Varla missti ég getuna?

Ég trúi því samt ekki að ég hafi misst áhugann, því ég man ennþá eftir þessari sterku og frelsandi tilfinningu sem fylgdi því að leysa erfitt stærðfræðidæmi, eins og maður stæði á fjallstindi, með dúndrandi hjartslátt og vindinn í hárið. Mér brá því eiginlega þegar ég fann hana ekki lengur haustið 2000. Ekki vott af henni.

Ég var mjög slyngur í stærðfræði í 10. bekk, en þegar ég fann ekki frelsunartilfinninguna lengur við útreikninga þá varð ég hræddur. Svo hræddur reyndar að ég hætti að reyna að takast á við þessa námsgrein í heild sinni fyrst ég fyndi ekki fyrir hjartslættinum og vindinum í hárinu. Mér fannst annað einhvers konar svindl (sjá færslu um stefnuna „fullkomnun eða tortíming“ hér fyrir neðan). Þetta logn náði lág/hámarki sínu á munnlegu stúdentsprófi vorið 2003, þar sem ég stóð uppi við töflu og hafði bókstaflega ekkert að segja. Mig langaði ekki til að það færi þannig.

Þess vegna læt ég mig stundum dreyma um að taka alla stærðfræðiáfanga (líka þá sem heita 800 og eitthvað) sem í boði eru við einhverja öldungadeild eða kvöldskóla þegar ég finn að það bærist eitthvað um mig og ég verð tilbúinn aftur. Ég veit ekkert hvenær það verður.
Fullkomnun eða tortíming

Þessi stefna getur líka kallast „ódauðleiki eða aldauði“. Hún felst til dæmis í því að ef ritsmíð hefur ekki burði til að koma nýju orðtaki inn í íslenskt mál og lifa þannig á vörum allra til loka ritaldar, eða verða klassískt og margþýtt bókmenntaverk á margar heimstungur, þá skila ég henni ekki og fell í skólanum.

Kallast þetta metnaður eða bara vitleysa?

fimmtudagur, mars 30, 2006

Kommt, ihr Töchter, helft mir braten

Það er ekkert eins og að steikja sér pulsur í hádegismat með Mattheusarpassíuna í bakgrunninum.

Ég get samt ekki gert ráð fyrir því að nokkur skilji tilvísunina í fyrirsögninni, enda er ég of gáfaður fyrir lesendur.
Leynir

Í kaffistofu Árnagarðs er búið að koma fyrir risastórum straumlínulöguðum skáp úr krómuðu stáli. Á honum blikka margir lcd-skjáir. Allur þorri nemenda telur að hér sé um að ræða kæliskáp undir matvöru. En það er ekki rétt. Í þessum skáp, sem heitir Jón Helgason, eru geymdar Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók. Hugsunin er sú að þegar gerð verður sprengjuárás á Árnagarð, þá komist þær undan, enda gruni ræningjana ekki að bækurnar sé að finna í kaffiteríunni aftan við muffinsið.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Atli verður Björn Rúnar Egilsson

Mig langar að fara til Rómar að læra samtalslatínu í Háskóla Gregoríusar páfa hjá föður Reginald Foster.

Ég gæti tekið eitt ár í engu nema latínu við Háskóla Íslands (þótt það bryti ýmis prinsíp sem ég hef), síðan sex vikna sumarnámskeiðið sem Reginaldus býður upp á, og síðan eitt eða tvö háskólaár í Róm. Eða ætti ég að sleppa einu ári í HÍ? Er hægt að fá Gregor metinn inn í íslenskt BA-próf? Ég er ekki viss um að ég vilji taka heilt BA-próf á Ítalíu, ef það er þá yfirleitt hægt, sem ég efa.

Eftir stendur að ég nenni ekki að læra frönsku lengur, ég ætla að læra ítölsku og latínu á Ítalíu.

mánudagur, mars 27, 2006

Æska

Ég man þegar Örn og Örlygur urðu gjaldþrota og Spaugstofan sneri út úr nafninu í grínauglýsingunni Örn og Öreigur. Þá hugsaði ég: „Hey, kaldhæðni er sniðug.“
David

Mig langar að vekja athygli á þessari brjáluðu mynd. Svona gera menn ekki lengur, því miður. Ekki síðan leiðtoga-symbólismi fékk á sig vont orð. Mig langar líka að vekja athygli á hinni stórkostlegu laumu-táknbeitingu neðst á myndinni, sem felst í því að rista nafn Karls mikla geðveikt klunnalega á klöppina, og síðan skör hærra meitla BONAPARTE með ævintýralegum settlegheitum.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Gettu betur

Oj.
Gettu betur

Algjört fekalmatter.
Gettu betur

Djöfuls kakistókrasía.
DIE DREI RHEINTÖCHTER

(in der Tiefe des Tales, unsichtbar)

Rheingold! Rheingold! Reines Gold!
Wie lauter und hell leuchtest hold du uns!
Um dich, du klares, wir nun klagen:
gebt uns das Gold!
O gebt uns das reine zurück!


Ég vil fá gullið aftur.
Í sögulegri fjarlægð

Þegar ég horfi á Gettu betur núna finnst mér eins og ég sé rómverskur herforingi sem stendur á Fórum Rómanum og horfir á ótínda Austgota og Vandala ryðjast inn í Kúríuna og brenna hana til grunna, miðpunktinn í þúsund ára ríkinu sem hann tók þátt í að hefja til vegs en tapaði síðan einn góðan veðurdag þegar minnst varði.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Offramboð

Æ, það er svo erfitt að velja sér kúrsa.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Önnur færsla um hitt atvinnutækið

Hversu unaðslegt er það að fletta upp í nýju emergensíu/hanskahólfs-orðsifjabókinni eftir Ásgeir Blöndal Magnússon, og leita síðan nánari skýringa á orðsifjunum í Altenglische Grammatik eftir Sievers af bókhlöðunni, sem svo vill til að sjálfur Ásgeir Blöndal Magnússon átti? Hvílík hringrás.
Á dauða mínum átti ég von

Bókin Altsächsische Grammatik eftir Johan Hendrik Gallée var gefin út í Halle í Þýskalandi 1910. Þessi bók rataði upp á fjórðu hæð Þjóðarbókhlöðunnar í Reykjavík einhvern tíma á tuttugustu öld. Innan á kápuna framanverða er límdur þessi miði:

Ex libris Arwid Johannson - Readers are urgently requested to be kind to animals, and to work for the prevention of the employment of ponies in pits or mines.

„Já, það var í mars 2006 sem ég lét hjartað ráða og ákvað að snúa mér frá germanskri samanburðarmálfræði til verndunar smáhesta í kolanámum.“
Þegar neyðin er stærst er Ásgeir Blöndal Magnússon aldrei nærri

Hversu oft hef ég ekki verið á barmi taugaáfalls í amstri hversdagsins þegar frumnorræn endurgerð einhvers orðsins liegt mir gerade auf der Zunge? Það er óþolandi í þau ótöldu skipti sem það gerist á einum degi að hafa orðsifjabókina ekki hjá sér.

Af þessum sökum fór ég og keypti mér emergensíu-eintak sem ég ætla að hafa í hanskahólfinu á bílnum öllum stundum.

sunnudagur, mars 19, 2006

Will Ferrell

Getur það verið að Anchorman: The Legend of Ron Burgundy sé fyndnasta mynd í alheimi?

„I’m in a glass caaage of emotioooon!“

„Baxter!! Is that you?! Bark twice if you’re in Milwaukee!!!“

„I hate you, Ron Burgundy, you ... you poop mouth!“

„I’m expressing my inner anguish through the majesty of soooong!“

föstudagur, mars 17, 2006

Thai-thai

Ég hef ákveðið að læra tælensku til algjörrar hlítar. Með þessu áframhaldi get ég reynt skáldsöguna Áform eftir Michel Houellebecq á eigin skrokki:

Á bar í Bangkok:

Sa-wah-dee khrup?
Halló, hvað heitirðu?

Pradeth kong khun seow ngarm mark khrup.
Landið þitt er mjög fallegt.

Phom ma kiew gub ta-ra-kit khrup, phom phood phar-dar thai mi koy dee nak khrup.
Ég er hér í viðskiptaferð, en ég tala ekki mjög góða tælensku.

Phob puain khun di mai khrup?
Má ég fá að hitta þig og vinkonur þínar?

Nee rar-kar tao-rai khrup?
Hvað kostar það mikið?

Phom yak tai phen ngirn sod khrup.
Mig langar að borga í reiðufé.
Í fullri alvöru

Hvort á ég að læra tælensku eða víetnömsku?
Horn, anakrónismi og annað horn

Á árshátíð eru íslenskunemar víttir af meðbræðrum sínum fyrir ýmislegar skemmtilegar smásakir. Felst refsing í einu af tvennu eða hvorutveggja saman: að lepja dauðann úr skel (súpa brennivín úr skel sem væntanlega fannst við skólpstöðina á Ægisíðu) eða kneyfa horn (drekka vífilfellskan Lager-bjór úr myndarlegu horni á silfurfæti).

Á árshátíðinni fyrir tæpum tveimur vikum var ég víttur, en gleymdi á samri stund fyrir hvað sakir ölvunar. Aðspurður sagði dr. phil. Jóhannes Gísli Jónsson aðjúnkt að ég hefði verið víttur fyrir hvað ég væri „djöfull leiðinlegur“. Ég er ennþá að ná mér, Jóhannes Gísli.

En að rútuferð lokinni varð mér hugsað yfir aldirnar sem skilja mig og félaga minn Hlégest Holtason, brá mér afsíðis á klósett Hótel Sögu og risti djúpt í klósettþilið: „Eka AtalaR horna knaufiðo.“

Þessi áletrun mun reynast fræðimönnum framtíðarinnar óleysanleg ráðgáta.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Hrokafullar tölvur

Áðan sagði tölvan mér að það hefði komið upp syntax error þegar ég ætlaði á síðuna hans Stígs en tölvan skilur það ekki að hún kann ekki syntax.

Stígur nýtur reyndar þess fágæta heiðurs í bloggheimum að hafa link á þessari síðu. Það gerir Una líka. Allir að gera það gott.

mánudagur, mars 13, 2006

Bemerkung

„Glitnir er fornt, norrænt heiti sem ber með sér traust og kraft. Það er stutt og laggott og auðvelt í meðförum um allan heim. Þá er nafnið þekkt á Íslandi sem heiti á traustu og öflugu fjármálafyrirtæki.“

Auðvelt í meðförum um allan heim, óekkí. Hvaða skilaboð sendir Íslandsbanki til Finna þar sem samhljóðaklasar á borð við gl- eru ekki leyfðir í framstöðu? Ha?

Ekki er hægt að skilja þessa breytingu öðruvísi en sem huglæga kjarnorkuárás á hið finnska málsvæði.

föstudagur, mars 10, 2006

Nei

Ég var að uppgötva það að ég ber veikbeygt nafn. Karlmennsku minni þykir það mikil vanvirðing.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Það sem bjargar deginum

Haha.
Hornsteinar landsins braka þegar hin rámu regindjúp ræskja sig upp um meðferðarheimili í Krýsuvík

Í dag fannst mér skyndilega sem Árnagarður hefði breyst í bíl sem snögghemlaði á rauðu ljósi.

mánudagur, mars 06, 2006

Hið auma undorn

Ég get ekki gert neitt fyrir hádegi á daginn. Ég er ekki morgunmaður. Ég er kvöld- og næturmaður, þá geri ég hlutina. Helvítis dagur. Almenn vinna í landinu á ekki að hefjast fyrr en eftir hádegi. Helvítishelvíti. Sömuleiðis kúrsar; þeir sem eru kenndir fyrir hádegi hljóta að vera vanhelgir á einhvern hátt.

Og hvaða helvítis mynd er Crash? Mér er alveg sama því ég fer aldrei í bíó. Það er algengur misskilningur að það sé gaman í bíó. Það er dýrt, þú stjórnar ekki sjálfur sýningunni, viðurgjörningur í nammisölunni er á okurverði, það er annað fólk í salnum sem þér er illa við og hagar sér kjánalega, þú hefur ekkert aukaefni til að skoða, þú getur ekki setið við borð og etið appelsínu meðan fylgst er með, það er kalt í salnum, starfsfólk í bíó er undantekningalaust heimskar smástelpur. Aðalókosturinn hlýtur samt að vera heimska fólkið sem er í salnum með þér.

laugardagur, mars 04, 2006

Ég hata Gettu betur

Jafnframt hata ég Gettu betur. Það á að leggja hana niður.