Má þetta á Íslandi?
Ég trúi ekki að ég sé að verða vitni að þessu. Það eru Íslendingar í umræðuþætti að ræða hápólitískt og viðkvæmt deilumál af yfirvegun. Þetta er þáttur frá 1984 þar sem þrír spekúlantar andmæla kenningum Miltons Friedmans við hann sjálfan. Íslendingarnir spyrja yfirvegaðra spurninga, hægt, virðulega og ígrundað. Friedman svarar af yfirvegun, hægt, virðulega og ígrundað. Þeir eru samt sem áður innilega ósammála. Þeir gætu reyndar varla verið meira ósammála.
Samt er enginn að reyna að yfirgnæfa annan, enginn grípur fram í, enginn öskrar. Það er röklegur þráður í þessum samræðum. Þetta er frábært. Móderatórinn, Bogi Ágústsson, heldur sér til hlés og stjórnar af skynsemi. Menn taki 60 sekúndur, hvaða 60 sekúndur sem er, úr þætti eins og Silfri Egils eða Kastljósinu til samanburðar. Settið er grátt teppi, svartur bakgrunnur og mahóní-stólar. Punktur. Glitz bannað. Þarna er spurt af viti og svarað af viti. Þátturinn er líka mjög langur, 70 mínútur, þannig að það er hægt að ræða mál djúpt og til enda. Svona eiga debatt-þættir að vera.
Ég vissi ekki að Íslendingar gætu þetta. Mig grunar nú samt að sú staðreynd að þeir þurfa að tala póleraða ensku í þættinum hægi á þeim umtalsvert. Ég legg til að Íslendingum verði hér eftir bannað að eiga í rökræðu nema á erlendu tungumáli. Það er í raun þjóðþrifaverkefni miðað við þetta að koma Paul F. Nikolov á þing og gera ensku að þingmáli. Er það ekki hægt?