mánudagur, janúar 31, 2005

Also sprach Doctor Saxithorisfilius

„Studien zum urindogermanischen Wurzelaorist und dessen Vertretung im Indoiranischen und Griechischen“.

Þetta er svalasti ritgerðartitill í h-e-i-m-i-n-u-m.
Ég horfði á American Idol um daginn. Þar komu fyrir félagarnir Dirk og Adam. Annar þeirra var í grænköflóttri skyrtu ógirtri með gleraugu og stuttklippt hár. Baksvipur hans var nákvæmlega eins og Hjalta. Nákvæmlega eins.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Áðan mannaði ég mig upp í að bera erindi undir latínukennara. Við skulum segja að viðbrögð hans hafi komið mér þægilega á óvart. Aðrir latínukennarar hefðu brugðist öðruvísi við.

mánudagur, janúar 24, 2005

Hafið bláa hafið

Að yrkja ljóð og faðma fljóð á fornan móð er skemmtan góð.

Svo einfalt er það.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Ojæja. Af doctor Saxithorisfiliusi er það að segja að hann nennti ekki í skólann í morgun sakir óglýju orsakaðri af gremju. Eftir leiðindastúss síðdegis lá leið hans í Iðu í Lækjargötu þar sem hann hlóð fugl einn gjöfum.

Að svo búnu blótaði doctorinn þorra með tyrknesku delíkatesseni á horni téðrar götu. Hátíð þá blótar doctorinn iðulega með einhverju slíku en aldregi því vanhelga gúlmeti sem víðar tíðkast. Sá sem doctornum slíkt býður scal ongvu fyr týna en lífinu.

Eftir að hafa fest kaup á DV í Aðalstræti (já, doctorinn getur ekki lifað í menningarsnobbisma sínum ALLTAF, ALLS STAÐAR!) gekk hann í flasið á státsmey nokkurri með falleg augu. Hún glapti hann til brota á umferðarlögum og hvarf síðan.

Situr nú doctor við talnavölvu í Íslands úniversiteti og ætlar sér að ljúka við tiltölulega simpelt verkefni á næstu sjö klukkutímum sem tekst að öllum líkindum eigi sakir leiðinda.

Doctorsins telefónn er vanvirkur sakir vanhleðslu. Þeim sem skemmta vildu doctornum með kátlegum rafboðum er bent á líknarstofnanir andlega dauðra menntamanna.

mánudagur, janúar 17, 2005

Hvað er Atli að gera?

Atli er í Háskólanum, með stóru h-i. Alveg eins og þegar hann var í Menntaskólanum (M, ekki m). Háskólanám á vel við Atla þó hann hefði ekkert á móti því að vera að fást við eitthvað annað. Eina skilyrðið sem framtíðarstarfið verður að uppfylla er að hann fái að segja eitthvað gáfulegt. Það má líka vera fallegt. Og skáldlegt.

Atli er undarlega hrifinn milli málfræði og bókmennta. Einhvern veginn finnst honum sem skáldskapur sé málfræði í praksís. Hann leitar dyrum og dyngjum að einhvers konar millivegi og finnur hann helst í Jóni Helgasyni sem var vænn maður.

Atli er í nokkrum námskeiðum í Háskólanum. Þau eru:

Latína II: Ræðumennska Cícerós. Cíceró var maðurinn sem bjargaði sjötta bekk. Þegar allt var komið í þrot og hengiflugið blasti við í janúarbyrjun heyrðist allt í einu stórkostleg og tær rödd sem mælti til mín af festu og þunga: Kvússkve tand abútere KATILÍNA!!!! ... patientía NOSTRA?!?! Eftir tvöþúsund ár brann þessi texti ennþá. Þess vegna skráði ég mig í Cíceró ári seinna.

Heimspekileg forspjallsvísindi. Ég forfallaðist í fyrsta skiptið, en skilst að þetta sé leiðinlegt, enda kallað fýlan. En: sú er skoðun mín að sé heimspeki kennd af mikilmennum er ekkert betra í þessum heimi. Sé hún hins vegar kennd af dusilmennum breytist hún í andhverfu sína fullkomna. Ég bíð spenntur.

Íslensk beygingar- og orðmyndunarfræði. Málfræði, tunguvísdómur.

Íslensk setningafræði og merkingarfræði. Staffræði, málrófskunnskapur.

Íslensk bókmenntasaga. Íslenskar bókmenntir frá öndverðu liggja undir. 6800 bls. á leslistanum, Atlakviða til Péturs Gunnarssonar. Það verður sjón að sjá.

Þetta er Atli að gera. Jú, og ýmislegt annað reyndar.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Ég er höggdofa

Vínarborg. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja þannig að ég segi bara eitthvað. Hólí moðer of kræst, það er allt áhugavert í þessari borg. Maður stendur á götuhorni og þar eru óendanlega merkilegar byggingar. Síðan snýr maður sér við og þar er enn merkilegra um að litast.

Eins og ágætur maður sagði, þá er allt úr gulli í þessari borg. Allt. Líka almenningssalernin. Allar styttur eru af englum að blása í gullna lúðra. Ekki misskilja mig, slíkt er mitt element, en svona mikið af manns elementi verður bara orgasmískt.

Svo fór ég þrisvar sinnum í Vínaróperuna. Gamla raðfullnægingin.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Atli ávarpar öldur Saxelfar

Ó heilsid öllum heima rómi blídum og einkum ef ad fyrir ber engil med dökkan hadd og hálsmen, Saxelfur gód! tad er stúlkan mín.