sunnudagur, desember 25, 2005

Mamma og pabbi

Uppáhaldsjólagjöfin mín hlýtur að vera musikanlæggið frá Bang og Olufsen.
Í jólaboðinu í dag komst ég að því að frændi minn skrifaði 75 blaðsíðna glæpasögu sem heitir Dýpt, fjölritaði í 10 eintökum og gaf í jólagjöf. Svo margar voru nú þær blaðsíður. Svo talaði hann allt boðið um að hann vildi fá uppbyggjandi krítík.

laugardagur, desember 24, 2005

In puncto

Ég á vaktina í útvarpinu á aðfangadagskvöld á morgun. Klukkan 17:45:00 verður gert hlé á dagskrá þangað til klukkan 17:56:00 á slaginu þegar opnað verður fyrir hátíðarhringingu Dómkirkjunnar í Reykjavík. Klukkan 17:59:57 á ég að segja Útvarp Reykjavík, Útvarp Reykjavík, (bíða eftir að sekúnduvísirinn slái 18:00:00) gleðileg jól. Svona mikil nákvæmni snertir viðkvæman gleðistreng í brjósti mínu eins og tilvitnun mín í Morgunblaðsgreinina hér á undan.
00:00:00 GMT

Fólki eins og mér sem er hrifið af aukaatriðunum í tilverunni hlýnar um hjartaræturnar að frétta af mönnum sem láta sig svona hluti miklu varða.

En hvernig verður þá tímamælingin á atómklukkunni sem ég hef fyrir framan mig í vinnunni?

23:59:59, 00:00:00, og svo aftur 00:00:00 og síðan 00:00:01?

Eða: 23:59:59, og svo aftur 23:59:59, síðan 00:00:00, 00:00:01?

þriðjudagur, desember 20, 2005

Hinkra þú ókvíðin, þjóð mín, og óttast eigi, jólin koma á slaginu 18:00:00 GMT, 24.12.2005. Ekki 17:59:59 GMT eða 18:00:01 GMT, heldur 18:00:00 GMT.
Donizetti er ógeð

Ég er byrjaður að sjá (eða heyra) Wagner í nýju ljósi. Mér fannst hann alltaf svo langdreginn eitthvað og leiðinlegur, en eftir að ég fékk mér Hringinn á diski með Solti og fór að hlusta á tónlistina og leiktextann, í stað þess að horfa á sviðsetninguna sem ég á á DVD, þá opnaðist eitthvað. Núna heyri ég þetta öðruvísi en áður, á allt öðru plani.

Og mér er alveg sama þó einhver geri grín að mér fyrir að hlusta mér til ánægju á Gilbert og Sullivan og Johann Strauss. Allar óperur eru ekki foldgnæf eljuverk mannsnillinga og státa af óþrjótandi merkingarlögum sem hægt er að fletta ofan af. Sumar eru bara smellnar og fyndnar.

Í þeirri trú fékk ég mér Dóttur herdeildarinnar eftir Donizetti um daginn. Guð minn almáttugur, þetta er ekki neitt nema helvítis málmgjöll og hávaði út í eitt. Og aukinheldur laust við smellni og fyndni. Öll tónlistin er eins, Joan Sutherland að springa og kórinn að ææææææææpa í bakgrunni og hljómsveitin í einhverju brjáluðu tutti, bæði í aríum og resítatífum. Aukinheldur er sagan glundur. Ekki hlusta á Dóttur herdeildarinnar. Nokkurn tíma. Hún er drasl. Fáið ykkur heldur Leðurblökuna eftir Strauss eða HMS Pinafore eftir G og S.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Sköll sköll sköll sköll sköll sköll

Þegar svona er komið fyrir mér ímynda ég mér að ég fljóti glaður með bosmamiklum, kátum og viljugum Rínardætrum undir ábúðarmiklu forspilinu að Rínargullinu. Ahh. Ég sé að ein þeirra er í laginu eins og Elísabet Thorlacius.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Prófin

Í gær horfði ég á þáttinn WifeSwap á Stöð 2 og umritaði skjátextann í huganum með samræmdri stafsetningu fornri miðað við málstig árið 1200. Þó gerði ég ráð fyrir aðeins einu á-hljóðani.

sunnudagur, desember 04, 2005

Hjalti Snær Ægisson lakóníserar

„Afstaða Heimdellinga til RÚV er eins og afstaða karlpersónu í leikriti eftir Strindberg til ástkonu sinnar. Hann slær hana um leið og hann hrópar: "Ég elska þig!"“

Hahaha. Hahahahahaha. Það er hálftími síðan ég byrjaði að hlæja. Ahh. Þetta bjargaði deginum.