miðvikudagur, september 27, 2006

IN HOC SIGNO VINCES

Það jafnast fátt á við það að fá hugljómun.
Skorarfundur í íslenskuskor

Það er gaman að sjá að skrifræði getur líka verið haha og híhí og hoho þar sem allir hoppa um eins og í (bakhtínsku) karnivali.

sunnudagur, september 24, 2006

Afstæðishyggjan tekur þig í rassgatið

Guð minn góður. Eða nei fyrirgefið, guðir mínir góðir. Á víðsýnið sér engin takmörk?

laugardagur, september 23, 2006

Í tilefni dagsins

„Eigi skal höggva.“

Mér finnst svolítið vanta húmorinn í þetta hjá honum blessuðum.
Undirmálsmenn tónlistarsögunnar

Enginn segir „Kalkbrenner“ með eins mikilli fyrirlitningu í röddinni og Grjóni. Ég verð alltaf glaður þess vegna þegar ég sé Kalkbrenners getið á prenti.

föstudagur, september 22, 2006

Efnisafmörkun óþekkt

Mig langar að læra allt sem er í boði í hugvísindadeild. Kannski ekki allt samt. Ég gæti hugsað mér að hefja BA-nám í 22 greinum næsta haust.

Hvað um það. Nú er mikil áhersla lögð á svokallað þverfaglegt nám og boðið upp á samkrull sagnfræði, málvísinda, guðfræði, bókmenntafræði, heimspeki (klassísk fræði, miðaldafræði o.s.frv.). Þess vegna legg ég til að skrefið verði stigið til fulls og boðið upp á svokallað omnistudium fyrir fróðleiksþyrsta menn eins og sjálfan mig. Það yrði heilsársnám í 15 ár sem lyki með þrjúhundruð þúsund orða þverfaglegri ritgerð um allt og gæfi lærdómstitilinn B.O.A. (baccalaureus omnium artium) eða boktor, doktorsnafnbót ofar.
NFS

Schadenfreude.

þriðjudagur, september 19, 2006

Passið ykkur

Í gær þegar ég keypti mér háþróttakortið bað ég ekspeditrissuna að leiðsegja mér í þessu svitalókúmi. Fyrir utan búningsklefann spurði ég staðlaðra spurninga um íverustað sturtna og skápa og uppskar beturvitrungshlátur forljóts hálfvita með freknur sem þar átti leið hjá. Ábyggilega á nippinu með að falla í hagnýtri sálfræði. Ef í mér vaknar grunur um að nokkur maður á borð við undirmálsfífl þetta hlæi að mér við hákamsrækt mun ég í alvöru talað draga upp eggvopn og lífláta viðkomandi. Það gefst ekki frestur til afláts hláturs heldur verður kutinn brýndur á þrekhjólsbeltinu við fyrstu augnagotu. Ekki aðra eða þriðju.
Ég er stúdent úr Hámenntaskólanum í Reykjavík

Ég keypti mér árskort í háþróttahúsið. Ef til þess kemur þá mun ég stunda háþróttir en ekki íþróttir eins og hinir aularnir. Eða hákamsrækt. Bara svo það sé á hreinu.

laugardagur, september 16, 2006

Stakdæmi

Mörgum finnst auðvelt að keyra og lesa í bók á meðan. Það fannst mér ekki á Lækjargötunni í gær.

miðvikudagur, september 13, 2006

Það er bara svona, haltu kjafti

Hvers ráðstöfun er það að í kaffistofum Félagsstofnunar stúdenta skuli ekki boðið upp á annað matarkyns en samlokur kaffærðar í majónesdrullu? Af hverju er þar ekki hægt að framreiða mat eins og hugtakið hefur verið skilið á Vesturlöndum nú um alllanga hríð?
The World According to Hreinn Benediktsson

Þetta er allt saman kerfi, og það er líka kerfi í kerfinu. Og kerfi í kerfinu í kerfinu. Og inni í því er líka annað kerfi. Inni í öðru kerfi, óháð hinu en samt háð. Þetta verkar allt hvað á annað, þ.e.a.s. afstaða stóru kerfanna innbyrðis. Og litlu kerfanna.
Svefnnauð

Mér er meinað að lesa bók í hægindastólnum heima hjá mér. Ég sofna alltaf eins og gamalmenni eftir eina og hálfa blaðsíðu. Þykir mér þetta illt.

Að öðru: Mikið yrði það erfitt að vera miðaldafræðingur ef kristnin hefði aldrei verið til. Þá myndi túlkunarmöguleikum fækka um 3000% prósent.

þriðjudagur, september 05, 2006

Gömul saga úr Árnagarði

Undrun mín mikil þegar nýi geimframtíðarstálskápurinn í teríunni reyndist ekki innihalda Konungsbók Eddukvæða heldur skinkubréf hálftómt.
Haust II

Við vitum að það er komið haust þegar nánast dýravistfræðilegt hugtak „skorarformaður“ öðlast skyndilega praktíska merkingu í lífi okkar.

mánudagur, september 04, 2006

Haust

Árnagarður að hausti, shall I compare thee to a summer's day? Andlitin bak við ritrýndar tímaritsgreinar holdgerast aftur, hlátur á kaffistofunni, metnaður í brjósti.

sunnudagur, september 03, 2006

Ljúgum að börnunum

Þegar ég var lítill sagði fullorðna fólkið mér að ég ætti ekki að ljúga upp á annað fólk, leggja í einelti, vera ósanngjarn, skilja útundan, öskra á aðra, vera bitur og hefnigjarn, snúa út úr, hæða þá sem minna mega sín, leggja fæð á fólk eða tala illa um það við aðra menn.

Frá því ég kom út af vernduðum vinnustöðum í skólakerfinu og fór að kynnast lífinu af eigin raun hefur mér virst ofangreint það eina sem fullorðið fólk tekur sér fyrir hendur.

föstudagur, september 01, 2006

Mat

Mikið finnst mér Bruckner yfirgengilega leiðinlegur.
Drottningarviðtöl

Þurfa drottningarviðtöl í íslensku sjónvarpi að vera slæm í sjálfum sér? Nú skil ég ég drottningarviðtal sem atburð þar sem einn fulltrúi ákveðinnar skoðunar, oftast óvinsællar eða sérlega umdeildrar, mætir einn í sjónvarpssal og situr fyrir svörum, án þess að fulltrúi sé á móti, veiti honum aðhald og haldi hinni hliðinni á lofti.

Eins og ég sé þetta er það ekki aðalatriði að aðhaldið komi frá öðrum viðmælanda. Það sem skiptir mestu máli er hvernig spyrillinn kemst frá starfi sínu. Þeir sem hafa einhverja nasasjón af bresku sjónvarpi vita að þetta er ekki vandamál þar. Þar hafa spyrlar í fréttaskýringaþáttum yfirleitt það orð á sér að vera hörkutól með blóð út á kinnar. Og eru það yfirleitt.

Fyrir íslenskan sjónvarpsáhorfanda er það stundum með ólíkindum hvernig spyrlarnir í bresku sjónvarpi haga sér. Þeir eru oftast á mörkum þess að vera ókurteisir og óuppdregnir, og virðast alltaf vera ósammála viðmælandanum. Þeir eru með allt sitt á hreinu og reka stanslaust ofan í fólk, gjarnan með háði og spéi.

Það er ekki óalgengt að fulltrúar óvinsælla skoðana í Bretlandi mæti einir og út af fyrir sig í svokölluð „drottningarviðtöl“. En þegar það gerist fær það fólk enga náð og miskunn frá spyrlinum.

Þegar fólk verður brjálað yfir slíkum viðtölum á Íslandi þá finnst mér alltaf eins og það skjóti fram hjá og ráðist á ranga hlið málsins. Það skiptir engu máli hvort menn mæta einir án mótstöðu frá andstæðingi sem líka situr á þingi; það sem skiptir öllu máli er að spyrillinn haldi uppi aga í þættinum og sé laus við hispur í málflutningi sínum.

Þetta er hins vegar vandamál á Íslandi þar sem sá misskilningur á „hlutleysi“ ríkisfjölmiðla veður uppi að það þyki dónaskapur að benda valdhöfum á að þeir hafi rangt fyrir sér og misnoti lýðræðislegt umboð sitt. Aðhald er hlutverk ríkisfjölmiðils. Og aðhald verður ekki iðkað með endalausum hummum og jáum og brosum og „takk kærlega fyrir að koma í þáttinn til mín“.