Donizetti er ógeð
Ég er byrjaður að sjá (eða heyra) Wagner í nýju ljósi. Mér fannst hann alltaf svo langdreginn eitthvað og leiðinlegur, en eftir að ég fékk mér Hringinn á diski með Solti og fór að hlusta á tónlistina og leiktextann, í stað þess að horfa á sviðsetninguna sem ég á á DVD, þá opnaðist eitthvað. Núna heyri ég þetta öðruvísi en áður, á allt öðru plani.
Og mér er alveg sama þó einhver geri grín að mér fyrir að hlusta mér til ánægju á Gilbert og Sullivan og Johann Strauss. Allar óperur eru ekki foldgnæf eljuverk mannsnillinga og státa af óþrjótandi merkingarlögum sem hægt er að fletta ofan af. Sumar eru bara smellnar og fyndnar.
Í þeirri trú fékk ég mér Dóttur herdeildarinnar eftir Donizetti um daginn. Guð minn almáttugur, þetta er ekki neitt nema helvítis málmgjöll og hávaði út í eitt. Og aukinheldur laust við smellni og fyndni. Öll tónlistin er eins, Joan Sutherland að springa og kórinn að ææææææææpa í bakgrunni og hljómsveitin í einhverju brjáluðu tutti, bæði í aríum og resítatífum. Aukinheldur er sagan glundur. Ekki hlusta á Dóttur herdeildarinnar. Nokkurn tíma. Hún er drasl. Fáið ykkur heldur Leðurblökuna eftir Strauss eða HMS Pinafore eftir G og S.